Helgi Sæmundur úr Úlfur Úlfur: Söfnunarárátta og „hands-on“ hljóðsmíðar

DV dregur hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands úr skugganum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun DV um taktsmíði og hljóðframleiðslu í íslensku hip-hopi. Lestu greinina í heild sinni í helgarblaði DV sem kom út 6. október.


IamHelgi

Maðurinn á bak við Bróðir með Úlfur Úlfur

Skírnarnafn: Helgi Sæmundur Guðmundsson.

Aldur: 30.

Önnur nýleg lög: Úlfur Úlfur - Geimvera, Reykjavíkurdætur - Tista, KÁ/ÁKÁ - Draugar (feat. Úlfur Úlfur).

Samstarfsfólk: Úlfur Úlfur, SXSXSX, BlazRoca, Emmsjé Gauti, Reykjavíkurdætur.

Forrit: Ableton og Logic.

Úlfur Úlfur hefur verið ein mest áberandi hljómsveitin í rappsenunni undanfarin ár eða alveg frá 2011 og hefur vafalaust verið einn af helstu áhrifavöldum þess að íslenskt rapp fann sína sérstöku rödd um miðjan áratuginn.

Helgi Sæmundur hefur ekki aðeins verið helmingur rappdúettsins frá Sauðárkróki heldur einnig framleitt nánast alla tónlistina. Hann er þó ekki við eina fjölina felldur, skipar einnig hljómsveitina SXSXSX, hefur gert lög fyrir listamenn á borð við Emmsjé Gauta og Reykjavíkurdætur og er nú að stíga sín fyrstu skref í að semja tónlist fyrir sjónvarp.

„Mamma og pabbi eru bæði tónlistarfólk. Þegar ég var svona fimmtán ára keyptum við M-Box og upptökuforritið Protools og þar byrjaði ég að leika mér takta. Það er um það leyti sem ég byrja að vinna með Arnari, við bjuggum næstum því hlið við hlið og vorum mikið inni í bílskúr að leika okkur að taka upp. Einhverju seinna byrjuðum við svo í hljómsveitinni Bróður Svartúlfs, þá var rappáhuginn eitthvað dottinn upp fyrir hjá mér og mig langaði bara að spila á hljóðfæri,“ segir Helgi, en hljómsveitin vann Músíktilraunir árið 2009 og gaf út eina EP-plötu áður en hún hætti og endurfæddist sem Úlfur Úlfur.

„Ég fór að vinna í Cubase þegar við Arnar vorum að vinna með Reddlights, þegar þeir voru fluttir suður en við vorum ennþá á Sauðárkróki. Núna nota ég svo aðallega Ableton – þótt ég sé líka alveg að daðra við Logic.“

Hefur það áhrif á tónlistina hvaða forrit þú ert að nota?
„Það er erfitt að segja, en mér finnst ég hafa meira frelsi í Ableton. Mér finnst eins og það séu færri reglur sem maður þarf að fylgja – það er svo opið kerfi – þannig að hugmyndirnar sem ég er með í kollinum koma skýrar fram þar en annars staðar.“

Helgi segist nota mikið af hljóðfærum, hljóðgervlum og öðrum hliðrænum tækjum þegar hann gerir takta: „Ég eyði ótrúlega miklu í alls konar „modular“ og „analog-dót.“ Kannski er þetta bara einhver söfnunarárátta en mér finnst svo skemmtilegt að nota hendurnar – að geta verið að snúa tökkum. Þótt maður vinni ekki jafn hratt og ef maður er bara að lúppa „soft-syntha“ þá finnst mér eins og það verði aðeins lífrænna. Ég nota aðallega syntha en ég er líka farinn að fikta með fjögurra-rása-kasettutæki, þá keyri ég hljóðin í gegnum ódýrar segulbandsspólur og fæ nice „hiss“ og alls kyns hávaða sem mér finnst mjög fallegur. Ég er líka með „pitch“ takka þannig að ég get hægt á því eða hraðað og svo framvegis,“ segir Helgi.

Hann segir að útsetningin sé líklega það mikilvægasta í góðum rapptakti: „Ég hef yfirleitt gert þau mistök að troða allt of miklu í taktana mína. Ef ég er að hugsa um epískt viðlag þá set ég þrjá mismunandi „pads“, bissí syntha-línu yfir. En það sem hefur gerst hjá mörgum pródúserum að undanförnu, til dæmis Reddlights og Aron Can-genginu, er að útsetningin er orðin svo góð að það verður nóg pláss fyrir allt,“ segir Helgi.


Sjá einnig: Úr skugga taktsins

Lestu einnig: Hljóðsmiðir rappsins

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.