Marteinn Bangerboy: „Ísland er svo menningarlega fátækt“

DV dregur hljóðframleiðendurnir á bak við vinsælustu rapplög Íslands úr skugganum

Mynd: Dýrfinna Benita

Viðtalið er hluti af stærri umfjöllun DV um taktsmíði og hljóðframleiðslu í íslensku hip-hopi. Lestu greinina í heild sinni í helgarblaði DV sem kom út 6. október.


BNGRBOY

Maðurinn á bak við Sólsetrið með Sama-Sem

Skírnarnafn: Marteinn Hjartarson

Aldur: 25

Önnur nýleg lög: Fever Dream - Reyndu bara, Reykjavíkurdætur - Kalla mig hvað?, GKR - Tala um.

Samstarfsfólk: GKR, Reykjavíkurdætur, Fever Dream, Tiny, Dadykewl (Sama-Sem) og Trinidad James.

Forrit: Ableton

Þegar rætt er um þá fremstu taktsmiði í íslensku rappi í dag ber nafn Marteins Hjartarsonar, sem kallar sig Bangerboy, yfirleitt fljótt á góma. „Það hljómar allt svo ógeðslega feitt sem hann gerir, hann er með eitthvað „touch“ og það er einhver „X-factor“ í því sem hann gerir,“ segir plötusnúðurinn og taktsmiðurinn Young Nazareth til að mynda um hljóðframleiðslu hans. Og því verður ekki neitað – mörg lögin hans eru „bangers.“

Marteinn vakti fyrst athygli með töktum sem hann gerði fyrir rapparann GKR, hefur síðan þá gert lög fyrir Reykjavíkurdætur, skipað dúettinn Sama-Sem með rapparanum Dadykewl og mun pródúsera fyrstu íslensku plötuna með gamla rappbrýninu Tiny, auk þess sem hann hefur unnið með bandaríska rapparanum Trinidad James og unnið tónlist fyrir leikhús, sjónvarpsþætti, auglýsingar og fleira.

Marteinn hefur að eigin sögn verið að gera tónlist í tölvu í um tíu ár, glamraði á gítar án mikillar formlegrar kennslu áður en hann fór að gera takta og gefa út á netinu en þannig komst GKR í samband við hann. „Ég var með Soundcloud-síðu sem hafði verið að fá smá athygli frá fólki sem er eitthvað að pæla í þessu – en það eru ekki mjög margir. Gaukur hafði eitthvað verið að fylgjast með þessu og sendi mér skilaboð. Mér fannst það svo sætt að ég ákvað að vinna með honum.“

Marteinn notar hljóðvinnsluforritið Ableton við tónsmíðarnar og segist ekki notast mikið hljóðfæri eða utanáliggjandi hljóðgjafa. „Ég sem allt í tölvunni á lyklaborðinu, teikna í rauninni inn tónlistina í forritið, en stundum spila ég samt á gítar eða eitthvað annað líka.

Það fer eftir stílnum en mér finnst mikilvægast að það séu einhver kúl og áhugaverð hljóð í taktinum, hljóð sem maður kveikir ekki alveg á hver eru. Ég vinn mikið með það að hafa eitt hljóð í hverju lagi sem er frekar skrýtið, hljóð sem gæti staðið eitt og sér en getur líka fallið vel inn í hljómaganginn.“

Marteinn segir ekki víst að fólk sé farið að greina hvað einkenni hljóðheim hans enda hafi ennþá svo lítill hluti tónlistarinnar sem hann hefur gert komið út. „Ég veit það ekki, maður getur kannski heyrt það á því hvernig „beatið“ er sett upp. Svo nota ég oft eitthvað „fucked-up overdrive“ sánd.“

Eru einhverjir sérstakir pródúserar eða taktsmiðir sem hafa haft áhrif á þig? „Það var kannski aðallega þegar maður var að byrja, í kringum 2007, þegar maður var að hlusta á Madlib og J Dilla og aðra, en núna er maður eiginlega ekkert að pæla í því hvað aðrir eru að gera. Stærstan hluta tímans er ég að hlusta á eigin tónlist. Mér finnst best að gera bara hluti sem koma beint upp úr mér sjálfum.“

Nú vita margir hverjir GKR er en þekkja ekki þig þótt þú gerir stóran hluta af tónlistinni, finnst þér ekkert verra að það séu bara rappararnir sem fái heiðurinn? „Nei, það er í rauninni mjög þægilegt því þá þarf ég ekkert að hafa sérstakar áhyggjur af því að halda einhverju „face-i“. Það getur verið ótrúlega erfitt fyrir rappara að fá einhverja athygli og halda henni, þeir verða gamlir og detta úr tísku. Ég gæti hins vegar verið 70 ára kall að gera það sama, það ætti ekki að breyta miklu. Mér finnst það vera þægilegast við það að vera pródúser, maður getur verið 16 ára að eilífu.“

Marteinn hefur unnið með með nokkrum erlendum listamönnum að undanförnu en segist þó ekki endilega stefna á landvinninga með taktana sína: „Það er nóg að gera hérna heima. Ég hef áhuga á því að búa til íslenska tónlist af því að Ísland er svo menningarlega fátækt. Mér finnst það vera skylda mín að gera íslenska tónlist og bæta menningarlífið hérna.“


Sjá einnig: Úr skugga taktsins

Lestu einnig: Hljóðsmiðir rappsins

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.