„Unnið með tengsl tónlistar og dans á alveg nýjan hátt“

Menningarárið 2016: Sesselja Magnúsdóttir

Í menningarannál ársins 2016 sem birtist í áramótablaði DV 30. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2016 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Sesselja G. Magnúsdóttir, dansgagnrýnandi og kennari.

Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk ársins 2016?

dansfræðingur.
Sesselja G. Magnúsdóttir, dansfræðingur.

Eftirminnilegasta dansverkið á árinu var verkið Calmus Waves sem sýnt var á Listahátíð Reykjavíkur í vor. Ástæðurnar eru tvær. Annars vegar sú að í verkinu var verið að vinna með tengsl tónlistar og dans á alveg nýjan hátt. Hins vegar að spuni var í hávegum hafður í verkinu. Í dansverkinu dansa dansararnir við tónlist sem er samin í rauntíma með hjálp tónsmíðaforritsins CALMUS Composer, hugbúnaðar byggðum á gervi-greind og hefðbundnum tónsmíðaaðferðum. Hljóðheimur verksins skapast við hreyfingar dansaranna en þeir bera á sér hreyfiskynjara sem sendu skilaboð í tónsmíðaforritið sem síðan breytir skilaboðunum í tónlist sem annars vegar nær til áhorfanda fyrir tilstuðlan tölvu eða umritaðast í nótur sem hljóðfæraleikarar sem voru einnig á sviðinu lás og spiluðu eftir CALMUS Notation, smáforriti í iPad.

Dansararnir spunnu hreyfingarnar sem sköpuðu hljóðmyndina og þurftu tónlistarmennirnir að vera tilbúnir að bregðast við því sem fram fór á sviðinu sem og því sem birtist þeim í ipadinum. Með notkun forritsins öðlast dansararnir vald yfir tónlistar sköpuninni sem þeir hafa venjulega ekki. Forritið opnar nýja vídd í spunavinnu dansaranna því þeir þurftu aðeins að bregðast við hljóðheiminum í kringum, samdönsurunum, áhorfendum og sviðinu heldur urðu þeir líka að vera meðvitaður um hvernig hljóðmynd skyldi vera í verkinu.

Dansinn í verkinu var kraftmikill og villtur og ofbeldisfullur á köflum. Þar mátti þó einnig finna mýkt og flæði. Dansararnir gáfu sig alla í verkefnið og sýndu vel fegurðina sem býr í spunaforminu. Krafturinn í dansinum gerði það að verkum að tónsköpunin virtist stundum þurfa að láta í minnipokann fyrir hreyfigleðinni enda hlýtur það að vera mikil kúnst að hugsa um tónlistarlega útkomu í verkinu á meðan verið er að dansa á eins ofsafenginn hátt og þau gerðu stundum. Dansararnir nutu þess þó greinilega að leika sér með tónlistina og nýttu sér það vald sem þeir höfðu yfir henni, vald sem þeim er að öllu jöfnu ekki gefið. Calmus compesers er hugmynd tónskáldsins Kjartans Ólafssonar og hann hefur unnið að því í samvinnu við aðra um nokkurt skeið. Hugmyndin að þessari gagnvirku veröld er snilldarleg og skapar spennandi tækifæri fyrir danshöfunda til að vinna með í listsköpun sinni.

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu? (gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)

Út frá dansheiminum séð þá er frábært að sjá hvernig íslenskir danshöfundar hafa blómstrað á árinu. Bæði hafa þeir fengið tækifæri til að skapa fyrir Íslenska dansflokkinn en einnig sett upp sínar eigin sýningar. Fjöldi þeirra sem sett hafa upp verk á árinu nær telur á annan tuginn sem er frábært. Sýningar þessara höfunda hafa einnig verið mjög fjölbreyttar. Hver og einn hefur mótað sinn persónulega stíl. Grundvöllurinn fyrir því að höfundur geti þroskast og náð verulega góðum tökum á list sinni er að hann hann geti sinnt henni. Það er skiptir því miklu að þessir höfundar fái fjármagn og tækifæri til að starfa áfram við það sem þeir hafa svo sannarlega sýnt fram á að þeir eru flinkir í.

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2016?

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með hvernig leikhúslífið hefur blómstrað í minni leikhúsunum. Dagskráin í Tjarnarbíó verður veglegri með hverju árinu og það hafa verið margar ótrúlega flottar frumsýningar bæði á dansi og leiklist á árinu. Gamla Bíó hefur fest sig í sessi sem sýningastaður og Gaflaraleikhúsið hefur náð að skapa sér ákveðna sérstöðu með því að styðja unga handritshöfunda við að koma leikritum sínum á fjalirnar. Þannig hefur skapast nýr tónn í leiklistarflórunni og nýir áhorfendur, ungt fólk, hefur fundið eitthvað við sitt hæfi. Sýningar fyrir börn virðast einnig vera komnar til að vera og þá ekki bara stóru barnasýningarnar í stóru leikhúsunum heldur líka dans- og leiksýningar sem eru samdar sérstaklega fyrir þennan aldurshóp. Þessu ber líka að fagna.

Það má því segja að margt skemmtilegt hafi verið í gangi í dansinum og leiklistinni á árinu og vonandi að okkur beri gæfa til að styðja við þessa grósku því það verðist vera næg eftirspurn eftir góðri listsköpun.

Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:

Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt.
Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.
Ewa Marcinek, ljóðskáld.
Bjarki Þór Jónsson, tölvuleikjafræðingur og kennari
Anna Marsibil Clausen, blaðakona og bókmenntafræðingur
Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri.
Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarmaður.
Fannar Örn Karlsson, tónlistarmaður.
Ármann Reynisson, vinjettuskáld.
Sesselja, G. Magnúsdóttir, dansfræðingur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.