fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Teiknað í loftið

Pólska listakonan Monika Grzymala vinnur rýmisteikningar með límbandi

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 20. janúar 2017 19:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Límband er helsti efniviður pólsku listakonunnar Moniku Grzymala sem opnaði sýningu á verkum sínum í galleríinu Berg Contemporary á föstudag. Verk Moniku er oftar en ekki stað- og tímabundnar innsetningar þar sem hún notar límbandið til að draga línur í rýmið. Línurnar stökkva af veggjunum og út í tóma rýmið og mynda eins konar þrívíddarteikningar, það sem hún kallar „Raumzeichnung“ upp á þýska tungu – en þar í landi hefur hún búið og starfað um árabil.

Í Berg sýnir hún meðal annars tvær slíkar rýmisteikningar. Stærsta verk sýningarinnar er eins konar fjall úr silfurlitu límbandi sem þekur stóran hluta gallerísins, en þar er einnig smærra verk úr möttu, svörtu límbandi sem lætur teikninguna virka flata og tvívíða úr fjarlægð en stekkur fram í rýmið þegar áhorfandinn gengur nær. Þannig myndar hún ringlandi sjónhverfingu (Þetta er illa hægt að fanga á ljósmynd svo þú verður bara að fara að kíkja).

Höggmyndir úr límbandi

„Áður fyrr vann ég fyrst og fremst fígúratíf verk en einn kennari minn í listaháskóla, Bogomir Ecker, benti mér á að ég notaði mestan hluta tímans í að lýsa ósýnilegum línum sem táknuðu tengsl hluta og fólks. Þegar ég gerði mér grein fyrir þessu breyttist allt – og ég kastaði frá mér öllu því sem ég hafði gert áður og byrjaði að teikna línur,“ segir Monika.

„Ég byrjaði að teikna línur á blöð, en á einhverjum tíma fyllti ég skissubókina mína og fór að teikna út fyrir hana og út á veggina. Þegar ég var byrjuð að gera það virkaði nokkuð skynsamlegt að prófa límbandið því að með því gat ég teiknað í loftið og myndað eins konar höggmyndir. Strúktúrarnir sem verða til með þessum hætti eru nokkuð fastir og traustir.“

Monika segist vera hrifin af því að gera strúktúra sem eru bæði einstakir, tímabundnir og skammlífir og segir það ekki verra þótt þeir breytist eða losni þegar líður á sýningartímann. „Stundum byrja þeir að hrynja niður. Þá eru efnafræðilegir hlutir í gangi sem ég get ekki beint séð fyrir. Þegar ég sýndi í Hafnarhúsinu í fyrra hrundi til dæmis skúlptúr úr svörtu límbandi niður af veggnum – en það hafði aldrei gerst hjá mér áður með þetta efni. Ég hugsaði að kannski væru einhver efni í loftinu sem hefðu áhrif á límið – kannski eitthvað tengt eldfjöllunum hér,“ segir hún.

Silfurfjall í Berg

Monika segir að sér finnist mikilvægt að það sé hennar eigið handbragð sem sé á innsetningunum. Hún fái því aldrei aðstoðarmenn við uppsetningu verkanna – þeir yrðu eflaust bara fyrir, því þótt hún skissi yfirleitt upp drög að verkinu í spjaldtölvunni sinni viti hún aldrei alveg hvernig það muni verða og það breytist í uppsetningunni.

Monika segir að hún hafi viljað vinna stærsta verk sýningarinnar í Berg á silfurlitað límband því hún hafi tengt það við ís og jöklana á Íslandi. Þar sem nafn gallerísins þýði líka fjall á þýsku þá hafi þessi fjallslegi strúktúr orðið til.

Hún leggur áherslu á þann gjörning að teygja út höndina og draga límband af rúllunni og leggja það á réttan stað, eins og að draga línu á blað. Sá mælikvarði sem hún notar á verkin er fjöldi kílómetra límbands sem hún notar: „Þetta táknar þá andlegu og líkamlegu vegalengd sem ég hef farið í hvert skipti,“ segir hún og spáir því að við gerð Silfurfjallsins muni hún nota um 10 kílómetra.

„Ef það er mögulegt reyni ég líka að taka verkið niður sjálf. Einhvern veginn finnst mér ég þurfa að taka það niður sem ég set upp. En í því ferli uppgötva ég líka oft nýjar myndir í verkinu.“

Þótt það sé ómögulegt að selja verk á borð við þetta og setja það upp á nýjum stað segist Monika hafa selt svipuð verk í heimahús – meðal annars búi listaverkasafnarinn Dian Woodner nánast inni í verki eftir hana. En það er ljóst að slíkt verk kostar dágóðan skilding og varla á færi nema auðugustu safnara.

Mynd: Monika Grzymala

Mynd: Monika Grzymala

Mynd: Monika Grzymala

Mynd: Monika Grzymala

Monika Grzymala (f.1970)

Fædd í Póllandi.

Lærði myndlist, steinhögg og forvörslu í listaháskólum Kaiserslautern, Karlsruhe, Kassel og Hamborgar í Þýskalandi.

Hefur hlotið fjölda verðlauna og styrki, auk þess sem verk hennar hafa meðal annars verið sýnd í Tokyo Art Musem (2010), Museum of Modern Art í New York (2010), á Sidney-tvíæringnum (2012), í Albertina í Vín (2015), Lisson Gallery í London (2016), Listasafni Reykjavíkur (2016), Eacc Espai D’Art Contemporani de Castelló á Spáni, hjá Woodner Company í New York, Hau 1 Hebbel am Ufer í Berlín og í listasafni Mörtu Herford í Þýskalandi.

Býr og starfar í Berlín.

Sýning Moniku Drawing spatially – Raumzeichnung stendur yfir til 25. febrúar í Berg Contemporary.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Endar Murk-Krissi á Bessastöðum?

Endar Murk-Krissi á Bessastöðum?
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP