„Kannski verður sorgmædda sjálfan að nettrendi 2017“

Menningarárið 2016: Jón Atli Jónasson

„Á innlendum vettvangi fannst mér áhugavert að sjá viðbragð ungrar tónlistarkonu við brottflutningi nágranna hennar sem eru innflytjendur, hælisleitendur eða fólk á flótta,“ skrifar Jón Atli Jónasson, rithöfundur, í uppgjöri sínu við menningarárið 2016.
Sorgmædda sjálfan „Á innlendum vettvangi fannst mér áhugavert að sjá viðbragð ungrar tónlistarkonu við brottflutningi nágranna hennar sem eru innflytjendur, hælisleitendur eða fólk á flótta,“ skrifar Jón Atli Jónasson, rithöfundur, í uppgjöri sínu við menningarárið 2016.

Í menningarannál ársins 2016 sem birtist í áramótablaði DV 30. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2016 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Jón Atli Jónasson, rithöfundur.

Hinn drepandi vani

rithöfundur.
Jón Atli Jónasson, rithöfundur.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Adam Curtis er sjálfsagt sá blaðamaður sem hefur haft mest áhrif á skoðanir og heimssýn vestrænna listamanna síðasta áratuginn. Það er gott að vera í skotgröfunum með honum sem listamaður þegar listsköpun manns felst á einhvern hátt í gagnrýni á samtímann eða ríkjandi kerfi. Framsetning hans á því hvernig stórfyrirtæki og ríkisstjórnir djöflast í hinum almenna borgara fylla mann heiftúðugri vandlætingu yfir því í hvers kyns ógöngur mannskepnan virðist dæmd til að koma sér í. Curtis er sögumaður af gamla skólanum, hann starfar sem fréttamaður hjá BBC og hefur ótakmarkaðan aðgang að filmusafni stofnunarinnar og óborganlegir bútar úr því safni mynda hryggjarstykkið í heimildarmyndum hans. Það er svo hans yfirvegaða og traustvekjandi rödd sem hljómar yfir myndskeiðunum í bland við tónlist sem virðist ættuð úr Sci-fi myndum frá áttunda áratugnum. (Massive Attack hefur unnið með Adam Curtis auk þess sem tónsmíðar Pye Corner Audio, Burial og Nine Inch Nails hljóma í myndum hans.)

Samfélagsgagnrýni hans á 20. og 21. öldina og nýstárleg söguskoðun hans hefur sett hann á stall með heimspekingum á borð við Slavoj Zizek, sem er hitt stóra ídol listamanna á vesturlöndum nú á dögum. Báðir eiga þeir það sameiginlegt að hafa einhvern tíma verið hallir undir vinstri væng stjórnmálanna þó óvægnari gagnrýnendur á vinstri pólitík séu vandfundnir. Haukur Már Helgason hefur sagt að það séu örlög vinstri manna að skilgreiningin á þeim sé að þeir eru sífellt að kljást við hana. Hvort það eigi við í þeirra tilfelli treysti ég mér ekki til að fullyrða um. Nýjasta mynd Adam Curtis heitir Hypernormalization, sem er vafalítið mynd ársins, er sjálfsagt eitt besta meðal fyrir okkur sem erum að reyna að skilja tímana sem við lifum. Sérstaklega er kaflinn um Donald Trump hrollvekjandi þar sem myndin kemur út rétt áður en hann er kosinn forseti Bandaríkjanna. Sú óþægilega tilfinning að maður lifi í einhvers konar bergmálsklefa, þar sem maður er í grunninn sammála öllu og öllum í kringum mann, verður ærandi.

En það er engin leið út. Snörunni hefur verið brugðið um hálsinn (maður hjálpaði sjálfsagt til við að hagræða henni) og Adam Curtis einfaldlega lýsir því hvað kemur næst. Þegar reipið þrengist að hálsinum og hlerinn opnast fyrir neðan fætur manns. Það er vart hægt að enda þetta furðulega ár Simma, Brexit, Pútin, Sýrlands og Trump á táknrænni hátt en að setjast niður og horfa á þessa mynd. Myndir Adam Curtis lýsa ákveðinni heimssýn. Mér líður oft eins og ég sé að horfa á sci-fi myndir frá áttunda áratugnum þegar ég horfi á myndirnar hans. Paranojuþríleikur Alan J. Pakula kemur oft upp í hugann. En kannski er það bara árið sem er að líða sem ýfir upp þá tilfinningu. Tryllt brosið á Trump og þrútnir baugarnir undir glampandi augum Sigmundar Davíðs. Adam Curtis virðist sífellt vera að segja: heimurinn er ekki eins og þú sérð hann. Heldur eins og ég sýni þér hann.

Sorgmædda sjálfan

Einhvers staðar í einum af ársuppgjörum eða dómum á netinu var einhver sem sagði að þeir sem hefðu minnst að segja fengju stærstu sviðin að standa á. Hér er ekki átt við leikhús í hefðbundnum skilningi heldur veruleikasjónvarp og forsetaframboð. Ég er alltaf til í að heyra plötu með Kanye West. (Ég hef meira að segja séð hann læf.) Margir láta Kanye fara í taugarnar á sér með réttu. Hann er drambsamur, öfundsjúkur og hvatvís í meira lagi. Það er ekkert skrýtið að Elon Musk sé að reyna að láta vekja sig svo hann sleppi út úr þessum sýndarveruleika sem hann vill meina að tilvist okkar sé.

Móment ársins á alþjóðlegum vettvangi hlýtur að vera þegar sem Kanye West og Donald Trump láta taka af sér mynd saman eftir fund um Guð má vita hvað í Trumpturninum. Kanye hefur látið á sjá. Hann er með fjarrænan svip. Í einhvers konar losti. Eins og einhver sem er haldið í gíslingu hryðjuverkamanna. Donald Trump segist vera vinur hans. Ég er vinur þinn, segir hann. Við erum vinir, segir hann og þeir brosa í myndavélarnar.

Á innlendum vettvangi fannst mér áhugavert að sjá viðbragð ungrar tónlistarkonu við brottflutningi nágranna hennar sem eru innflytjendur, hælisleitendur eða fólk á flótta. Þessi veruleiki fólks á flótta á Íslandi birtist okkur oftast í myndskeiðum sem tekin eru á snjallsíma. Þau hafa haft gríðarlega áhrif enda dylst engum að hér er eitthvað stórkostlega gengið úr liði. Í fréttaflutningi af nýlegum brottflutningi fólks á flótta var birt sjálfsmynd af tónlistarkonunni eða sjálfa sem sýnir hana grátbólgna á nærbol. Hér er margt spennandi í gangi. Hér mást út mörk vitnis og fórnarlambs. Hér stöndum við enn og aftur á þessu gráa svæði þess sem er opinbert og prívat. Þar sem framganga okkar á opinberum vettvangi þarfnast aðgæslu. Eða alla vega þess að við dokum við og tökum stöðuna á skynsaman hátt. Ég sé reyndar ekkert sem mælir gegn því að forsetinn gangi með buff. Við vildum alþýðlegri forseta. Einn af oss.

Kannski verður sorgmædda sjálfan að nettrendi 2017? Þú verður vitni að óréttlæti, slysi eða öðrum hörmungum og þá fer sjálfustöngin á loft. Þetta er að verða einkenni á íslensku samfélagi. Að það er enginn þögull sannleikur. Hvað þá þögult samkomulag lengur. Það þarf að segja allt berum orðum. Sem er komið til út af netinu. Þar er alltaf pláss fyrir allt; alltaf. Nú er ég farinn að hljóma eins og gamall kall sem nöldrar yfir netinu. Og nú hætti ég því.

Árið gert upp

Eitt af því sem Adam Curtis hefur enga þolinmæði fyrir er list. Hann segist sjálfur ekki vera listamaður þrátt fyrir að framúrstefnuleg stílbrögð hans við kvikmyndagerðina, val á myndefni, tónlist og klipping sýni fram á að hann kunni ekki síður til verka en margur kvikmyndagerðarmaðurinn. Hann kýs að kalla sig blaðamann eða heimildamyndargerðarmann þó svo hann teygi oft á orsakasamhengi á frumlegri hátt en nokkur blaðamaður myndi dirfast að gera. Hans Ulrich Obrist, hinn óþreytandi stjórnarformaður listarinnar, sá ástæðu til þess að stofna til kynna við Adam Curtis í ljósi þess að mörk myndlistar, fréttamennsku og heimildamyndagerðar, eru í dag mun óræðari.

Sýn Adam Curtis á myndlist eru í takt við inntak heimildamynda hans. Ef hægt er að tala um rauðan þráð sem liggur í gegnum þær þá er hann að finna í átökum einstaklingshyggju gegn stærri og sameiginlegri málstað. Adam Curtis hefur ekki mikla trú á listum. Hann er þeirrar skoðunar að eiginhagsmunir viðkomandi listamanns, fróun hans og persónuleg sýn geti aldrei þjónað neinum málstað nema hans eigin. Myndlistarsýning kemur ekki til með að stöðva átökin í Sýrlandi. Það eru engar stórar hugmyndir lengur og ef þær væru á sveimi myndi enginn nenna að fórna sér fyrir þær. Ég þykist samt vita að þetta sé hugmynd Adam Carters um heróp ætlað til að inspírera fólk í listum. Í þeim anda get ég svo sem bent á nokkra hluti sem vöktu athygli og aðdáun mína á árinu sem er að líða.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Mengi.

Í fyrstu var ég efins um Mengi. Ekki vegna þess að hugmyndin er slæm. Hún er það þvert á móti. Ég set aftur á móti þann fyrirvara við Mengi að hindranir sem mæta íslenskri list og listafólki lúti að fasteignum. Við eigum hús og listabatterí sem eiga að sinna þessu starfi. Flest það sem Mengi býður upp á er til fyrirmyndar. Það sama er ekki hægt að segja um hús eins og til dæmis Hörpuna. Hún er dæmi eitthvað sem hefur farið úrskeiðis. Þar er boðið upp á menningu en líka skelfilega ómenningu. Menningarlega virðist Harpan ekki standa fyrir neitt nema aðsókn gesta. Það er eins og vanti eitthvað ritstjórnarkonsept þar inn. En kannski er það of dýrt? Og þá húsið í leiðinni. Gengisfellingin þegar kemur að menningarlegri stefnu og sýn stórra battería í íslenskum listum virðist hverfast um sjálfsaflafé. Ríki og borg leggja mikið til en tiltölulega stór hluti verður að koma úr miðasölunni. Mengi er grasrótin. Nennir ekki að bíða eftir bákninu og er að gera gott mót.

Jóhann Jóhannsson - Orphée

Fyrsta sólóplatan í sex ár frá Jóhanni og sem slík stórtíðindi. Gefin út af Deutche Grammophon sem er elsta útgáfufyrirtæki klassískrar tónlistar í heiminum. Þetta er fyrsta platan hans hjá útgáfufyrirtækinu. Hann hefur áður gefið út hjá Fat Cat og 4AD. Samstarf hans við leikstjórann Denis Villenueve hefur verið honum gæfuríkt og skipar tónlist Jóhanns í myndum hans stóran sess og gert hann að einu eftirsóttasta kvikmyndatónskáldi heims. En Orphée er sjálfstætt verk og ekki samið fyrir kvikmynd og sýnir hvað Jóhann er magnað tónskáld.

Elín Hansdóttir - Simulacra í Gallerí I8

Elín Hansdóttir heldur áfram að vinna með sjónhverfingar gömlu Hollywood. Hér er eitthvað ótrúlega spennandi á ferðinni.

Hrafnhildur Shoplifter

Það í ár sem ég kveikti fyrst í alvöru á þessari listakonu og því sem hún er að gera. Ég get svo sem ekki nefnt einn sérstakan atburð eða sýningu í því samhengi. Er bara afskaplega hrifinn af því sem hún er að gera.

Bjarki - Æ

Þessi strákur er orðinn stórt nafn í teknóinu og ekki að ástæðulausu. Lagið hans I wanna go bang var stórt í fyrra. Hér er að finna 12 frábær lög. Hann gefur út hjá Trip útgáfu Ninu Kravitz sem er teknóplötusnúður sem ætlar sér stóra hluti í plötuútgáfu á næstunni. Í því samhengi er Æ ágætis byrjun.

Åsne Seierstad - Einn af okkur, saga af samfélagi

Hér skrifar margverðlaunaður stríðsfréttaritari söguna af Útey og Breivík. Þetta er skyldulesning. Það er undarlegt að lesa þessa bók því hún orkar á mann eins og spennandi glæpasaga. Persóna Anders Breivík verður ljóslifandi í hugskoti manns. Åsne Seierstad er hörkuhöfundur sem hefur yfirburðavald á frásögn, stíl og persónusköpun. Þýðing Sveins H. Guðmarssonar er til fyrirmyndar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.