fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Einkamálaauglýsingar frá fornöld

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir blandar saman portrettmyndum af rómverskum styttum og texta úr breskum einkamálaauglýsingum

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 13. janúar 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar blaðamann og ljósmyndara DV ber að garði í Gallerí Gróttu í Bókasafni Seltjarnarness snemma á fimmtudag er Anna Júlía Friðbjörnsdóttir myndlistarkona í óða önn að setja upp sýninguna Álengd. Henni til halds og trausts er önnur myndlistarkona, Elín Hansdóttir.

Í svörtum römmum á veggjunum hanga tvískiptar myndir sem eru annars vegar unnar upp úr einkamálauglýsingum sem voru lengi vel fastur liður í breskum dagblöðum, og svo hins vegar portrettljósmyndum af andlitum rómverskra höggmynda. Á miðju gólfi standa svo opnar gamlar kennslu- og vísindabækur á svarthvítum myndum af tunglinu eins og það blasir við okkur frá jörðunni. Nafn sýningarinnar vísar einmitt í mælieiningar úr stjörnufræðinni – álengd er sú fjarlægð sem er frá reikistjörnu til tungls sem snýst í kringum hana.

Þetta er önnur einkasýning Önnu Júlíu sem er menntuð frá Manchester Metropolitan University og Guildhall University í London, en hún hefur þess utan stofnað og ritstýrt myndlistartímaritinu Sjónauka og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim.

Lítil portrett í textaformi

„Ég hafði lengi verið að velta fyrir mér hvernig ég gæti notað þessa texta sem ég safnaði á árunum 1998 til 2002, úr breskum einkamáladálkum sem kallast Lonely Hearts. Það er svo áhugavert að fólk borgar fyrir hvert orð, þannig að þetta er mjög knappt form. Þarna er fólk er að lýsa sjálfu sér og væntingum sínum í örfáum orðum. Mér finnst þetta eiginlega vera lítil portrett af þessum einstaklingum. Þessi menning er auðvitað algjörlega breytt í dag, þetta er líklega bara allt á internetinu,“ segir Anna Júlía og hugrenningatengslin við Tinder og önnur stefnumótaforrit eru nánast óhjákvæmileg þegar maður skoðar verkin.

„Svo fann ég þessa bók, Roman Portraits frá 1941, með mjög fallegum ljósmyndum af rómverskum skúlptúrum – portrettmyndir af höfði þeirra. Tæknin sem ljósmyndarinn notar er í raun eins og hann væri að mynda fólk – sem er svolítið óvenjuleg nálgun þegar skúlptúrar eru skrásettir. Þessi bók hreif mig. Gæðin í prentuninni eru líka svo mikil og falleg. Ljósmyndirnar sem ég valdi eru af óþekktu fólk en stytturnar voru engu að síður byggðar á raunverulegu fólki. Það voru meira að segja oft notaðar grímur og vaxafsteyputækni. Það var hins vegar svolítið vandaverk að finna myndir og texta sem gætu passað saman, til dæmis hvað varðar aldur og karaktereinkenni.“

Eftir að hafa klippt blaðsíður úr bókinni stillir hún þeim við hlið textans úr einkamáladálkunum, sem hún hefur handteiknað með blýanti á blaðsíður úr sömu bók. Áferð verkanna er hlýleg og mynstrið í textanum er búið til með speglun á ljósi og skuggum úr samsvarandi mynd. Seríuna nefnir Anna Corda Solitaria, en það þýðir einmana hjörtu á latínu. „Sumir hafa viljað grípa ástarvinkilinn á þessu, en þetta eru fyrst og fremst einmana sálir. Fólk er ekki bara að leita að maka heldur einnig félagsskap eða einhverju öðru sem það vantar í lífið,“ segir Anna Júlía.

Þarna er fólk er að lýsa sjálfu sér og væntingum sínum í örfáum orðum. Mér finnst þetta eiginlega vera lítil portrett af þessum einstaklingum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tunglið sameinar okkur

„Þegar maður skellir saman þessum texta, sem er eiginlega úr nútímanum, og ljósmyndum af fornum styttum þá finnst manni að þetta fólk á höggmyndunum gæti alveg eins hafa hugsað þessa hluti. Eflaust er fólk bara alltaf eins á öllum tímum. Það er meðal annars þessi sammannlegi þáttur sem mér finnst áhugaverður.“

Anna Júlía bendir einnig á að tunglið sem birtist okkur í fjölbreyttum myndum á miðju gólfinu og einum veggnum sameini alla þá raunverulegu einstaklinga sem koma að og blandast saman í sýningunni – listamanninn, einmana Breta og forna Rómverja – ekki síður en hinn mannlegi einmanaleiki og ástarþrá.

„Hér hef ég safnað fundnum bókum frá ólíkum tímum sem sýna okkur ýmsar birtingarmyndir tunglsins, en allar sýna þær þó hvernig við sjáum tunglið frá jörðinni. Í gegnum aldirnar og í öllum menningarheimum hefur tunglið verið talið tengjast ýmsum hindurvitnum og sögum – og svo auðvitað rómantíkinni líka. En ekki síst er það talið hafa raunveruleg áhrif á okkur, bæði jákvæð en kannski helst neikvæð. Ég hugsaði að tunglið er eitt dæmi um fyrirbæri sem tengir allt þetta raunverulega fólk saman og mig líka. Við höfum öll horft á þetta sama tungl, þessi hlutur hefur verið óbreyttur allan þennan tíma, við höfum öll horft á það og velt því fyrir okkur.“

Álengd var opnuð í gær, fimmtudaginn 12. janúar, á fullu tungli og stendur til 4. febrúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Stórfurðuleg ákvörðun UEFA útskýrð

Stórfurðuleg ákvörðun UEFA útskýrð
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið