fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Tilþrifalítil tilvistarbarátta

Salka Valka í Borgarleikhúsinu

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 6. janúar 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Laxness lagði mikið á sig til þess að koma bókum sínum út erlendis. Hann verður þó ekki sakaður um að hafa með skrifum sínum reynt að upphefja þjóð sína eða tefla henni fram líkt og fyrirsætum í ferðabæklingi. Frekar má segja að oft hafi hann grafið upp sína aumustu landa, veitt þeim rödd og jafnvel gullnar setningar til þess að benda á hina takmörkuðu möguleika þeirra í lífinu. Þannig málar Halldór einstakar myndir af íslensku þjóðlífi og vekur jafnframt athygli lesenda sinna á löstum þess og lýtum. Í Sölku Völku má lesa um fátækt og fátækragildrur, ofríki, barnaníð, flónshátt, einelti, kúgun kvenna, drykkjuskap og kirkjunnar vald svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er stórt verk og vonlaust að gera því öllu skil í einni leiksýningu. Maður fúlsar þó ekki við góðu sögubroti á sviði þó að bókin standi ekki öll til boða.

Leikstjórinn, Yana Ross, og Salka Guðmundsdóttir semja leikgerðina en hún nær því miður ekki góðu flugi. Það er líkt og þær hafi ætlað sér að leiða fram einhver ný sannindi úr Sölku Völku og lagt allan kraft í einhvers konar frumlega nálgun í stað þess að segja bara sögu Sölku með heiðarlegum hætti. Þar með er þó ekki sagt að uppsetningin sé til einskis. Til dæmis er spennandi að fylgjast með því hvernig það sem sagt er á sviðinu stangast stundum fullkomlega á við það sem gert er. Tímaröð atriða er stokkuð upp, oftast með hugvitsamlegum hætti og þáttur sjálfumglaða kvikmyndaleikstjórans sem vinnur að því að koma sálarlífi Sölku á hvíta tjaldið, skapar óvænta nálgun áhorfenda við bæði verkið og leikara þess. Þá má nefna ýmis hressandi svik við mannlýsingar bókarinnar og þá staðreynd að Salka sést aldrei í buxum, þrátt fyrir að buxnaganga hennar leiki nokkuð stórt hlutverk í bókinni. Þær stöllur bregða svo á það ráð að fá Guðna Kolbeinsson í hlutverk sögumanns.

Bragðdaufar samtímaklisjur

Líkt og í Mávinum fer leikstjóri verksins, Yana Ross, þá leið að leggja áherslu á tengingu verksins við glímur okkar í nútímasamfélagi. Þessi hugmyndafræði ágerist eftir hlé en tekst ekkert sérstaklega vel í þetta skiptið. Fallið er í þá gryfju að minna á mótmælin í hruninu, fjölda erlendra ferðamanna og fleiri klisjur án þess að nokkur nýr sannleikur sé fram leiddur. Það er ekki góð þróun þegar leikstjórar fara offari í túlkun sinni þannig að ekkert verði eftir fyrir áhorfandann til þess að velta fyrir sér að sýningu lokinni. Þessi mötun er því miður ljóður á báðum jólasýningum stóru leikhúsanna í ár. Illa tókst svo að binda verkið saman eftir hlé, þetta var eins og samansafn af lokasenum og hefði að ósekju mátt vinna betur því byrjunin var ágæt.

Góður leikur

Leikhópurinn er þéttur og afbragðsgóður þó að einstaka leikarar þyrftu að þjálfa rödd sína betur ef ætlun þeirra er að starfa á stóra sviðinu. Leikararnir unnu líka tæknilega vel úr því að afklæðast hlutverkum sínum og sýna á sér aðra hlið leikara í kvikmyndaupptöku.

Þuríður Blær var góð í hlutverki Sölku Völku, jarðbundin, yfirveguð og ákveðin. Hilmir Snær er auðvitað fjarri því að líkjast þeirri mynd sem skáldið málar af Steinþóri en fer þó létt með hlutverkið, sveiflast á milli ofsa og auðmýktar, fyrirlitlegur og andstyggilegur kvennabósi og ofbeldismaður. Senan þar sem hann fer á fyllerí var útfærð með einföldum en afar eftirminnilegum hætti. Áhersla leikstjóra á hans þátt í sýningunni skyggði þó á möguleika annarra og framvindu sögunnar í heild. Á frumsýningu var Júlía Guðrún í hlutverki hinnar yngri Sölku Völku. Hún sýndi mjög stilltan leik og var bæði trúverðug og spennandi.

Líkt og Hilmir þá er Halldóra Geirharðsdóttir ekki heldur lík lýsingum Laxness á útliti Sigurlínu. En flónskuna leikur hún svo vel, roluna sem ekkert hefur nema trú sína á Guði, er ekki einu sinni með reikning hjá Bogesen. Hvorki Bogesen né Arnaldur fengu það pláss í sýningunni sem þeir annars hafa í sögunni. Jóhann Sigurðarson var þó þrumandi góður sem nafni sinn, Bogesen, þurfti varla að gera annað en að andvarpa til þess að koma meiningu sinni til skila.

Halldór Gylfason fékk hins vegar ágætt rými fyrir hinn ólögulega vonbiðil Sigurlínu, Jukka. Hann lyftir sögunni svolítið upp, því þrátt fyrir að vera einstaklega ólukkulegur þá er hann jafnframt sárgrætilega fyndinn, líkt og Halldór skilaði ágætlega.

Guðni Kolbeinsson var svo í hlutverki sögumanns. Rödd hans er notaleg og lesturinn prýðilegur en hann var ekki jafn lipur á sviði og aðrir leikarar verksins.

Lokuð rými enn og aftur

Leikmyndin var margbrotin og leikmunir þjónuðu hlutverki sínu ágætlega. Að undanförnu hefur geisað hálfgerður tískufaraldur í leikhúsunum þar sem lengri og styttri senur fara fram í afmörkuðum og stundum lokuðum kössum á sviðinu. Þetta tókst ágætlega hér en kannski er kominn tími til að spara hugmyndina aðeins. Lýsingin var vel unnin og vann vel með landslagi leikmyndarinnar en búningarnir voru hins vegar dauflegir og gerðu lítið fyrir sýninguna.

Verkið líður fyrir stefnuleysi eftir hlé og of ríka áherslu á samband Sölku og Steinþórs, á kostnað annarra áhugaverðari þátta í lífi Sölku. Þá hefði mátt huga betur að því að ekki er víst að allir áhorfendur þekki söguna. En góður leikur og ágæt útfærsla á nokkrum stöðum bætir þetta að einhverju leyti upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“