Ekki hægt að vera ungskáld að eilífu

Ljóðaserían Meðgönguljóð líður undir lok á næsta ári en bókaforlagið Partus stækkar og stefnir á landvinninga - Gefur út íslenskar samtímabókmenntir á ensku með styrk frá breska ríkinu

Valgerður Þóroddsdóttir ætlar sér stóra hluti í Bretlandi með bókaútgáfu sína Partus.
Bókaútgáfa er listform Valgerður Þóroddsdóttir ætlar sér stóra hluti í Bretlandi með bókaútgáfu sína Partus.
Mynd: Rebecca Reid

Bókaforlagið Partus, sem hefur verið áberandi í útgáfu fyrstu verka íslenskra ungskálda undanfarin ár, meðal annars með ljóðabókaseríunni Meðgönguljóð, er smám saman að stækka og færa út kvíarnar.

Meðgönguljóð munu líða undir lok á næsta ári en konan á bak við útgáfuna, Valgerður Þóroddsdóttir, stefnir hins vegar á landvinninga. Partus hefur fengið veglegan styrk frá Arts Council England til að gefa út íslenskar samtímabókmenntir í enskri þýðingu og tryggja innviði sína í Bretlandi næsta eitt og hálfa árið.

Valgerður segir að ýmislegt megi gera til að bæta umhverfi lítilla sjálfstæðra bókaútgefenda á Íslandi svo þeir þurfi ekki að leita út fyrir landsteinana í leit að lífvænlegu starfsumhverfi.

Útgáfa sem listform frekar en bisness

Partus fæddist upp úr ljóðaseríunni Meðgönguljóð sem hóf göngu sína árið 2012 og var samvinnuverkefni nokkurra ungra reykvískra skálda. Valgerður var annar höfunda fyrsta Meðgönguljóðaheftisins og hefur síðan þá stýrt seríunni, sem nú telur 25 ljóðabækur. Hún segir að það hafi verið fyrir tveimur árum sem hún hafi svo tekið ákvörðun um að stofna formlega bókaforlag sem yrði ekki einskorðað við útgáfu ljóðahefta eftir íslensk ungskáld.

„Það var svo margt sem mér fannst vanta í íslenska bókaútgáfu sem mig langaði að prófa mig áfram með. Mig langaði því að vera með einhverja regnhlíf yfir verk sem pössuðu ekki inn í Meðgönguljóðaseríuna. Að einhverju leyti var eins og ég væri að taka eitt skref afturábak, að búa til móðurfélag eða vettvang sem gæti gefið út mismunandi gerðir bókmennta og sinnt öllum praktísku verkefnunum sem bókaforlag þarf að sjá um,“ segir Valgerður.

„Önnur ástæða fyrir því að ég ákvað að taka þetta skref var að ég var farin að finna mig sífellt meira í hlutverki útgefandans – sem ég ætlaði aldrei að enda í. En mér finnst þetta ótrúlega spennandi og er í dag farin að líta á þetta sem ákveðið listform frekar en einungis bisness,“ segir hún.

„Þegar maður hefur umsjón með útgáfu bókar er það svolítið eins og að gera leikhús eða leikstýra verki. Það eru rosalega margir sem koma að verkinu og allir þættir þurfa að vera útpældir, það er búið að skrifa og ritstýra textanum, svo þarf að setja hann upp, hanna útlit, velja pappír, kápu og svo framvegis. Það er ákveðið listform að flétta þetta allt saman svo það miðli textanum rétt, svo hann verði móttækilegur og snerti fólk á þann hátt sem honum er ætlað. Afurðin sem er gefin út er listaverk – þó að hún komi út í mörgum eintökum.“

Eftir að Partus fæddist fyrir tveimur árum hefur útgáfan smám saman orðið fjölbreyttari, þar hafa komið út stakar smásögur og esseyjur auk ljóðaþýðinga. Önnur skáldsaga forlagsins kemur út nú fyrir jól, Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson, auk þess sem fyrsta ljóðabókin í fullri lengd, Slitförin eftir Fríðu Ísberg, kemur út í byrjun október.

Um leið og Partus færir sig í stærri verkefni munu Meðgönguljóð hins vegar líða undir lok, en stefnt er á að síðustu heftin í seríunni komi út á næsta ári: „Ég væri alveg til í að halda útgáfu Meðgönguljóða áfram en því miður er þetta ekki sjálfbært form og enga styrki að fá. Það er því miður ekki hægt að gera þetta endalaust í sjálfboðavinnu. En þetta er þá líka tækifæri fyrir næstu kynslóð að taka við keflinu – maður er ekki ungskáld að eilífu.“

Kemur á fót útibúi í Bretlandi

Partus hefur þó ekki aðeins verið að færa út kvíarnar í bókmenntalegum skilningi heldur einnig landfræðilegum. Valgerður er nú búsett í Manchester á Englandi þar sem hún ætlar að gefa út íslenskar samtímabókmenntir í enskri þýðingu undir merkjum Partus, meðfram útgáfunni heima.

Útgáfan fékk nýlega stóran styrk frá Arts Council England sem á að gera henni kleift að byggja upp innviði sína í Bretlandi næsta eitt og hálfa árið og gefa á þeim tíma út fimm þýddar bækur á ensku: tvö kvæðasöfn, tvær skáldsögur og eina myndasögu.

„Við höfum vissulega fengið einstaka styrki á Íslandi fyrir þýðingar eða einstök verkefni en það hafa ekki verið í boði neinir styrkir fyrir útgáfuna sjálfa til að styrkja innviðina eða vaxa. Þessi styrkur mun hins vegar gera okkur kleift að byggja upp starfsemina í Bretlandi,“ segir Valgerður og tekur undir að það muni einnig styrkja íslenska hluta útgáfunnar.

„Í Bretlandi er viðhorfið svolítið öðruvísi en á Íslandi. Þar eru margar útgáfur sem þiggja styrki frá ríkinu til þess eins að geta starfað. Þótt það sé kannski ekki sagt berum orðum er á vissan hátt verið að viðurkenna að það sé nauðsynlegt að styrkja listina listarinnar vegna. Það er ekki verið að gera ráð fyrir því að ljóðaútgáfa geti lifað af hjálparlaust á markaðnum. Það er náttúrlega bara raunveruleikinn og ekkert til að skammast sín fyrir. En með slíkum styrkjum er samfélagið að fjárfesta í framtíðinni,“ segir Valgerður.

„Á Íslandi, eins og reyndar víða, er litið svo á að bókaútgáfa eigi alltaf að lúta lögmálum markaðarins. Ég veit hins vegar ekki hvernig nýjar útgáfur eiga að fæðast eða útgáfur með mjög sterkan listrænan metnað að lifa af ef það er ætlast til þess að þær séu reknar fyrst og fremst til að græða pening.“

Fyrsta ljóðabókin í fullri lengd sem kemur út undir merkjum Partusar er Slitförin eftir Fríðu Ísberg, en fyrir jólin kemur einnig út önnur skáldsaga forlagsins, Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
Stærri og metnaðarfyllri bækur Fyrsta ljóðabókin í fullri lengd sem kemur út undir merkjum Partusar er Slitförin eftir Fríðu Ísberg, en fyrir jólin kemur einnig út önnur skáldsaga forlagsins, Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson.

Þarf að endurskipuleggja umhverfið

Vala segir að á vissan hátt sé íslenskt bókmenntaumhverfi aðgengilegt fyrir lítil bókaforlög sem einbeita sér að ungum höfundum, boðleiðirnar séu stuttar, margar dyr standi opnar og það sé auðvelt að fá dreifingu í verslanir. Hins vegar sé ýmislegt sem vanti upp á, ekki aðeins gætu styrkir og niðurfelling virðisaukaskatts á bækur skapað lífvænlegra umhverfi fyrir nýja útgefendur heldur mætti einnig endurmeta skipulag og ýmsa strúktúra bókmenntaheimsins.

„Fólk vill manni almennt mjög vel og er jákvætt, en skipulagið virðist ekki gera ráð fyrir tilvist fyrirbæra á borð við Partus – mér líður stundum eins og ég hafi fundið upp eitthvað nýtt sem ekkert pláss sé fyrir. Íslensku bókmenntaverðlaunin, Bókatíðindi og ýmis önnur fyrirbæri tengd bókaútgáfu á Íslandi virðast til dæmis byggð upp til að hampa því sem er gert hjá stærri forlögum. Ný grasrótarútgáfa hefur að öllum líkindum ekki efni á að auglýsa bækur sínar í Bókatíðindum eða tilnefna bækur sínar til bókmenntaverðlaunanna, það kostar bara of mikið að taka þátt. Til dæmis halda margir að Bókatíðindi sé tæmandi skrá yfir allt sem kemur út á árinu, en maður þarf að borga fyrir hverja birtingu og það setur fljótt strik í reikninginn hjá lítilli útgáfu. Ólíkt því sem er til dæmis í Bretlandi eru svo engin verðlaun fyrir fyrstu bækur höfunda. Þeir sem fá viðurkenningu á Íslensku bókmenntaverðlaununum eru yfirleitt höfundar sem eru komnir langt á ferli sínum,“ segir Valgerður.

Hún segir enn fremur að ennþá sé borin óttablandin virðing fyrir hefðbundnum stofnunum bókmenntaheimsins, fólk sækist eftir virðingu hefðarinnar: „Það er eins og það hafi gleymst hjá mörgum lesendum að öll íslensk forlög voru einu sinni í grasrótinni. Endurnýjun er svo mikilvæg í listum, við þurfum nýtt blóð og nýjar raddir og það mætti vera meiri jákvæðni og spenna fyrir því og þeim sem eru á uppleið. Það er ekki meiningin að ógna þeim sem komu á undan, við erum einfaldlega að undirbúa okkur fyrir að taka við keflinu. Þetta er óumflýjanleg hringrás og nauðsynleg, við ættum að fagna henni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.