„Menningarleg umfjöllun í Kastljósi stendur upp úr“

Menningarárið 2016: Ármann Reynisson

Í menningarannál ársins 2016 sem birtist í áramótablaði DV 30. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2016 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Ármann Reynisson, vinjettuskáld.

vinjettuskáld.
Ármann Reynisson, vinjettuskáld.
Mynd: Sigtryggur Ari

Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk ársins 2016?

Úr vöndu er að velja því menningar perlur leynast víða án þess að blásið sé í lúðra eða slegið í pákur. Og menningarlífið á Íslandi er enginn eftirbátur þess sem best gerist um víða veröld.

1) Meiriháttar tónleikar Kínverska sendiráðsins í Hörpu. Þar lék kínversk strengjasveit kínverska og íslenska tónlist á hljóðfæri heimamanna ásamt fjórum kínverskum óperusöngurum og Diddú tróð uppi og söng einnig á kínversku í fyrsta sinn.
2) Glæsileg samsýning á verkum Erlu Þórarinsdóttur og Karls Kvaran í Listasafni Árnesinga.
3) Áhrifarík sýning Where´s God? teiknimyndasería Hugleiks Dagssonar í Safnhúsi Vestmannaeyja ( komin út á bók ).
4) Útför Jóns Stefánssonar tónlistarfrömuðar í Langholtskirkju. Stórfengleg tónlist flutt af fjórum kórum, strengjasveit, orgelleik og einsöngurum. Hin færeyska Eivör fór á kostum.
5) Einstakur gjörningur Snorra Ásmundssonar í 50 ára afmælisveislu hans á KEX Hostel.
6) Heilladi portrett ljósmyndasýning Kaldals í Þjóðminjasafni Íslands
7) Snilldar uppfærsla Íslensku óperunnar í Hörpu á Évgeni Onegin eftir P. Tchaikovsky.

Ármann Reynisson nefnir upfærslu Íslensku óperunnar á Évgeni Onegin eftir P. Tchaikovsky sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins.
Snilldaruppfærsla Ármann Reynisson nefnir upfærslu Íslensku óperunnar á Évgeni Onegin eftir P. Tchaikovsky sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins.

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?
(gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)

Það er dapurlegt að horfa upp á hversu þjóðmenningarlegir innviðir samfélagsins, það er skólar, sjúkrahús og vegir standa höllum fæti, það er sveltir fjárhagslega. Á sama tíma og græðgisvæðingin blómstrar hjá fáum útvöldum sem sjá oftast lítið út fyrir ferninginn.

Rithöfundar víða um heim hafa í gegnum aldirnar barist fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi og er það vel. Umfjöllun Fréttablaðsins á spillingu og eiginhagsmunapoti varðandi launasjóð rithöfunda er sláandi. Það lýsir best innra manni þeirra sem sitja að kjötkötlunum góðu. Hugsjónin hefur verið afvegaleidd – traustið er hrunið. Þá eru ákveðnir rithöfundar þaggaðir hjá opinberum aðilum, launasjóði og fjölmiðlamönnum sem fjalla um bókmenntir. Vilja Íslendingar ,,sovéskt‘‘ stjórnarfar?

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2016?

Fjölbreytileikinn og hversu menningarþroskinn er orðinn víðtækur úti í samfélaginu. Ekki einskorðaður við fáar hefðbundnar listgreinar eða einstaka listamenn eins og áður fyrr. Það er áberandi hversu margar konur koma víða við sögu - engir eftirbátar karlmanna. Sama má segja um ,,List án landamæra‘‘ sem eflist ár frá ári.

Glæsileg hönnum á mörgum sviðum áberandi. Orr gullsmiðir og Jör fatnaður vekur athygli mína.

Úrval af metnaðarfullum barnabókum með lesþroska að leiðarljósi. Fræðslubækur hverskonar meðal annars um byggingarlist - ekki veitir af. Sakna bóka um landslagsarkitektúr.

Íslensk tónlist blómstrar sem aldrei fyrr ásamt metnaðarfullum flutningi á hverskonar tónlist. Vandaður tónlistarþáttur Péturs Grétarssonar á Rás 1 veitir ómetanlega innsýn í tónlistarlífið.

Áhugi erlendra ferðamanna og betri hótela á íslenskri samtímalist er jákvæð þróun.

Áhugavert er að fylgjast með hversu íslensk matarmenning hefur náð alþjóðlegum hæðum þar ber hátt Grillið á Hótel Sögu og súkkulaðimeistarinn Hafliði Ragnarsson.

Menningarleg umfjöllun í Kastljósi stendur upp úr. Framsetningin er metnaðarfull, fagleg og sanngjörn. Stutt og laggóð í senn. Yfirþyrmandi oflátungsskap og nístandi hlátrasköllum er sleppt. Aðrir gagnrýnendur, á hvaða sviði sem er, ættu að taka Kastljós til fyrirmyndar og afnema hallærislega, ekkert samræmi í, stjörnugjöf er minnir á barnaskap frekar en þroskaða hugsun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.