Hryllingur hversdagsins

Rappsveitin Cyber hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, konseptplötuna Horror

Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir

Rétt undir næfurþunnu lattelituðu yfirborði hversdagsins býr ómældur hryllingur. Sortinn innra með þér, hugsanir sem þú vildir síður kannast við, örvæntingarfull og þráhyggjukennd leitin að ánægju, heiftúðleg viðbrögð við breyskleika annarra sem kalla fram óheflað dýrið í mannskepnunni – eða ef við notum orðfæri rapphljómsveitarinnar Cyber, öll erum við „motherfucking psycho bitch.“

Þessi undirliggjandi óhugnaður hversdagsins er viðfangsefni fyrstu breiðskífu Cyber en sveitin er ein þeirra sem hafa sprottið upp úr rappkvennahreyfingunni Reykavíkurdætrum á undanförnum árum og getið sér gott orð fyrir tilraunakennda tónlist, grípandi umgjörð og ágenga sviðsframkomu.

Hljómsveitin spilar á Iceland Airwaves í næstu viku, en það var einmitt til að komast á þá hátíð sem hljómsveitin var upphaflega stofnuð. Blaðamaður spjallaði við tvo þriðju hluta Cyber, rapparann Jóhönnu Rakel – sem kallar sig ýmist JuniorCheese eða YNG NICK – og plötusnúðinn Þuru Stínu, DJ Sura, um hrylling, rapp og Reykjavíkurdætur.

Frá Gullbylgjunni í Reykjavíkurdætur

Cyber var stofnuð sem thrash-metal hljómsveit af þeim Sölku Valsdóttur og Jóhönnu Rakel á fyrstu menntaskólaárunum. Yfirlýst markmið var að nota hljómsveitarstússið til að verða sér úti um miða á Iceland Airwaves: „Við vorum vissar um að ef maður væri í hljómsveit á Íslandi þá fengi maður spila á Airwaves. Það er kannski frekar dónaleg og grunn ályktun – en þegar maður er sextán ára og finnst maður eiga heiminn þá finnst manni það eðlilegt. Við stofnuðum þess vegna hljómsveit og nefndum hana Cyber – eftir uppáhaldsvaralitnum okkar frá Mac,“ rifjar Jóhanna Rakel upp.

Aðeins eitt lag var samið og lítið varð úr Airwaves-ævintýrinu – en hugmyndin um Cyber lifði þó áfram. Orðspori hinnar óvirku hljómsveitar var haldið lifandi og árið 2013 var Cyber svo loks beðin að koma fram á rappkvennakvöldi á Ellefunni, en hvorug þeirra hafði rappað áður.

„Salka hlustaði ekki einu sinni á hip-hop og ég var mjög lítið inni í því – hlustaði aðallega á FM957 og Gullbylgjuna. Við höfðum aldrei pælt í því að við mættum rappa, aldrei pælt í því að það væri möguleiki. Eiginlega eini kvenrapparinn sem við þekktum og var að gefa út tónlist á þeim tíma var Nicki Minaj. En við hugsuðum að það yrði ekkert mál að semja eitt rapplag. Það varð reyndar versta lag allra tíma og verður aldrei tekið aftur. Tveimur mánuðum seinna vorum við óvart byrjaðar í Reykjavíkurdætrum,“ segir Jóhanna Rakel.

Úr laginu Psycho

Erindi eftir Junior Cheese

Ég er fokking tussa // Er eigingjörn með stráka //

Ekki horfa á hann // Ekki tala um hann //

Ætla kannski að byrja með honum í næsta lífi // Þú mátt ekki snert'ann eða ég fokking bít þig.

Leiðir þeirra tveggja og Þuru Stínu lágu saman í gegnum Reykjavíkurdætur í fyrravor þegar hún byrjaði að þeyta skífum með rapphópnum: „Sunna Ben hafði verið að spila með Reykjavíkurdætrum nánast frá upphafi en hún gat ekki skuldbundið sig til að fara á Evróputúr sem var verið að skipuleggja og benti þess vegna á mig,“ útskýrir Þura. „Ég fékk símtal og hafði þá 30 mínútur til að ákveða hvort ég færi á túr með þessum stelpum sem ég þekkti mjög lítið,“ segir Þura. Hún sló til og kveðst ekki hafa séð eftir þeirri ákvörðun. Jóhanna lýsir því svo hvernig þær Salka hafi verið eins og hvolpar í kringum Þuru á tónleikaferðlaginu, elt hana á röndum, og loks beðið hana um að vera með sér í Cyber.

Tilraunakenndari hljóðheimur

Cyber kvað sér fyrst hljóðs fyrir rúmu ári, í ágúst 2016, með stuttskífunni Crap, sem var meðal annars tilnefnd til Kraumsverðlaunanna sama ár. „Ég hafði verið í svolítilli tilvistarkreppu, nýbúin að klára menntaskóla, nýhætt í sambandi og vissi ekki hvað í fjandanum ég væri að gera. Með Reykjavíkurdætrum var ekki alveg inni í myndinni að gera nákvæmlega það sem ég vildi. Ég fríkaði hálfpartinn út og vildi bara fara að gera eitthvað sólódót. En það varð úr að við ákváðum að gefa út nokkur lög með Cyber,“ segir Jóhanna.

„Þó að maður hafi mikið frelsi í Reykjavíkurdætrum þá er þetta náttúrlega svo rosalega mikið kollektíf,“ skýtur Þura inn í.

„Já, algjörlega. Þú mátt gera það sem þú vilt, en það er ekki pláss fyrir hvern og einn til að taka mikið af sólólögum. Í dag er þetta farið að snúast mikið um „showið“ og þá er best að hafa sem flesta í hverju lagi. Það var ekki það sem mig langaði að gera á þessum tímapunkti,“ segir Jóhanna.

„Frá uppphafi langaði okkur að skapa hljóðheim sem væri tilraunakenndari en það sem við höfðum áður gert, hafa frelsi til að gera eitthvað mjög skrýtið. Og fyrsta EP-platan varð þess vegna mjög skrýtin og skemmtileg. Þetta var mjög mikið fyrsta verk þar sem vorum við að skapa hljóðheim fyrir Cyber í þessu experimental-rappi,“ segir hún.

„Eftir að Crap kom út fórum við svo að þróa okkur áfram, þróa alls konar „effekta“ – við vorum í raun aldrei búnar að æfa neitt saman og fundum okkur fyrst og fremst á tónleikum,“ segir Þura.

Hryllingur hversdagsins

Eftir að þriggja laga platan Boys kom út á Soundcloud um síðustu áramót var svo ráðist í smíði fyrstu breiðskífunnar.

Úr laginu Elda

Erindi: Bleach Pistol

Lít á klukkuna, klukkan er átta // Ætlaðir að koma inn fyrir átta // Hringi og segi að klukkan sé átta // Þú segir að þitt úr sé korter í átta //

Ekki segja mér að // þú sért að gleyma því sem við ætluðum að gera // Ég gerði ráð fyrir því að vera að gera eitthvað // Svo ég sagði nei við sjitti sem ég hefði viljað gera. //

Elda mat, borða hann, tannbursta // Elda mat, borða hann, tannbursta // Kannski set ég þig í þurkarann // Næst þegar þú gleymir að setja í hann.

„Sölku langaði mjög mikið að gera hryllingsplötu – en hryllingur er alls ekki mitt sjitt,“ segir Jóhanna. „Ég hef bara séð tvær hryllingsmyndir á ævinni og er eiginlega skíthrædd við flest – er sjúklega ferðakvíðin, hrædd við dauða hluti og svo framvegis. Þannig að til að byrja með ætlaði ég ekkert að koma nálægt þessu. Hægt og rólega fór ég svo að fatta hvað það væri hægt að finna brjálæðislega mikinn hrylling í hversdagsleikanum. Það getur til dæmis verið margt algjörlega hryllilegt við það að vera í sambandi. Þegar ég fattaði þetta þá fór þetta líka að vera platan mín, platan okkar allra,“ segir Jóhanna.

„Já, það þarf ekki allt að vera eitthvað viðbjóðslegt til að það sé hryllingur. Og við vorum meðvitaðar um að hafa það ekki alltaf alveg ljóst hvort verið væri að tala um eitthvað raunverulega ógeðslegt eða bara eitthvað mjög venjulegt,“ segir Þura Stína.

„Við hlustuðum á einhverja hryllingstónlist þegar við vorum að undirbúa okkur en fyrst og fremst reyndum við að grafa inn í eigin sálarlíf og leita að hryllingnum í okkar eigin tilfinningum. Í laginu Psycho fórum við til dæmis að velta fyrir okkur hver er manns eigin „psycho-factor“, hvenær getur maður sjálfur verið leiðinlegur og vondur sem manneskja, Hvenær er ég algjört „creep“?“

Þura Stína bætir við: „Þegar maður leitar inn á við þá fer maður að sjá þessa venjulegu hluti. Það hvernig maður gerir hlutina eða hegðar sér getur verið mjög hryllilegt í garð einhvers annars.“

Junior Cheese, DJ Sura og Bleach Pistol skipa rappsveitina Cyber, en hér eru þær ásamt MC Blævi og Grétu Þorkelsdóttur hirðhönnuði.
Drottningar myrkursins Junior Cheese, DJ Sura og Bleach Pistol skipa rappsveitina Cyber, en hér eru þær ásamt MC Blævi og Grétu Þorkelsdóttur hirðhönnuði.
Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir.

Mikil samstarfsplata

Úr laginu Finnðig

Erindi eftir mcblær

Stopp, ég // hef pottþétt // séð þig í draumi // sæti, var það vont // þegar þú hoppaðir niður á jörðina? // Er ég lokkandi gott? // má, ég sjúga úr þér orkuna?

Fokk... er það skrýtið? // Búin að fá mér of mikið // Sjáðu samt húðina á þér! // vá, hún er blá! // Má ég slá hana, sjóða hana, flá af þér líkið?

Sorrý... ég er ekki voða vön að vera svona forward // Vildi bara vita hvort ég mætti koma að horfa // horfa á þig festast, horfa á þig sofna, // horfa á þig hverfa, horfa á þig dofna, // horf á þig engjast þegar beinin byrja brotna, // biðja mig um meira þegar kúpan klofnar.

Þrettán lög eru á plötunni og komu tíu mismunandi tónlistarmenn með takta eða grunna að lögunum þrettán – margir af helstu pródúserum íslensks hip-hops í dag: til að mynda Young Nazareth, Björn Valur Pálsson og Helgi Sæmundur. Stærstur hluti raddanna var svo tekinn upp af Sölku í hljóðveri Borgarleikhússins, platan hljóðblönduð af Reddlighs og masteruð af Friðfinni Oculus. Þá komu þó nokkrir gestalistamenn að plötunni: Emmsjé Gauti, Young Karin, Countess Malaise, Karo, Ljósvaki og Ty úr Geimförum.

„Salka hafði yfirsýn yfir hljóðið en hún er að læra hljóðtækni og þetta er hennar „passion“. Hún á hrós skilið fyrir að leyfa hverjum pródúser að njóta sína á sama tíma og þeir voru að vinna inn í þetta ákveðna konsept. Mér finnst það bara mjög mikið afrek að hafa náð að láta þetta virka sem eina heild. Þetta er svo mikið konseptalbúm. Fyrst þegar fólk hlustar á plötuna er mikilvægt að það hlusti á lögin í réttri röð. Það er ris og fall, upphaf, miðja og endir,“ segir Jóhanna Rakel og Þura bætir við: „Það var mjög fallegt hvað þetta var mikið samstarfsverkefni.“

Það vekur athygli að nokkrir listamenn sem koma úr rokk og raftónlistarhluta íslensku jaðarsenunnar skjóta einnig upp kollinum á plötunni: Sólveig Matthildur úr Kælunni Miklu, hljómsveitin Hatari og Sigrún. „Það var geðveikt að fá fólk til að gera hip-hop takta sem kemur ekki beint úr þessum sama heimi. Ég veit að maður má ekki að segja að eitthvað sé í uppáhaldi hjá manni, því þetta eru allt börnin manns – en Elda sem Sigrún gerði er líklega það lag sem kom mér mest á óvart,“ segir Jóhanna.

Að lifa, anda og klæðast Cyber

Eins og annað efni frá Cyber kemur Horror aðeins út á netinu, á Spotify og Soundcloud, en þær hafa hins vegar gefið út textabækling með öllum textunum auk niðurhalskóða. Útlit bæklingsins vísar jafnt í groddalega svartmálmstísku og fagurfræði hins stafræna ofhlæðis og er hönnunin gerð af Grétu Þorkelsdóttur, hirðhönnuði Cyber.

„Við höfum alltaf viljað vera með sterkt heildarkonsept. Við leggjum til dæmis mikið í tónleika, erum alltaf í karakter, í búningum, með ruglaða „visjúala“ og svo framvegis. Við erum með mjög vel útpælt og smart „merch“ og „heildarlúkk“ – þó ég segi sjálf frá. Fyrir mér er svo ógeðslega mikilvægt að geta verið Cyber á öllum sviðum, ekki bara í tónlist. Ég vil að þú getir lifað, andað, klæðst og borðað Cyber í öll mál. Á endanum vil ég að það verði til það mikið af rugli frá okkur að þú getir búið í Cyber-húsi,“ segir Jóhanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.