Á mörkum nautnar og óeðlis

Sex listamenn velta fyrir sér nautninni í sýningu á Akureyri og í Hveragerði

Viðtalið birtist upphaflega í DV 12. júlí 2016 en birtist aftur á dv.is vegna opnunar Nautn/ Conspiracy of Pleasure í Listasafni Árnesinga 11. janúar.


Sex myndlistarmenn fást á ólíkan hátt við hugmyndir um nautn og hlutverk hennar í tilveru nútímamannsins í sýningu sem var opnuð á Akureyri í júní. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns Árnesinga í Hveragerði, en þar verður hún opnuð síðar á árinu.

DV fékk Hlyn Hallsson, safnstjóra og annan sýningarstjóra sýningarinnar, til að leiðbeina lesendum um Nautn – Conspiracy of pleasure.

Nautn sem verður að fíkn

Hlynur Hallsson er sýningarstjóri Nautn – Conspiracy of pleasure ásamt Ingu Jónsdóttur, safnstjóra Listasafns Árnesinga.
Leiðsögn Hlynur Hallsson er sýningarstjóri Nautn – Conspiracy of pleasure ásamt Ingu Jónsdóttur, safnstjóra Listasafns Árnesinga.
Mynd: © Daníel Starrason

„Nautn er mjög fjölþætt hugtak. Nautn getur verið andleg eða líkamleg, og hver og einn upplifir hana á sinn hátt. Nautnirnar eru því jafn ólíkar og manneskjurnar sem upplifa þær,“ segir Hlynur.

„Listamennirnir eru líka mikið að velta fyrir sér hvenær nautnin verður að óeðli. Nautnin að njóta matar er eitt það fyrsta sem manni dettur í hug. Það sem einum finnst mjög gott í mat og leyfir sér finnst öðrum viðbjóður, til dæmis steiktir sniglar eða eitthvað. En það er líka spurning hvenær nautnin að setjast niður að borða góðan mat verður að fíkn og fólk hættir að geta stoppað sig af, þetta er líka þekkt varðandi kynlífsnautn,“ segir Hlynur og bendir á hvernig Birgir Sigurðsson skoðar mörkin milli matarnautnar og átfíknar í einu verka sinna.

Hér er það nautnin að meðhöndla efni, nautnin að snerta eitthvað og það hvernig það birtist okkur.

„Jóhann Ludwig Torfason veltir svipuðum spurningum fyrir sér í tengslum við húmor. Hvenær er nautnin að skemmta sér farin yfir strikið, hvernig er hægt að takast á við ýmis tabú með húmorinn að vopni og hvað má maður segja? Svörin eru auðvitað persónubundin, þannig taka sumir andköf þegar þeir lesa textana í verkum hans, öðrum finnst þetta bara fyndið eða ekkert tiltökumál,“ útskýrir hann.

„Eygló Harðardóttir er svo að vinna meira á tilfinningalegum nótum, um efni og áferð, hér er það nautnin að meðhöndla efni, nautnin að snerta eitthvað og það hvernig það birtist okkur. Hún er líka að velta fyrir sér fegurðinni í afgöngunum, í því sem er ofaukið og því sem hefur verið hent. Maður sér yfirleitt ekki fegurð í því, en ef maður skoðar það nánar er hægt að upplifa einhverja nautn í því líka. Helgi Hjaltalín er svo á allt öðrum og samfélagslegri nótum. Í verkum sínum veltir hann fyrir sér hvernig það sem er göfugt markmið, eða nautn, fyrir einn einstakling geta aðrir séð sem hryðjuverk, óeðli eða eitthvað slíkt.“

Hingað hafa komið inn Bandaríkjamenn sem hafa sopið hveljur yfir verkum Helga, þar sem þeim hefur fundist hann hafa verið að upphefja hryðjuverkamenn ISIS.

Hneykslaðir Bandaríkjamenn

Hlynur segir myndlistina vera hentuga til að fást við margrætt fyrirbæri á borð við nautn, enda séu myndir og myndlistarverk opin fyrir ótal ólíkum túlkunarmöguleikum. Eins og nautnin sjálf hefur bakgrunnur áhorfandans – samfélagslegur, menningarlegur og trúarlegur – afgerandi áhrif á hvernig hann upplifir verkið.

„Hingað hafa komið inn Bandaríkjamenn sem hafa sopið hveljur yfir verkum Helga, þar sem þeim hefur fundist hann hafa verið að upphefja hryðjuverkamenn ISIS. Hann er alls ekki að gera það, en hann er að spila inn á það hvernig við lítum á hetjur og hvernig þær koma fyrir í fjölmiðlum. Það hefur líka komið fólk sem hefur fundist þetta alveg rosalega ljótar myndir og spurt hvort þetta sé ekki bannað börnum. En það er skemmtilegt að segja frá því að börn eru sjaldnast viðkvæm fyrir þessu, til dæmis fyrir Kúk-og-piss-slönguspilinu eftir Jóhann, þar sem pissubuna og rosaleg kúkaslumma koma í staðinn fyrir stiga og slöngur. Annaðhvort finnst krökkunum þetta mjög fyndið – kúkur og piss! – eða þau pæla bara ekkert í því. Afstaða okkar og viðhorf eru mótuð einhvern tímann á lífsleiðinni. Það er auðvitað eitt af stóru viðfangsefnunum í sýningunni: hver er það sem mótar okkur og hvernig sjáum við heiminn?“

Nautn/ Conspiracy of pleasure stendur yfir í Listasafni Árnesinga til 26. mars 2017.

Happy horny monsters

eftir Guðnýju Kristmannsdóttur
Happy horny monsters

„Guðný hefur mikið verið að velta fyrir sér kynferðislegri nautn, frjósemi og öðru tengdu því. Þessar kanínumyndir eru unnar á mjög hráan hátt, ein myndin máluð á plast sem er strengt beint á blindramma og hin unnin á ómálaðan striga. Mörgum finnst þessi verk svolítið gróf, kannski vegna þess að það sjást sköpin á kanínunni. Kanínur eru dýr sem okkur þykir yfirleitt lítil, sæt og mjúk. Það er hins vegar oft talað um að „fjölga sér eins og kanínur“ og kanínur hafa verið notaðar í kynlífsiðnaðinum sem tákn fyrir einhvers konar nautn, Playboy-kanínan er til að mynda orðin að sérstöku vörumerki. Í þessum málverkum er ein kanínan hangandi uppi á annarri löppinni, svolítið eins og á kjötmarkaði, og í augum hinnar er eitthvað geðveikislegt. Mér finnst ákveðin fegurð í þessum verkum en líka eitthvað ógnvænlegt.“

Running made easy

eftir Helga Hjaltalín Eyjólfsson
Running made easy

„Hér hefur Helgi útbúið ljósaborð, sem gæti verið vinnuborð skiltagerðarmannsins eða eitthvað slíkt. Þetta eru falleg skilti í „retro“-stíl, sem minna á bílamerkingar eða eitthvað svoleiðis. Þegar maður fer að skoða hvaða orð skiltin innihalda sér maður að þetta eru ensk uppnefni á ýmsum þjóðfélagshópum: „Paki“, „Redneck“ og svo framvegis. Sum orðin eru algengari en önnur, sum er eðlilegt að segja í ákveðnu samhengi á meðan þau eru algjör bannorð í öðrum. Það er kannski ekki augljós tenging við nautn í þessu verki, en það getur kannski falist ákveðin nautn í því að gera falleg skilti, að gera hlutina eins fallega og vel og maður getur. Í auglýsingaiðnaðinum er fólk að vinna vinnuna sína eins vel og það getur, en getur einnig oft verið að bera út boðskap sem er viðbjóður. Það er hægt að yfirfæra þetta á margt. Þú færð nautn út úr því að gera eitthvað fallegt en síðan ertu í raun að hanna kjarnorkusprengju eða útrýmingarbúðir.“

Torso, eða flugvélateikningar

eftir Önnu Hallin
Torso, eða flugvélateikningar

„Torso, eða flugvélateikningar, eru skúlptúrar úr steinleir og glerungum. Leirinn er brenndur tvisvar og þar með nær listakonan fram mismunandi áferð, glansandi og grófari. Hún verður nánast eins og húð eða eitthvað svoleiðis. Sumir halda kannski að þetta hafi mistekist, þetta sé sprungið og hrjúft, en þetta eru áhrif sem hún vill ná fram.

Maður getur séð geirvörtur, varir, eða önnur nautnarleg form í þessum skúlptúrum. Þannig getur manni þótt þetta mjög fallegt en síðan getur manni líka þótt þetta óhugnanlegt, því þetta gæti minnt mann á einhvers konar ofvöxt, eða afmyndaða líkamsparta. Þetta gætu verið sveppir eða veirusýking, sem hefur verið stækkuð upp. Þá er þetta alls ekki nautn heldur eitthvað skrýtið og óeðlilegt.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.