Hljóðsmiðir rappsins

Bylting hefur átt sér stað í hljóðheimi íslensks hip-hops á undanförnum árum - Betri forrit, Youtube-skólinn og aukinn metnaður

DJ Kool Herc er yfirleitt titlaður sem upphafsmaður hip-hop tónlistarinnar í New York á fyrri hluta áttunda áratugarins. Hann notaði tvo plötuspilara og gamlar fönkplötur til að skapa dansvæna tónlist. Fljótlega fóru sumir partígestir að grípa í hljóðnema og rappa yfir taktana.
DJ Kool Herc er yfirleitt titlaður sem upphafsmaður hip-hop tónlistarinnar í New York á fyrri hluta áttunda áratugarins. Hann notaði tvo plötuspilara og gamlar fönkplötur til að skapa dansvæna tónlist. Fljótlega fóru sumir partígestir að grípa í hljóðnema og rappa yfir taktana.

Allt frá því að hip-hop spratt fyrst upp úr fátækrahverfum New York fyrir fjörtíu árum hefur tónlistin verið náið samstarfsverkefni taktsmiðs og rappara, undirleiks og raddar. Starf og hlutverk taktsmiðsins hefur þó tekið stakkaskiptum og nýr búnaður sem hann hefur tekið í notkun við tónsmíðarnar endurmótað hljóðheim rappsins oftar en einu sinni.

Blaðamaður DV kynnti sér sögu hip-hop hljóðsmíða og ræddi við nokkra íslenska „pródúsera“ um hljóðheim íslensks rapps, grósku og tæknibyltingar í hljóðframleiðslu. Í helgarblaði DV eru enn fremur ítarlegri viðtöl við nokkra af þeim hljóðsmiðum sem hafa framleitt vinsælustu rapplög sumarsins á Íslandi.

DJ-inn verður framleiðandi

Í upphafi var það plötusnúður, sem var kallaður DJ, sem sá um að skapa hip-hop tónlistina með tveimur plötuspilurum og „mixer“, með því að endurtaka og blanda saman brotum úr fönk- og sálartónlist, á meðan rapparinn, sem fékk heitið MC, flutti rímur yfir taktana.

Á níunda áratugnum fóru hip-hop tónlistarmenn að smíða takta með trommuheilum, tækjum sem innihalda fjölda forsmíðaðra rafrænna trommuhljóða sem er hægt að raða upp. Afrika Bambataa, Beastie Boys, Run–D.M.C., LL Cool J, og Public Enemy voru á meðal þeirra sem notuðu Roland TR-808 í taktsmíðum sínum.
Trommuheili Á níunda áratugnum fóru hip-hop tónlistarmenn að smíða takta með trommuheilum, tækjum sem innihalda fjölda forsmíðaðra rafrænna trommuhljóða sem er hægt að raða upp. Afrika Bambataa, Beastie Boys, Run–D.M.C., LL Cool J, og Public Enemy voru á meðal þeirra sem notuðu Roland TR-808 í taktsmíðum sínum.

Á níunda áratugnum þegar rappið var ekki lengur aðeins götuíþrótt fóru hip-hop tónlistarmenn í auknum mæli að nota trommuheila, hljóðgervla og samplera til að smíða taktana. Hljóðsmiðirnir voru ekki endilega lengur aðeins plötusnúðar heldur farnir að smíða tónlistina frá grunni, þeir voru framleiðendur lagsins. Það sem á ensku er kallað „producer.“

Á tíunda áratugnum þegar hip-hop varð að óumdeilanlegu afli í alheims-meginstraumstónlist varð hljómframleiðslan stöðugt fágaðri og um margt svipaðri popptónlistarsmíðum. Vinsælustu rappararnir voru alþjóðlegar stjörnur með stór framleiðsluteymi, tónlistarmenn og risastór stúdíó á bak við sig. Fullkomin hljóðvinnsluver og fjölbreyttur tækjabúnaður voru hljóðfæri „pródúseranna.“

Samplerar gera tónlistarmönnum kleift að taka upp hljóð eða nota hljóð úr eldri upptökum, spila aftur og setja upp takta með þessum forsmíðuðu hljóðum. Akai MPC60 sem kom á markað árið 1988 var lengi vinsæll meðal hip-hop framleiðenda.
Sampler Samplerar gera tónlistarmönnum kleift að taka upp hljóð eða nota hljóð úr eldri upptökum, spila aftur og setja upp takta með þessum forsmíðuðu hljóðum. Akai MPC60 sem kom á markað árið 1988 var lengi vinsæll meðal hip-hop framleiðenda.

Á fyrsta áratug nýrrar aldar, þegar vinsældir danstónlistar (Electronic Dance Music) voru að aukast í Bandaríkjunum og tækin sem tölvutónlistarmenn notuðu urðu stöðugt öflugri, ódýrari og aðgengilegri, fóru að koma fram hip-hop framleiðendur sem notuðu aðeins tölvur með hljóðsmíðaforritum og midi-hljómborðum til að smíða tónlistina. Ekki aðeins gátu slíkir framleiðendur unnið mun hraðar en áður heldur varð hljóðheimur rappsins þar með náskyldari dans- og popptónlist samtímans. Þessi tölvugerða rapptónlist var sú nýstárlegasta og ferskasta undir lok áratugarins og hefur verið kóngurinn æ síðan, meðal annars á Íslandi.

Ekkert nema hljóðnemi og fartölva

Eitt vinsælasta upptöku- og hljóðvinnsluforritið í dag er Ableton Live sem er framleitt af Apple. Forritið er notað af tónlistarmönnum jafnt í poppi, danstónlist og hip-hopi.
Ableton Live Eitt vinsælasta upptöku- og hljóðvinnsluforritið í dag er Ableton Live sem er framleitt af Apple. Forritið er notað af tónlistarmönnum jafnt í poppi, danstónlist og hip-hopi.

Þessi þróun hefur gert það að verkum að stór hljóðvinnsluver eru orðin lúxus frekar en nauðsyn. Í dag er auðvelt að nálgast hljóðvinnsluforrit ódýrt (eða með ólöglegu niðurhali) og hægt er að verða sér úti um vel hljómandi stafræna hljóðgervla og hljóðpakka á netinu. Á sama tíma hefur aðgengi að kennslu á forritin og hvernig skal smíða tiltekin hljóð aukist með Youtube-myndböndum. Möguleikar á að dreifa tónlistinni milliliðalaust á netinu hefur þá gert áhugamönnum og upprennandi tónlistarfólki auðvelt að deila efni, eiga í samskiptum þvert á landamæri og bregðast við þróun og nýrri tísku á áður ómögulegum viðbragðshraða.

„Þessi „production“ heimur hefur sprungið mikið út að undanförnu, sérstaklega eftir að EDM sprakk út í Bandaríkjunum og það varð álitið meira kúl að pródúsera. Búnaðurinn er orðinn svo góður og það er orðið svo gott aðgengi að alls konar kennslu á netinu, myndböndum sem sýna manni hvernig er hægt að ná fram ákveðnu hljóði, og alls konar „resourcum.“ Þannig að menn eru orðnir fljótir að læra. Maður þarf ekkert nema míkrófón og fartölvu og þá getur maður búið til banging hip-hop lag,“ segir Björn Valur Pálsson sem er þekktastur fyrir að vinna tónlist með Emmsjé Gauta.

„Hljóðin sem fólk er að nota – soft-syntharnir – eru farin að hljóma svo miklu, miklu, miklu betur en áður. Ef þú ert svo að vinna með „compact“ hljóðpakka færðu líka mikið af sömplum sem er búið að taka upp en þú færð mikið frelsi til að breyta þeim eins og þú vilt. Svo ertu líka kominn með Youtube og Google, besta skóla í heiminum – þar er allt sem þú þarft að vita,“ segir Helgi Sæmundur úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur.

Arnar Ingi – einnig þekktur sem Young Nazareth – plötusnúður og pródúser Sturla Atlas, hefur svipaða sögu að segja: „Sjálfur lærði ég eiginlega allt af Youtube. Það er orðið svo einfalt fyrir fólk að skapa tónlist í dag. Krakkar „downloada“ bara einhverju upptökuforriti og kaupa sér míkrófón og geta strax farið að gefa út lög á Spotify.“

Lex Luger er einn af þeim framleiðendum sem hefur verið í fararbroddi hinnar stafrænu byltingar í rappi á 21. öldinni.
Tölvan tekur yfir Lex Luger er einn af þeim framleiðendum sem hefur verið í fararbroddi hinnar stafrænu byltingar í rappi á 21. öldinni.

Frá a til ö

Sú hip-hop tónlist sem heyrist á Íslandi í dag er eins og annars staðar að langmestu leyti smíðuð stafrænt í hljóðvinnsluforritum og með stýritækjum sem tengd eru við þau, en aðeins að örlitlu leyti með hliðrænum græjum á borð við trommuheila, samplera eða lifandi hljóðfæri. Líkt og víðast hvar erlendis eru það hljóðvinnsluforritin Ableton Live, Logic, Pro Tools, FL Studios og Cubase sem flestir notast við – en margir þeirra sem DV ræddi við byrjuðu tónsmíðaferilinn í enn einfaldari forritum á borð við Garage Band.

Erlendis eru það oftar en ekki stór teymi sem skipta með sér verkum í framleiðslu tónlistar. Einstaklingar sem sérhæfa sig í framleiðslu takta selja þá staka, annar aðili tekur við, aðstoðar við að ákveða uppbyggingu lagsins og semja laglínur, tæknimenn aðstoða og stýra upptökum í hljóðverinu, aðrir sjá svo um að hljóðblanda upptökuna og enn aðrir ganga frá laginu. Þá er yfirframleiðandi sem vinnur náið með rapparanum. Á Íslandi sinna pródúserarnir oftast fleira en einu hlutverki og ganga jafnvel í öll hlutverkin, starfa þá náið með rapparanum og framleiða lagið alveg frá lagasmíð til útgáfu.

Dúettinn Reddlights hefur lengi vel verið risinn í framleiðslu rapptónlistar á Íslandi og unnið með nánast öllum sem skipta máli, en kannski má helst nefna samstarf þeirra við Emmsjé Gauta, Friðrik Dór, BlazRoca og ekki síst Gísla Pálma. Á síðustu tveimur til þremur árum hafa svo bæst við fleiri teymi sem geta framleitt hljóðheim í hæsta gæðaflokki. Tvíeykið No Judging Eyes sem stendur á bak við Aron Can, teymið í kringum Sturla Atlas, og pródúserinn Marteinn sem kallar sig Bangerboy.

„Það eru margir sem gera bara takta, en það eru ekki margir pródúserar sem eru að ganga frá lögum alveg frá a til ö. Lengi vel voru bara örfáir sem gátu gert þetta, eiginlega bara Reddlights og StopWaitGo. En nú eru alltaf að bætast við fleiri,“ segir Logi Pedro Stefánsson, einn af mönnunum á bak við hljóðheim Sturla Atlas og fleiri tengdra verkefna.

Annar pródúser sem vinnur lög alveg frá a til ö er rapparinn og hljóðsmiðurinn Joe Frazier sem býr til tónlist með Herra Hnetusmjör: „Það eru margir sem eru bara að gera „beats“ en svo eru aðrir sem eru pródúserar í orðsins fyllstu merkingu, eru þá að vinna með listamönnum að því að setja saman lagið, ákveða uppbyggingu á söng, semja saman viðlög, hljóðblanda og mastera. Menn byrja oft á að gera bara takta en finna sér svo yfirleitt einhverja samstarfsmenn, þá myndast teymi rappara og pródúsers og í sameiningu gera þeir allt frá a til ö,“ segir Frazier.

„Pródúksjón og lagasmíðar haldast meira í hendur í hip-hopi en mörgum öðrum tónlistarstefnum. Það er kannski þess vegna sem það er mesta gróskan þar í dag,“ segir Logi Pedro.

Framleiðendur og taktsmiðir standa oftar en ekki í skugga rapparanna sem eru andlit tónlistarinnar út á við. Hér má sjá rapparann Gísla Pálma á Iceland Airwaves árið 2015.
Í bakgrunninum Framleiðendur og taktsmiðir standa oftar en ekki í skugga rapparanna sem eru andlit tónlistarinnar út á við. Hér má sjá rapparann Gísla Pálma á Iceland Airwaves árið 2015.
Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Fjölbreytt og alþjóðlegt

Fyrir utan gróskuna virðist íslenska hip-hopið ekki skera sig úr í neinum grundvallaratriðum frá annarri tónlist í hinum netvædda rappheimi. Það fylgir alþjóðlegum straumum og tísku, þannig á tilfinningaþrungið söngrapp á mörkum r'n'b, popps og hip-hops upp á pallborðið og harkaleg suðurríkjaleg trap-tónlist hefur verið sérstaklega áberandi. Eins og annars staðar eru taktarnir oftar en ekki að verða naumhyggjulegri en áferðarfallegri – eða þá þvert á móti, meðvitað skítugri.

Þegar viðmælendur DV voru spurðir hvort þeir teldu að það væri að þróast einhver sérstakur hljómur í íslensku hip-hopi voru fæstir á því að slíkt mætti greina: „Ég hef reyndar heyrt að sumt af því sem við séum að gera á Íslandi hljómi svolítið svipað og það sem er verið að gera í Evrópu – Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi. Það er kannski eitthvað evrópskt sánd,“ veltir Joe Frazier fyrir sér.

„Það sem er í gangi hér er alveg í beinni tengingu við það sem er í gangi úti í heimi. Um leið og það koma fram einhverjir rapparar sem verða stórstjörnur úti heyrir maður hvernig áhrifin koma strax hingað. Ég held að maður taki ekki beint eftir því að lög sé íslensk, maður er frekar farinn að halda að þau séu bandarísk – þau eru farin að hljóma svo vel,“ segir Björn Valur, en flestir viðmælendur DV tala frekar um fjölbreytileika í senunni, hér séu ólíkir taktsmiðir farnir að þróa eigin einkennandi stíl, frekar en að það sé eitthvað auðheyranlegt sem sameinar þá.

Fjölbreytileikann skortir þó tilfinnanlega á einu sviði. Á þeim nokkrum vikum sem blaðamaður vann umfjöllunina rakst hann nánast á engan kvenkyns pródúser sem vinnur takta eða pródúserar íslenska rapptónlist. Viðmælendur gátu bent á nokkrar stelpur sem eru að prófa sig áfram í taktsmíðum og í dýpstu grasrótinni eru einstök dæmi um lög unnin af konum – en í þeirri tónlist sem hefur verið áberandi á Spotify eða í útvarpinu í sumar er ekki um auðugan garð að gresja. Jafnvel þar sem konur eru að rappa eru það yfirleitt karlmenn sem snúa tökkunum.

Farin að jafnast á við það besta erlendis

Allir viðmælendur DV eru sammála um að að gæðin hafi aukist til muna í hljóðframleiðslu íslenskra rapplaga á undanförnum árum. Mun fleiri taktsmiðir séu farnir að gera tónlist sem á fullt erindi erlendis og jafnast jafnvel á við það besta sem er framleitt í Bandaríkjunum.

„Það sem mér finnst hafa gerst síðastliðin ár er hvað er allt er farið að sánda ógeðslega vel. Íslensk pródúksjón er bara allt í einu komin á alþjóðlegt level. Það er svo mikið af ungu liði sem elst upp við gott hljóð og hefur hæfileikann til að fatta hvaða hljóðfæri passa við hvað. Taktarnir eru orðnir svo rosalega góðir í heildina,“ segir Helgi Sæmundur Guðmundsson úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur.

„Við erum komin með alveg mjög góðan standard. Þeir sem eru að gera þetta af einhverri alvöru eru með alveg „legit sound“ sem myndi virka alls staðar annars staðar,“ segir pródúserinn Marteinn sem gengur undir nafninu Bangerboy.

Logi Pedro talar um mikinn áhuga á íslensku rappi til að mynda frá Skandinavíu. „Það er alveg ljóst að þetta er komið á sama level og þarna úti. Senan þar er auðvitað miklu stærri og sterkari, það eru meiri peningar, meiri iðnaður og fólk sem veit hvað það er að gera en gæðin eru ekkert minni hér.“

Engir brjálaðir peningar

Annað sem hefur áhrif á stöðu hljóðsmiðanna er að tónlistarbransinn er að breytast og sala tónlistar er aðeins lítill hluti af innkomu tónlistarmanna, sem eru farnir að einbeita sér í auknum mæli að framleiðslu varnings og ekki síst framkomu á tónleikum. En þar sem þessir þættir eru síður á könnu pródúsersins er ekki auðvelt að lifa sem hip-hop lagasmiður. Möguleikarnir á innkomu felast kannski hvað helst í tónleikahaldi með rappara og því að selja takta – en ýmsir viðmælendur DV telja það vera það sem koma skal.

„Ég hef ekki ennþá reynt að selja takta út en ég er alltaf með það bak við eyrað,“ segir Björn Valur. „Ef maður ætlar að reyna að lifa af þessu ætti maður að vera duglegri við að henda í einhverja banka. Þetta er enginn „booming business“ í þessu á Íslandi og engir brjálaðir peningar. En ég sjálfur er mjög heppinn að vera að spila með Gauta og Úlfur Úlfur,“ segir Björn Valur.

„Það eru mjög fáir íslenskir pródúserar sem eru að selja lög út til erlendra listamanna en það gætu auðveldlega verið miklu fleiri. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Íslenskt rapp er komið á það stig að Útón eða aðrir ættu að fara að skoða að setja upp einhvers konar lagasmíðabúðir þar sem erlendir listamenn koma hingað, eða eitthvert frumkvæði til að fá íslenska pródúsera til að semja fyrir erlenda listamenn,“ segir Logi Pedro.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.