fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Úr skugga taktsins

Hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands að undanförnu

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 6. október 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk hip-hop tónlist hefur verið í miklum blóma undanfarin ár. Af dægurtónlistarstefnum er gróskan langmest í rappinu, hún er vinsælust meðal ungmenna og framþróun og nýsköpun mikil. Rapptónlistarmenn eru að sama skapi farnir að njóta almennra vinsælda, þeir fylla tónleikahallir og raka inn hinum ýmsu tónlistarverðlaunum. Í framlínunni eru rappararnir sem semja og flytja rímurnar, syngja, koma fram á tónleikum, móta sjónræna ásjónu tónlistarinnar og eru andlit hennar út á við.

En þeir sem smíða tónana, leggja taktana, hanna hljóðheiminn og semja jafnvel melódíurnar, mennirnir á bak við tónlistina, falla hins vegar oftar en ekki í skuggann – óviljandi eða viljandi. Á ensku eru þessir hljóðsmiðir kallaðir „producers“ – framleiðendur – en það hefur gengið illa að festa gott íslenskt hugtak á þessa þúsundþjalasmiði, þetta eru taktsmiðir, útsetjarar, upptökustjórar, hljóðblandarar og svo framvegis. Stundum sinna þeir bara einu þessara starfa en stundum öllum.

Í þessari umfjöllun var markmiðið að varpa kastljósinu á nokkra af þeim tónlistarmönnum sem hafa framleitt vinsælustu rapplög sumarsins og haustsins – fólkið sem hefur smíðað takta ársins 2017. Hér er ekki um að ræða tæmandi úttekt á helstu pródúserum íslensks hip-hops í dag – og má til að mynda nefna að tvö af áhrifamestu taktsmíðateymum íslensks rapps í dag, Reddlights og No Judings Eyes, afþökkuðu boð um að taka þátt í umfjölluninni, en bæði teymin hafa lagt upp með að halda sig í skugganum. Þá þarf umfjöllun um tilraunakenndari kima rappsenunnar að bíða betri tíma.

Í ljósi þess að kvenkyns rapparar eru að verða sífellt atkvæðameiri í íslensku hip-hopi kom það blaðamanni á óvart að ekki einn einasti kvenkyns hljóðsmiður hefur verið áberandi í íslensku meginstraumsrappi að undanförnu. Nokkur dæmi eru þó um taktsmíðandi stelpur í dýpstu grasrót rappsins auk raftónlistarkvenna sem gera órappaða hip-hop tónlist.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Young Nazareth

Maðurinn á bak við Joey Cypher með Joey Christ (feat. Aron Can, Herra Hnetusmjör og Birnir)
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=UM7pDMrVZXI&w=100&h=315]

Skírnarnafn: Arnar Ingi Ingason.

Aldur: 20

Önnur nýleg lög: Joey Christ – Túristi (feat. Birnir), Aron Can – Geri ekki neitt (feat. Unnsteinn), Sturla Atlas – Time , Sturla Atlas – I know, Cyber – Psycho (feat. Countess Malaise).

Samstarfsfólk: Sturla Atlas, Joey Christ, Cyber, Aron Can, Birnir og Floni.

Forrit: Logic.


Eitt vinsælasta lag ársins er Joey Cypher með rapparanum Joey Christ og hálfu landsliðinu í rappi: Herra Hnetusmjör, Birni og Aroni Can. Galsafullt rappið og myndbandið hefur vakið athygli en það er kannski ekki síst dansvænn takturinn og einfalt og grípandi undirspilið sem hafa stuðlað að vinsældum þess. Framleiðandi lagsins er Arnar Ingi Ingason, sem kallar sig yfirleitt Young Nazareth. Hann vakti fyrst athygli sem plötusnúður og annar pródúser hljómsveitarinnar Sturla Atlas en í sumar hefur hann orðið æ meira áberandi einn síns liðs, framleitt tvær plötur fyrir Joey Christ og gert slagarann Geri ekki neitt með Aroni Can og Unnsteini Manúel og nú síðast lagið Psycho með Cyber.

„Ég er búinn að vera í tónlist lengi, byrjaði í skólahljómsveit Kópavogs 8 ára og á henni margt að þakka. Fyrir fermingarpeningana keypti ég mér svo tölvu og hljóðvinnsluforritið Logic. Þá hafði ég aðeins verið að fikta við að DJ-a. Ég byrjaði þá að gera tónlist eins og þá sem ég hafði verið að spila, sem var aðallega house-tónlist,“ segir Arnar um upphaf tónlistarsköpunarinnar og aðspurður segist hann hafa lært hljóðframleiðsluna að langmestu leyti upp á eigin spýtur með hjálp Youtube.

„Þegar ég var í Versló fór ég svo að prófa mig áfram með gera eitthvað annað en house. Ég fann mig strax mjög vel í því að gera hip-hop takta fyrir ýmsa Versló-hópa.“

Logi Pedro rakst á tónlist eftir Arnar Inga á Soundcloud og fékk hann inn til að vinna með sér og gera takta fyrir Sturla Atlas. „Ég hef lært ótrúlega mikið af því að vera í stúdíóinu með Loga, hann hefur verið algjör mentor.“

Arnar segist lítið nota hljóðfæri eða utanáliggjandi vélbúnað – eða hardware – við tónsmíðarnar. „Þetta fer eiginlega allt fram í tölvunni. Ég nota eiginlega ekki neitt hardware, heldur er með soft-syntha og einhver trommusömpl ýmist úr trommuheilum eða alvöru trommum. Svo reynir maður að „tweaka“ þetta til svo þetta hljómi sem náttúrulegast.

Til að byrja með horfði ég mikið til Kanye West fyrir innblástur og geri það reyndar ennþá. Í seinni tíð hef ég horft mikið til hljóðheims og lagasmíða 40 sem hefur pródúserað Drake, og sömuleiðis Mike Will. Fyrst og fremst langar mig samt að búa mér til minn eigin hljóðheim eða skapa sérstakan heim með einhverjum listamanni.“

Arnar Ingi segist alls ekki vera ósáttur við að vera í bakgrunninum á meðan rappararnir og söngvararnir fái athyglina og séu andlit tónlistarinnar: „Það skemmtilegasta sem ég geri er að gera lög. Fyrir mér er það að gera feita músík númer eitt, tvö og þrjú. Það er auðvitað skemmtilegt að fá kredit fyrir það sem ég er að gera, en ég sækist ekkert í sviðsljósið. Þeir sem vita, þeir vita. Það er alveg nóg fyrir mig.“


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Oddur Þórisson

Maðurinn á bak við Ég vil það með Chase og JóaPé
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=rOpHkPxfQAo&w=100&h=315]


Aldur: 18

Önnur nýleg lög: Chase – Þekkir þá, Chase – Blame Me.

Samstarfsfólk: Chase.

Forrit: Logic


Kannski óvæntasti smellur sumarsins var lagið „Ég vil það“ með söngvaranum Chase og rapparanum JóaPé. Lagið átti þátt í að skjóta frontmönnunum tveimur upp á stjörnuhimininnn, en maðurinn á bak við slagarann er hins vegar óþekktari, hinn 18 ára gamli Seltirningur Oddur Þórisson sem smíðar takt og melódíu lagsins.

Samstarf hans og Chase er það fyrsta sem vekur athygli á honum, en nokkur lög hafa komið út með þeim félögum undanfarið ár og stefna þeir á plötu á næstu vikum.

Oddur lærði á trompet á yngri árum en segist hafa haft lítinn áhuga. Hann fór hins vegar að smíða tónlist í tölvunni í kringum 11 ára aldurinn, fyrst í GarageBand en síðar í upptökuforritinu Logic. „Ég byrjaði eins og flestir í einhverju EDM-sýrupoppi, síðan fór ég út í hip-hop og það sem ég hef verið að gera með Chase er eitthvað nýstárlegt popp með hip-hop „elementum“,“ segir Oddur og nefnir Daft Punk, The Wekend og Drake sem áhrifavalda í tónsmíðunum.

Ég vil það var eitt allra mest spilaða lagið á íslenska Spotify í sumar og eru það ekki aðeins ógleymanlegar línur JóaPé á borð við „ég er slaggur að njódda og liffa“ sem hafa gert það að verkum, heldur einnig glaðlegur takturinn og grípandi viðlagið.

„Upphaflega átti þetta að vera frekar hefðbundið hip-hop lag, en svo ákvað ég að reyna að gera þetta svolítið poppaðra og Drake-legra. Ég vildi til dæmis ekki nota mikla hi-hata eins og er svo vinsælt í hip-hopi í dag, þótt ég hafi verið mjög nálægt því í lokin.

Ég er mikill aðdáandi þess að nota alvöru hljóðfæri. Það er svo lítið notað af þeim í nútímatónlist – og sérstaklega íslenskri tónlist. Í þessu lagi er það þetta bjölluspil og svo einhverjar plastpípur sem ég tók upp og spilaði svo inn með samplerum. Ég held að bjölluspilið sé það sem gerir lagið að þessu „feel-good“ lagi sem það er,“ útskýrir hann.

„Það er líka rosa skrýtið slagverk í þessu lagi, furðuleg hljóð – eins og til dæmis hljóð sem heyrist þegar ég tromma með nöglinni á tölvuna mína. Svo er þarna bassatromma og önnur sem ég er búinn að klippa botninn af og setja „chorus“ á. Þetta gerir lagið svolítið ryþmískara. Pælingin var að gera þetta allt svolítið lifandi. Það er oft sem menn mastera lögin þannig að allt sé frekar flatt, en það var mjög meðvitað að láta lagið byrja lágt og verða svo smám saman hærra.“


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Joe Frazier

Maðurinn á bak við Ár eftir Ár með Herra Hnetusmjöri
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=ib246X9LxPE&w=100&h=315]


Skírnarnafn: Jóhann Karlsson.

Aldur: 24.

Önnur nýleg lög: Herra Hnetusmjör – Spurðu um mig, Herra Hnetusmjör – Kling Kling, Emmsjé Gauti – Lyfti mér upp, BlazRoca – Fýrupp.

Samstarfsfólk: Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti, BlazRoca, Bent.

Forrit: FL Studio.


„Ég hef alltaf verið frekar athyglissjúkur, að minnsta kosti miðað við marga pródúsera sem eru bara sáttir við að vera í bakgrunninum – mig langar að vera með,“ segir Joe Frazier sem hefur verið nokkuð áberandi við hlið rapparans Herra Hnetusmjörs á sviði og í myndböndum. Joe er hins vegar ekki einungis rappari heldur gerir hann einnig taktana og smíðar hljóðheim laganna – til að mynda lögin Ár eftir Ár, Kling Kling, 203 Stjórinn sem hafa verið vinsæl í sumar og nýjasta lagið Spurðu um mig.

Joe – sem heitir réttu nafni Jóhann Karlsson – fetaði í fótspor föður síns og æfði trommuleik um tíma þegar hann var yngri. „Ég hef alltaf haft taktinn í blóðinu, ef svo má segja,“ segir Jóhann, en það var þó í gegnum eldri bræður hans sem hann kynntist rappi og taktsmíðum – þeir voru í rappsveitinni Dáðadrengir sem vann Músíktilraunir árið 2003. Á menntaskólaárunum fór hann svo að vinna takta af einhverri alvöru og prófaði fljótlega að senda þá á Emmsjé Gauta

„Ég vissi að Gauti væri að vinna að plötu svo ég sendi honum e-mail með nokkrum töktum. Honum og strákunum í ReddLights, sem voru að pródúsera plötuna, leyst vel á þetta og stungu upp á því að við myndum vinna eitthvað saman í framtíðinni. Ég gerði nokkur lög með Gauta og í gegnum hann kynntist ég nánast öllum í senunni – og þá byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Jóhann.

Það er þó fyrst og fremst í gegnum samstarf hans við Herra Hnetusmjör, hinn hraðmælta ráðherrason og Kópavogsstrák, sem nafn Frazier breiddist út meðal almennings: „Hann hafði verið að rappa yfir ófrumsamda takta sem voru í svipuðum stíl og þeir sem ég hafði verið að gera – Los Angeles klúbba-beat. Hann heyrði í mér á Facebook og við gerðum eitt lag áður en við hittumst. Í fyrsta skipti sem við hittumst gerðum við svo lagið Hvítur bolur, gullkeðja, sem varð mjög stórt. Upp úr þessu spratt svo mjög blómleg vinátta og samstarf.“

Joe segist fyrst og fremst sækja í grípandi bassalínur og poppuð viðlög og nefnir DJ Mustard, Nic Nac, Lex Luger og Kanye West sem helstu áhrifavalda í taktsmíðunum. Frazier notar upptöku- og hljóðvinnsluforritið FL Studios við tónsmíðarnar: „Ég er með hljómborð, en er ekki að taka hljóð úr neinu „hardware“. Ég nota mikið „virtual synth“ sem heitir Massive – hann er nánast sá eini sem ég nota. Það er til mikið af góðum hljóðpökkum í hann og mjög gott að fikta í honum.“

Frazier segir erfitt að greina einhvern sameiginlegan hljóm í íslensku hip-hopi í dag en hver pródúser sé að móta sér sinn eigin stíl og séu margir orðnir auðþekkjanlegir. Um það hvað skeri hans takta úr hópnum segir Frazier: „Ég er að gera meiri „west-coast mainstream pop-beat“ en aðrir sem eru að gera takta á Íslandi. Það er eitt af því sem tengir okkur Herra Hnetusmjör, við erum miklir aðdáendur þess konar tónlistar.“


Mynd: Dýrfinna Benita

BNGRBOY

Maðurinn á bak við Sólsetrið með Sama-Sem
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=b1Jwi4Voork&w=100&h=315]


Skírnarnafn: Marteinn Hjartarson

Aldur: 25

Önnur nýleg lög: Reykjavíkurdætur – Kalla mig hvað?, GKR – Tala um.

Samstarfsfólk: GKR, Reykjavíkurdætur, Tiny, Dadykewl (Sama-Sem) og Trinidad James.

Forrit: Ableton


Þegar rætt er um þá fremstu taktsmiði í íslensku rappi í dag ber nafn Marteins Hjartarsonar, sem kallar sig Bangerboy, yfirleitt fljótt á góma. „Það hljómar allt svo ógeðslega feitt sem hann gerir, hann er með eitthvað „touch“ og það er einhver „X-factor“ í því sem hann gerir,“ segir plötusnúðurinn og taktsmiðurinn Young Nazareth til að mynda um hljóðframleiðslu hans. Og því verður ekki neitað – mörg lögin hans eru „bangers.“

Marteinn vakti fyrst athygli með töktum sem hann gerði fyrir rapparann GKR, hefur síðan þá gert lög fyrir Reykjavíkurdætur, skipað dúettinn Sama-Sem með rapparanum Dadykewl og mun pródúsera fyrstu íslensku plötuna með gamla rappbrýninu Tiny, auk þess sem hann hefur unnið með bandaríska rapparanum Trinidad James og unnið tónlist fyrir leikhús, sjónvarpsþætti, auglýsingar og fleira.

Marteinn hefur að eigin sögn verið að gera tónlist í tölvu í um tíu ár, glamraði á gítar án mikillar formlegrar kennslu áður en hann fór að gera takta og gefa út á netinu en þannig komst GKR í samband við hann. „Ég var með Soundcloud-síðu sem hafði verið að fá smá athygli frá fólki sem er eitthvað að pæla í þessu – en það eru ekki mjög margir. Gaukur hafði eitthvað verið að fylgjast með þessu og sendi mér skilaboð. Mér fannst það svo sætt að ég ákvað að vinna með honum.“

Marteinn notar hljóðvinnsluforritið Ableton við tónsmíðarnar og segist ekki notast mikið hljóðfæri eða utanáliggjandi hljóðgjafa. „Ég sem allt í tölvunni á lyklaborðinu, teikna í rauninni inn tónlistina í forritið, en stundum spila ég samt á gítar eða eitthvað annað líka.

Það fer eftir stílnum en mér finnst mikilvægast að það séu einhver kúl og áhugaverð hljóð í taktinum, hljóð sem maður kveikir ekki alveg á hver eru. Ég vinn mikið með það að hafa eitt hljóð í hverju lagi sem er frekar skrýtið, hljóð sem gæti staðið eitt og sér en getur líka fallið vel inn í hljómaganginn.“

Marteinn segir ekki víst að fólk sé farið að greina hvað einkenni hljóðheim hans enda hafi ennþá svo lítill hluti tónlistarinnar sem hann hefur gert komið út. „Ég veit það ekki, maður getur kannski heyrt það á því hvernig „beatið“ er sett upp. Svo nota ég oft eitthvað „fucked-up overdrive“ sánd.“

Eru einhverjir sérstakir pródúserar eða taktsmiðir sem hafa haft áhrif á þig? „Það var kannski aðallega þegar maður var að byrja, í kringum 2007, þegar maður var að hlusta á Madlib og J Dilla og aðra, en núna er maður eiginlega ekkert að pæla í því hvað aðrir eru að gera. Stærstan hluta tímans er ég að hlusta á eigin tónlist. Mér finnst best að gera bara hluti sem koma beint upp úr mér sjálfum.“

Nú vita margir hverjir GKR er en þekkja ekki þig þótt þú gerir stóran hluta af tónlistinni, finnst þér ekkert verra að það séu bara rappararnir sem fái heiðurinn? „Nei, það er í rauninni mjög þægilegt því þá þarf ég ekkert að hafa sérstakar áhyggjur af því að halda einhverju „face-i“. Það getur verið ótrúlega erfitt fyrir rappara að fá einhverja athygli og halda henni, þeir verða gamlir og detta úr tísku. Ég gæti hins vegar verið 70 ára kall að gera það sama, það ætti ekki að breyta miklu. Mér finnst það vera þægilegast við það að vera pródúser, maður getur verið 16 ára að eilífu.“

Marteinn hefur unnið með með nokkrum erlendum listamönnum að undanförnu en segist þó ekki endilega stefna á landvinninga með taktana sína: „Það er nóg að gera hérna heima. Ég hef áhuga á því að búa til íslenska tónlist af því að Ísland er svo menningarlega fátækt. Mér finnst það vera skylda mín að gera íslenska tónlist og bæta menningarlífið hérna.“


Björn Valur Pálsson

Maðurinn á bak við Hógvær með Emmsjé Gauta
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=FpCVC-k9X4k&w=100&h=315]


Aldur: 26.

Önnur nýleg lög: Emmsjé Gauti – Þetta má, Emmsjé Gauti – Reykjavík, Úlfur Úlfur – 15.

Samstarfsfólk: Emmsjé Gauti, Úlfur Úlfur, SXSXSX.

Forrit: Ableton


„Ég hataði eiginlega rapp þegar ég var í grunnskóla. Ég var alltaf mikill rokkari, var alveg í heavy-metal og dauðarokki,“ segir Björn Valur Pálsson, sem hefur samið og gert takta í nokkrum vinsælustu lögum undanfarins árs með Emmsjé Gauta, auk þess að vera plötusnúður hans og hljómsveitarinnar Úlfs Úlfs.

Björn Valur spilaði á trommur í rokkhljómsveit þegar hann var að alast upp í Grindavík og segist ekki hafa farið að hlusta á rapp fyrr en hann sá trommarann Travis Barker úr Blink 182 spila með plötusnúðinum DJ AM. „Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir að hljómsveitin mín hætti sem ég fór að gera tónlist aftur, þá fór ég að leika mér að gera takta í einhverjum upptökuforritum. Í lok 2014 fór ég svo út til Los Angeles í skóla til að læra Music Production. Það var fyrst þá sem ég fór að gera takta af einhverju viti,“ segir hann.

„Ég hafði verið góður vinur Gauta í svolítinn tíma og byrjaði fyrst að DJ-a með honum. Hann studdi mig mjög mikið strax í upphafi og bað mig bara að senda sér takta þegar ég væri kominn með eitthvað kúl.“

Og þegar Björn Valur kom heim frá borg englanna var hann kominn með nokkuð safn af töktum, til að mynda það sem varð að slagaranum Reykjavík.

Björn Valur notar Ableton Live við tónsmíðarnar og segir að oftar en ekki fæðist lögin á örstuttum tíma þegar hann hittir á áhugaverð hljóð eða melódíur.„Þetta er eiginlega allt gert í tölvunni. Ég er með „midi-controller“, búnað sem heitir Ableton Push sem ég nota mikið. Mér finnst það mjög gott til að henda út hugmyndum. Yfirleitt þegar maður er kominn með grunnhugmynd fer maður svo að líta í kringum sig og pæla hvort maður eigi að bæta við einhverjum hljóðfærum og svoleiðis.

Taktarnir koma mjög auðveldlega hjá mér en aðalvinnan finnst mér felast í vinnunni með listamanninum sem ætlar að nota taktinn. Þá þarf maður að taka upp, mixa og mastera. Ég er tiltölulega nýbyrjaður að taka upp sjálfur og er ennþá æfa mig í að mixa. Ég fæ ennþá aðra til að gera það fyrir mig því ég vil að hlutirnir hljómi virkilega vel. Núna eru það yfirleitt strákarnir í ReddLights sem hjálpa mér, og við erum svo í stöðugu samtali um hvernig ég vil hafa hljóminn.“

Hverju ertu þá að sækjast eftir þegar þú smíðar takt, hvað er mikilvægt í góðum takti? „Fyrst og fremst er mikilvægt að þetta „grúvi“, að það séu grípandi melódíur sem maður getur sönglað með. En svo er það bara einfaldleikinn. Þótt það sé gaman að hlusta á lög sem eru rosalega flókin og flottar tónsmíðar er það yfirleitt einfaldleikinn sem nær manni. Fyrir mér snýst takturinn svo aðallega um bassann og trommurnar, maður verður virkilega að finna fyrir bassanum, bassatrommunni og snerlinum – það verður að hitta hart. Svo notar maður hi-hatana til að búa til grúvið í kringum það.“


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þormóður Eiríksson

Maðurinn á bak við B.O.B.A með JóaPé og Króla
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=qIU9RkQV2xg&w=100&h=315]


Aldur: 21

Önnur nýleg lög: JóiPé og Króli – Oh shit, JóiPé og Króli – Sagan af okkur (feat. Helgi A og Helgi B).

Samstarfsfólk: JóiPé og Króli.

Forrit: Logic og FL Studio.


Lagið B.O.B.A. hefur á örfáum vikum farið langt með að verða eitt vinsælasta rapplag Íslandssögunnar, er mest spilað á Spotify um þessar mundir og situr á toppi vinsældalista Rásar 2. Nú þekkja allir og amma þeirra hina viðkunnanlegu rapptáninga JóaPé og Króla en maðurinn á bak við taktinn í þeirra frægasta lagi er minna þekktur, en það Ísfirðingurinn Þormóður Eiríksson.

„Ég var að æfa á gítar þegar ég var yngri og byrjaði að „pródúsera“ þegar ég var að reyna að gera „playback“ fyrir gítarinn. Smám saman hætti ég svo að grípa í gítarinn og fór bara að vinna tónlist í tölvunni. Ég hef verið að gera allt frá house og yfir í hip-hop, prófað mig áfram með alls konar tónlistarstefnur og það er eiginlega fyrst núna sem ég er ákveðinn í því að vinna að rappi. Þegar maður sér að eitthvað er að virka langar mann að halda því áfram,“ segir Þormóður. „Ég byrjaði upphaflega að gera tónlist í FL Studio. En þegar ég byrjaði að taka meira upp þá leit Logic betur út, þannig að ég nota Logic Pro X en hoppa af og til aftur í FL Studio.

Sameiginlegur vinur okkar hafði verið að tala mikið um JóaPé og Króla og sýna mér lög sem þeir höfðu verið að gera. Svo komu þeir og spiluðu á lítilli hátíð sem var haldin hérna fyrir vestan, LÚR – sem stendur fyrir Langt úti í rassgati. Eftir það komu þeir upp í stúdíó til mín og við kláruðum heilt lag á einum degi – það var Oh Shit,“ útskýrir Þormóður um upphaf samstarfsins við JóaPé og Króla.

Hann kemur að þremur lögum á nýútkominni plötu þeirra Gerviglingur en það er mismunandi hvernig lögin hafa verið unnin enda er hann í hálfgerðu fjarsambandi við rapparana. Oh shit framleiddi hann frá upphafi til enda, en í laginu Sagan af okkur smíðaði hann einungis taktinn og í slagaranum B.O.B.A var farinn einhvers konar millivegur. „Ég gerði taktinn, sendi hann suður þar sem þeir tóku upp hjá $tarra. Svo sendum við upptökurnar fram og til baka. Hann tók upp og sendi mér raddir og ég mixaði þær við, en svo masteraði hann.“

Og hvernig varð B.O.B.A til?„Þetta er eitt af þeim fáu lögum þar sem að ég byrjaði á trommunum. Samdi svo hljómana og laglínuna á gítar en forritaði svo lagið í Logic Pro. Þegar „beatinn“ var tilbúinn þá sendi ég hann suður og fékk demó til baka um kvöldið, svo þróuðum við uppsetninguna á laginu saman í einhvern tíma. Við vildum gera lag sem myndi virka vel í partíum og svoleiðis.“

Um hvort það skipti máli hvar maður er staddur á landinu þegar maður er að vinna takta segir hann: „Það góða við Vestfirði er að maður hefur tíma og svigrúm til að hugsa, en það hamlar manni á vissan hátt að vera þar – tengiliðirnir eru í Reykjavík og maður ætti helst að vera á staðnum,“ segir Þormóður, en þegar viðtalið á sér stað er hann um það bil að flyta suður.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Helgi Sæmundur

Maðurinn á bak við Bróðir með Úlfur Úlfur
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=DagGsFPmDBA&w=100&h=315]


Einnig þekktur sem: IamHelgi, Evil Mind.

Aldur: 30.

Önnur nýleg lög: Úlfur Úlfur – Geimvera, Reykjavíkurdætur – Tista, KÁ/ÁKÁ – Draugar (feat. Úlfur Úlfur).

Samstarfsfólk: Úlfur Úlfur, SXSXSX, BlazRoca, Emmsjé Gauti, Reykjavíkurdætur.

Forrit: Ableton og Logic.


Úlfur Úlfur hefur verið ein mest áberandi hljómsveitin í rappsenunni undanfarin ár eða alveg frá 2011 og hefur vafalaust verið einn af helstu áhrifavöldum þess að íslenskt rapp fann sína sérstöku rödd um miðjan áratuginn.

Helgi Sæmundur hefur ekki aðeins verið helmingur rappdúettsins frá Sauðárkróki heldur einnig framleitt nánast alla tónlistina. Hann er þó ekki við eina fjölina felldur, skipar einnig hljómsveitina SXSXSX, hefur gert lög fyrir listamenn á borð við Emmsjé Gauta og Reykjavíkurdætur og er nú að stíga sín fyrstu skref í að semja tónlist fyrir sjónvarp.

„Mamma og pabbi eru bæði tónlistarfólk. Þegar ég var svona fimmtán ára keyptum við M-Box og upptökuforritið Protools og þar byrjaði ég að leika mér takta. Það er um það leyti sem ég byrja að vinna með Arnari, við bjuggum næstum því hlið við hlið og vorum mikið inni í bílskúr að leika okkur að taka upp. Einhverju seinna byrjuðum við svo í hljómsveitinni Bróður Svartúlfs, þá var rappáhuginn eitthvað dottinn upp fyrir hjá mér og mig langaði bara að spila á hljóðfæri,“ segir Helgi, en hljómsveitin vann Músíktilraunir árið 2009 og gaf út eina EP-plötu áður en hún hætti og endurfæddist sem Úlfur Úlfur.

„Ég fór að vinna í Cubase þegar við Arnar vorum að vinna með Reddlights, þegar þeir voru fluttir suður en við vorum ennþá á Sauðárkróki. Núna nota ég svo aðallega Ableton – þótt ég sé líka alveg að daðra við Logic.“

Hefur það áhrif á tónlistina hvaða forrit þú ert að nota?„Það er erfitt að segja, en mér finnst ég hafa meira frelsi í Ableton. Mér finnst eins og það séu færri reglur sem maður þarf að fylgja – það er svo opið kerfi – þannig að hugmyndirnar sem ég er með í kollinum koma skýrar fram þar en annars staðar.“

Helgi segist nota mikið af hljóðfærum, hljóðgervlum og öðrum hliðrænum tækjum þegar hann gerir takta: „Ég eyði ótrúlega miklu í alls konar „modular“ og „analog-dót.“ Kannski er þetta bara einhver söfnunarárátta en mér finnst svo skemmtilegt að nota hendurnar – að geta verið að snúa tökkum. Þótt maður vinni ekki jafn hratt og ef maður er bara að lúppa „soft-syntha“ þá finnst mér eins og það verði aðeins lífrænna. Ég nota aðallega syntha en ég er líka farinn að fikta með fjögurra-rása-kasettutæki, þá keyri ég hljóðin í gegnum ódýrar segulbandsspólur og fæ nice „hiss“ og alls kyns hávaða sem mér finnst mjög fallegur. Ég er líka með „pitch“ takka þannig að ég get hægt á því eða hraðað og svo framvegis,“ segir Helgi.

Hann segir að útsetningin sé líklega það mikilvægasta í góðum rapptakti: „Ég hef yfirleitt gert þau mistök að troða allt of miklu í taktana mína. Ef ég er að hugsa um epískt viðlag þá set ég þrjá mismunandi „pads“, bissí syntha-línu yfir. En það sem hefur gerst hjá mörgum pródúserum að undanförnu, til dæmis Reddlights og Aron Can-genginu, er að útsetningin er orðin svo góð að það verður nóg pláss fyrir allt,“ segir Helgi.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

WHYRUN

Maðurinn á bak við Ekki switcha með Birni
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=X26pYeXq4e0&w=100&h=315]


Skírnarnafn: Ýmir Rúnarsson.

Aldur: 24.

Önnur nýleg lög: Birnir – Sama tíma, Huginn – Gefðu mér einn.

Samstarfsfólk: Birnir, Huginn, SKASTR/K

Forrit: FL Studio.


Rapparinn Birnir skaust fram á sjónarsviðið í byrjun árs með lögunum Sama tíma og Ekki Switcha. Rappstíll Birnis er eitursvalur og letilegur og sljór og passar fullkomlega við djúpa, kalda, naumhyggjulega og lyfjaða taktana sem eru framleiddir af Ými Rúnarssyni, sem kallar sig WHYRUN.

„Ég byrjaði að gera tónlist fyrir svona ellefu árum. Ég fékk mér gamalt „version“ af FL Studio og byrjaði að fikta. Fyrstu árin var ég að gera frekar glataða teknótónlist, en ætli það séu ekki svona níu ár síðan ég byrjaði að gera „beats“,“ segir Ýmir sem hefur notað FL Studio við upptökurnar æ síðan. Hann segist ekki notast við hljóðfæri heldur smíðar hljóðin öll í tölvunni og stjórnar með midi-stýritækjum.

Þó að Ýmir hafi verið að gera rapptakta í tæpan áratug er það fyrst í ár sem lög framleidd af Ými vekja almennilega athygli: „Ég var mikið að gera beats heima hjá mér sem ég seldi svo í gegnum netið, bæði til útlanda og til einhverra krakka hérna heima. En svo fékk ég loksins stúdíó fyrir einu og hálfu ári. Hugmyndin var ekki að vera að taka upp heldur bara gera fleiri takta til að selja. En þá frétti Birnir af því að ég væri kominn með þetta stúdíó og hafði samband. Við linkuðum upp og tókum svo alveg heilt sumar í að finna okkur – gera lög sem komu aldrei út.“

Eru einhverjir peningar í því að selja takta?„Já, ef maður gerir það rétt. Ég þekki að minnsta kosti fólk sem fær mjög fínan pening út úr því að selja beats í gegnum netið. En ég er búinn að setja þetta á „hold“ í bili en þetta er planið hjá mér.“

Ýmir segist ekki vilja ofhugsa hlutina og segir að takturinn fyrir Ekki Switcha og upptökurnar með Birni séu gerðar á einum degi: „Ég vil ekki hafa þetta of flókið. Ég reyni bara að gera einfalda takta þar sem hvert einasta hljóð er mjög rétt. Ég vil hafa fá element en passa að þau virki fullkomlega saman, hafa nóg pláss fyrir rapparann til að gera lagið að sínu,“ útskýrir hann.

„Þegar ég var að byrja var lítið í gangi í íslensku rappi en núna er svo margir að pródúsera. Mér finnst líka geggjað hvað íslenskir rapparar sækja mikið í íslenska pródúsera, því það væri ekkert mál fyrir þá að kaupa bara einhver beat á netinu – þar getur maður valið úr milljón töktum. En þeir vilja að allt lagið sé íslenskt, og það er alveg geðveikt fyrir senuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum