Joe Frazier: „Ég hef alltaf haft taktinn í blóðinu“

DV dregur hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands úr skugganum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun DV um taktsmíði og hljóðframleiðslu í íslensku hip-hopi. Lestu greinina í heild sinni í helgarblaði DV sem kom út 6. október.


Joe Frazier

Maðurinn á bak við Ár eftir Ár með Herra Hnetusmjöri

Skírnarnafn: Jóhann Karlsson.

Aldur: 24.

Önnur nýleg lög: Herra Hnetusmjör - Spurðu um mig, Herra Hnetusmjör - Kling Kling, Emmsjé Gauti - Lyfti mér upp, BlazRoca - Fýrupp.

Samstarfsfólk: Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti, BlazRoca, Bent.

Forrit: FL Studio.

„Ég hef alltaf verið frekar athyglissjúkur, að minnsta kosti miðað við marga pródúsera sem eru bara sáttir við að vera í bakgrunninum – mig langar að vera með,“ segir Joe Frazier sem hefur verið nokkuð áberandi við hlið rapparans Herra Hnetusmjörs á sviði og í myndböndum. Joe er hins vegar ekki einungis rappari heldur gerir hann einnig taktana og smíðar hljóðheim laganna – til að mynda lögin Ár eftir Ár, Kling Kling, 203 Stjórinn sem hafa verið vinsæl í sumar og nýjasta lagið Spurðu um mig.

Joe – sem heitir réttu nafni Jóhann Karlsson – fetaði í fótspor föður síns og æfði trommuleik um tíma þegar hann var yngri. „Ég hef alltaf haft taktinn í blóðinu, ef svo má segja,“ segir Jóhann, en það var þó í gegnum eldri bræður hans sem hann kynntist rappi og taktsmíðum – þeir voru í rappsveitinni Dáðadrengir sem vann Músíktilraunir árið 2003. Á menntaskólaárunum fór hann svo að vinna takta af einhverri alvöru og prófaði fljótlega að senda þá á Emmsjé Gauta

„Ég vissi að Gauti væri að vinna að plötu svo ég sendi honum e-mail með nokkrum töktum. Honum og strákunum í ReddLights, sem voru að pródúsera plötuna, leyst vel á þetta og stungu upp á því að við myndum vinna eitthvað saman í framtíðinni. Ég gerði nokkur lög með Gauta og í gegnum hann kynntist ég nánast öllum í senunni – og þá byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Jóhann.

Það er þó fyrst og fremst í gegnum samstarf hans við Herra Hnetusmjör, hinn hraðmælta ráðherrason og Kópavogsstrák, sem nafn Frazier breiddist út meðal almennings: „Hann hafði verið að rappa yfir ófrumsamda takta sem voru í svipuðum stíl og þeir sem ég hafði verið að gera – Los Angeles klúbba-beat. Hann heyrði í mér á Facebook og við gerðum eitt lag áður en við hittumst. Í fyrsta skipti sem við hittumst gerðum við svo lagið Hvítur bolur, gullkeðja, sem varð mjög stórt. Upp úr þessu spratt svo mjög blómleg vinátta og samstarf.“

Joe segist fyrst og fremst sækja í grípandi bassalínur og poppuð viðlög og nefnir DJ Mustard, Nic Nac, Lex Luger og Kanye West sem helstu áhrifavalda í taktsmíðunum. Frazier notar upptöku- og hljóðvinnsluforritið FL Studios við tónsmíðarnar: „Ég er með hljómborð, en er ekki að taka hljóð úr neinu „hardware“. Ég nota mikið „virtual synth“ sem heitir Massive – hann er nánast sá eini sem ég nota. Það er til mikið af góðum hljóðpökkum í hann og mjög gott að fikta í honum.“

Frazier segir erfitt að greina einhvern sameiginlegan hljóm í íslensku hip-hopi í dag en hver pródúser sé að móta sér sinn eigin stíl og séu margir orðnir auðþekkjanlegir. Um það hvað skeri hans takta úr hópnum segir Frazier: „Ég er að gera meiri „west-coast mainstream pop-beat“ en aðrir sem eru að gera takta á Íslandi. Það er eitt af því sem tengir okkur Herra Hnetusmjör, við erum miklir aðdáendur þess konar tónlistar.“


Sjá einnig: Úr skugga taktsins

Lestu einnig: Hljóðsmiðir rappsins

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.