Þormóður um B.O.B.A: „Vildum gera lag sem myndi virka vel í partíum“

DV dregur hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands úr skugganum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun DV um taktsmíði og hljóðframleiðslu í íslensku hip-hopi. Lestu greinina í heild sinni í helgarblaði DV sem kom út 6. október.


Þormóður Eiríksson

Maðurinn á bak við B.O.B.A með JóaPé og Króla

Aldur: 21

Önnur nýleg lög: JóiPé og Króli - Oh shit, JóiPé og Króli - Sagan af okkur (feat. Helgi A og Helgi B).

Samstarfsfólk: JóiPé og Króli.

Forrit: Logic og FL Studio.

Lagið B.O.B.A. hefur á örfáum vikum farið langt með að verða eitt vinsælasta rapplag Íslandssögunnar, er mest spilað á Spotify um þessar mundir og situr á toppi vinsældalista Rásar 2. Nú þekkja allir og amma þeirra hina viðkunnanlegu rapptáninga JóaPé og Króla en maðurinn á bak við taktinn í þeirra frægasta lagi er minna þekktur, en það Ísfirðingurinn Þormóður Eiríksson.

„Ég var að æfa á gítar þegar ég var yngri og byrjaði að „pródúsera“ þegar ég var að reyna að gera „playback“ fyrir gítarinn. Smám saman hætti ég svo að grípa í gítarinn og fór bara að vinna tónlist í tölvunni. Ég hef verið að gera allt frá house og yfir í hip-hop, prófað mig áfram með alls konar tónlistarstefnur og það er eiginlega fyrst núna sem ég er ákveðinn í því að vinna að rappi. Þegar maður sér að eitthvað er að virka langar mann að halda því áfram,“ segir Þormóður. „Ég byrjaði upphaflega að gera tónlist í FL Studio. En þegar ég byrjaði að taka meira upp þá leit Logic betur út, þannig að ég nota Logic Pro X en hoppa af og til aftur í FL Studio.

Sameiginlegur vinur okkar hafði verið að tala mikið um JóaPé og Króla og sýna mér lög sem þeir höfðu verið að gera. Svo komu þeir og spiluðu á lítilli hátíð sem var haldin hérna fyrir vestan, LÚR – sem stendur fyrir Langt úti í rassgati. Eftir það komu þeir upp í stúdíó til mín og við kláruðum heilt lag á einum degi – það var Oh Shit,“ útskýrir Þormóður um upphaf samstarfsins við JóaPé og Króla.

Hann kemur að þremur lögum á nýútkominni plötu þeirra Gerviglingur en það er mismunandi hvernig lögin hafa verið unnin enda er hann í hálfgerðu fjarsambandi við rapparana. Oh shit framleiddi hann frá upphafi til enda, en í laginu Sagan af okkur smíðaði hann einungis taktinn og í slagaranum B.O.B.A var farinn einhvers konar millivegur. „Ég gerði taktinn, sendi hann suður þar sem þeir tóku upp hjá $tarra. Svo sendum við upptökurnar fram og til baka. Hann tók upp og sendi mér raddir og ég mixaði þær við, en svo masteraði hann.“

Og hvernig varð B.O.B.A til?
„Þetta er eitt af þeim fáu lögum þar sem að ég byrjaði á trommunum. Samdi svo hljómana og laglínuna á gítar en forritaði svo lagið í Logic Pro. Þegar „beatinn“ var tilbúinn þá sendi ég hann suður og fékk demó til baka um kvöldið, svo þróuðum við uppsetninguna á laginu saman í einhvern tíma. Við vildum gera lag sem myndi virka vel í partíum og svoleiðis.“

Um hvort það skipti máli hvar maður er staddur á landinu þegar maður er að vinna takta segir hann: „Það góða við Vestfirði er að maður hefur tíma og svigrúm til að hugsa, en það hamlar manni á vissan hátt að vera þar – tengiliðirnir eru í Reykjavík og maður ætti helst að vera á staðnum,“ segir Þormóður, en þegar viðtalið á sér stað er hann um það bil að flyta suður.

Sjá einnig: Úr skugga taktsins

Lestu einnig: Hljóðsmiðir rappsins

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.