Marshall-húsið hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands

Bláa lónið verðlaunað fyrir bestu fjárfestingu í hönnun

Listamiðstöðin Marshall-húsið hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2017 og Bláa Lónið hlýtur sérstaka viðurkennningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á árinu. Þetta var tilkynnt þegar Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fjórða sinn í Iðnó í gærkvöldi, en að er Hönnunarmiðstöð Íslands sem stendur að verðlaununum.

Það eru þeir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, arkitektar hjá Kurt og Pí, sem hljóta Hönnunarverðlaunin fyrir Marshall-húsið, en þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta. Marshall-húsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og veitingahúsið Marshall Restaurant + Bar. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að verkið kristalli vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. „Arkitektarnir hafa þróað verkefnið frá hugmyndavinnu til útfærslu og leitt saman breiðan hóp aðila til að skapa heilsteypt verk. Í verkinu er vel unnið með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Marshall húsið er gott  dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“ Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti aðstandenum Marshall-hússins peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur.

Þá hlaut Bláa Lónið viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun, en hún er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Í rökstuðningi dómnefndar segir að hönnun sé órjúfanlegur hluti af heildarmynd fyrirtækisins sem vinni náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. „Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa Lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig,“ segir í umsögn dómnefndarinnar, sem var skipuð þeim Sigríði Sigurjónsdóttur (sem var formaður), Katríni Maríu Káradóttur, Magnúsi Hreggviðssyni, Sigrúnu Birgisdóttur, Tinnu Gunnarsdóttur og Jóhönnu Vidísi Arnardóttur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.