Young Nazareth: „Það að gera feita músík er númer eitt, tvö og þrjú“

DV dregur hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands úr skugganum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun DV um taktsmíði og hljóðframleiðslu í íslensku hip-hopi. Lestu greinina í heild sinni í helgarblaði DV sem kom út 6. október.


Young Nazareth

Maðurinn á bak við Joey Cypher með Joey Christ (feat. Aron Can, Herra Hnetusmjör og Birnir)

Skírnarnafn: Arnar Ingi Ingason.

Aldur: 20

Önnur nýleg lög: Joey Christ - Túristi (feat. Birnir), Aron Can - Geri ekki neitt (feat. Unnsteinn), Sturla Atlas - Time , Sturla Atlas - I know, Cyber - Psycho (feat. Countess Malaise).

Samstarfsfólk: Sturla Atlas, Joey Christ, Cyber, Aron Can, Birnir og Floni.

Forrit: Logic.

Eitt vinsælasta lag ársins er Joey Cypher með rapparanum Joey Christ og hálfu landsliðinu í rappi: Herra Hnetusmjör, Birni og Aroni Can. Galsafullt rappið og myndbandið hefur vakið athygli en það er kannski ekki síst dansvænn takturinn og einfalt og grípandi undirspilið sem hafa stuðlað að vinsældum þess. Framleiðandi lagsins er Arnar Ingi Ingason, sem kallar sig yfirleitt Young Nazareth. Hann vakti fyrst athygli sem plötusnúður og annar pródúser hljómsveitarinnar Sturla Atlas en í sumar hefur hann orðið æ meira áberandi einn síns liðs, framleitt tvær plötur fyrir Joey Christ og gert slagarann Geri ekki neitt með Aroni Can og Unnsteini Manúel og nú síðast lagið Psycho með Cyber.

„Ég er búinn að vera í tónlist lengi, byrjaði í skólahljómsveit Kópavogs 8 ára og á henni margt að þakka. Fyrir fermingarpeningana keypti ég mér svo tölvu og hljóðvinnsluforritið Logic. Þá hafði ég aðeins verið að fikta við að DJ-a. Ég byrjaði þá að gera tónlist eins og þá sem ég hafði verið að spila, sem var aðallega house-tónlist,“ segir Arnar um upphaf tónlistarsköpunarinnar og aðspurður segist hann hafa lært hljóðframleiðsluna að langmestu leyti upp á eigin spýtur með hjálp Youtube.

„Þegar ég var í Versló fór ég svo að prófa mig áfram með gera eitthvað annað en house. Ég fann mig strax mjög vel í því að gera hip-hop takta fyrir ýmsa Versló-hópa.“

Logi Pedro rakst á tónlist eftir Arnar Inga á Soundcloud og fékk hann inn til að vinna með sér og gera takta fyrir Sturla Atlas. „Ég hef lært ótrúlega mikið af því að vera í stúdíóinu með Loga, hann hefur verið algjör mentor.“

Arnar segist lítið nota hljóðfæri eða utanáliggjandi vélbúnað – eða hardware – við tónsmíðarnar. „Þetta fer eiginlega allt fram í tölvunni. Ég nota eiginlega ekki neitt hardware, heldur er með soft-syntha og einhver trommusömpl ýmist úr trommuheilum eða alvöru trommum. Svo reynir maður að „tweaka“ þetta til svo þetta hljómi sem náttúrulegast.

Til að byrja með horfði ég mikið til Kanye West fyrir innblástur og geri það reyndar ennþá. Í seinni tíð hef ég horft mikið til hljóðheims og lagasmíða 40 sem hefur pródúserað Drake, og sömuleiðis Mike Will. Fyrst og fremst langar mig samt að búa mér til minn eigin hljóðheim eða skapa sérstakan heim með einhverjum listamanni.“

Arnar Ingi segist alls ekki vera ósáttur við að vera í bakgrunninum á meðan rappararnir og söngvararnir fái athyglina og séu andlit tónlistarinnar: „Það skemmtilegasta sem ég geri er að gera lög. Fyrir mér er það að gera feita músík númer eitt, tvö og þrjú. Það er auðvitað skemmtilegt að fá kredit fyrir það sem ég er að gera, en ég sækist ekkert í sviðsljósið. Þeir sem vita, þeir vita. Það er alveg nóg fyrir mig.“

Sjá einnig: Úr skugga taktsins

Lestu einnig: Hljóðsmiðir rappsins

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.