Bandarískur kvikmyndarisi framleiðir sjónvarpsþætti byggða á Geirmundarsögu

Sjónvarpsþættir byggðir á rannsóknum og bókum Bergsveins Birgissonar

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Bók Bergsveins Birgisson um „svarta víkinginn“ Geirmund heljarskinn mun verða að sjónarvarsþáttaröð framleiddri af kvikmyndarisanum Paramount Pictures í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Anonymous Content. Þetta kemur fram á fréttavef norska ríkissjónvarpsins, NRK.

Það er norski leikstjórinn Morten Tyldum sem verður við stjörnvölinn í verkefninu, en hann var meðal annars tilefndur til óskarsverðlaunanna fyrir leikstjórn sögulegu kvikmyndarinnar The Imitation Game. Í samtali við norska sjónvarpið segir Tyldum að um risastórt verkefni sé að ræða, og að hver þáttaröð muni kosta á bilinu 600 til 800 milljónir norskra króna, en það jafngildir frá 8 til 11 milljörðum íslenskra króna. Ekki er enn byrjað að ráða leikara í hlutverkin en áhersla er lögð á að vinna handritið.

Geirmundar saga heljarskinns byggir á nákvæmum sögulegum rannsóknum Bergsveins sem hann hefur meðal annars fjallað um í bók sinni Svarti víkingurinn og sett fram í sagnaformi í Geirmundarsögu heljarskinns. Kenning Bergsveins er að sagan af Geirmundi hafi ekki hentað þeirri sjálfsmynd og baksögu þjóðarinnar sem sagnaritarar vildu miðla þegar flestar Íslendingasögurnar voru skrifaðar á 13. öld. Þegar Íslendingar voru að móta hugmynd um landið sem jafnræðisþjóðfélag hentaði ekki að hampa Geirmundi sem var smákonungur, þrælahaldari og dekkri á hörund en hinar hefðbundnu norrænu hetjur.

Lestu viðtal DV við Bergsvein Birgisson um Geirmundarsögu heljarskinns.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.