Ófærð, sýndarveruleiki og ballarbelti í andlitið

Menningarárið 2016

Eins og öll önnur menningarár hefur 2016 verið ríkt af listrænum sigrum jafnt sem vonbrigðum, menningarpólitískum deilum og fagurfræðilegum átökum. Í menningarannál DV er stiklað á stóru á því helsta sem gerðist í listum og menningu á Íslandi árinu 2016. Þrettán álitsgjafar úr ýmsum afkimum íslensks menningarlífs veittu álit við samantektina. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu ítarlegri vangaveltur álitsgjafanna birtast á menningarsíðu dv.is. Hér birtist samantekt DV á því allra markverðasta sem gerðist í íslensku menningarlífi árið 2016.


Íslenskt sjónvarp nær máli erlendis

Árið 2015 fóru íslenskar kvikmyndir sigurför um heiminn en í ár náðu íslenskir sjónvarpsþættir í fyrsta skipti alþjóðlegri hylli. Ófærð er dýrasta sjónvarpsþáttaröðin sem framleidd hefur verið en þar vann fjöldi leikstjóra undir listrænni stjórn Baltasars Kormáks. Í fyrstu voru viðtökurnar blendnar meðal íslenskra gagnrýnenda en þátturinn reyndist gríðarlega vinsæll meðal áhorfenda, með meira en helmingsáhorf í línulegri dagskrá. Þá má segja að þjóðin hafi uppgötvað hvernig Twitter getur gert sameiginlegt áhorf á sjónvarp í línulegri dagskrá að ríkari upplifun, þar var meðal annars tíst um mögulegan morðingja og þyrluhurðir. Erlendir gagnrýnendur héldu ekki vatni yfir þáttunum og hlutu þeir evrópsku sjónvarpsverðlaunin, Prix Europa, sem besta leikna þáttaröðin – en það er í fyrsta skipti sem íslenskur þáttur hlýtur verðlaunin.

Þriðju þáttaröð Réttar var einnig vel tekið, sýnd á Netflix og valin ein besta sjónvarpsþáttaröð ársins af New York Times. Kvikmyndasumarið, sem einhverjir lýstu yfir að væri komið í fyrra, er því kannski einnig komið í sjónvarpið.
Á sama tíma stóð styr um Edduna. Stöð 2 ákvað að taka ekki þátt í verðlaununum og Baltasar Kormákur hélt sitt eigið partí á sama tíma og hátíðin fór fram – enda Ófærð einungis tilnefnd til fernra verðlauna.

Tónlistarverðlaunin missa af rapplestinni

Í dægurtónlistinni var rapptónlist og R'n'B gríðarlega áberandi. Skriðþungi íslensku rappsenunnar var gríðarlegur: sjónvarpsþáttaröðin Rapp í Reykjavík var sýnd á Stöð 2, erlend tímarit fjölluðu ítrekað um fyrirbærið, Emmsjé Gauti tróð upp í góðærispartíum og nýir listamenn spruttu upp eins og gorkúlur. Hins vegar virtust Íslensku tónlistarverðlaunin ekki enn hafa kveikt á gróskunni, rapparar féllu milli skilgreiningarflokka og fengu aðeins ein verðlaun og lítið færri tilnefningar þegar þau voru veitt í febrúar.

Rappsenan hefur einnig verið í fararbroddi í tilraunamennsku hvað varðar sjónræna þætti og útgáfuform. Með hinni stafrænu byltingu hefur plötusala minnkað og tónlistarmenn þurfa að hugsa upp nýjar leiðir til að vekja athygli og fá innkomu. Tónlistarmyndbönd eru nauðsynleg og í stöðugri þróun, upplifunar- og sjónrænn þáttur tónleika spilar æ stærra hlutverk og útgáfuform tónlistarinnar eru að verða fjölbreyttari en áður. Emmsjé Gauti gaf út tölvuleik og dótakall, GKR gaf út plötu í morgunkornspakka og Sturla Atlas-hópurinn virðist nota jafn mikinn tíma í að gera tímarit og fatalínur eins og tónlistarsköpun.

Ballarbelti í andlit þjóðarinnar

Einn mest umtalaði tónlistarflutningur ársins var framkoma Reykjavíkurdætra í spjallþættinum Vikan með Gísla Marteini í lok febrúar. Þar fluttu þær lagið Ógeðsleg í spítalafötum frá Landspítalanum og ein var með gervilim bundinn um sig miðja. Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem var meðal gesta spjallþáttarins, gekk út og sagði sér ofboðið.

Anna Marsibil Clausen, blaðamaður og einn álitsgjafa DV, segist telja það hafa verið einn markverðasti listviðburður ársins: „Fjölmargir íslenskir listamenn eru pólitískt þenkjandi en Reykjavíkurdætur voru pólitískar fyrst, listamenn svo. Enginn annar íslenskur listamaður hefur hlotið jafn óblíðar viðtökur og þær – frá almenningi eða jafningjum úr bransanum – og það tók þær tíma að finna taktinn sem tónlistarmenn. Þær hafa vaxið og dafnað á því sviði og eru í dag eitt allra besta tónleikaband landsins þar sem hver framkoma er gjörningur enda eru þær svo miklu meira en „bara“ rapparar. Með ballarbeltinu góða sköpuðu þær frábæra umræðu um list, kynlíf, kynusla, femínisma og rými, tróðu umræðunni í rauninni í andlitið á fólki sem annars myndi eflaust kjósa að hunsa hugmyndir nýrrar kynslóðar um heiminn.“

Jóhann risi

Jóhann Jóhannsson er búinn að stimpla sig inn sem eitt af allra stærstu nöfnunum í heimi kvikmyndatónlistar. Hann var tilnefndur í annað skipti í röð til Óskarsverðlaunanna (fyrstur Íslendinga), gerði magnaða tónlist við Arrival, fékk þann heiður að fá að gera tónlist við framhaldsmynd Blade Runner og gaf þar að auki út hljóðversplötuna Orphée.

Jón Atli Jónsson, fjöllistamaður og einn álitsgjafa DV, nefnir plötuna sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins:
„Orphée er fyrsta sólóplatan í sex ár frá Jóhanni og sem slík stórtíðindi. Gefin út af Deutche Grammophon sem er elsta útgáfufyrirtæki klassískrar tónlistar í heiminum. Þetta er fyrsta platan hans hjá útgáfufyrirtækinu. Hann hefur áður gefið út hjá Fat Cat og 4AD. Samstarf hans við leikstjórann Denis Villenueve hefur verið honum gæfuríkt og skipar tónlist Jóhanns í myndum hans stóran sess og gert hann að einu eftirsóttasta kvikmyndatónskáldi heims. En Orphée er sjálfstætt verk og ekki samið fyrir kvikmynd og sýnir hvað Jóhann er magnað tónskáld.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sígild tónlist í sókn

Jóhann var ekki sá eini sem gerði það gott á sviði sígildrar tónlistar árið 2016: Víkingur Heiðar skrifaði einnig undir samning við Deutsche Grammophon, sem er eitt virtasta plötufyrirtæki heims á sviði klassískrar tónlistar. Kristinn Sigmundsson var tilnefndur til Grammy-verðlaunanna sem hluti af LA óperunni.

Í klassísku senunni áttu sér einnig stað nokkrar breytingar. Franski hljómsveitarstjórinn Yan Pascal Tortelier,tók við sem nýr aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er ráðinn til þriggja ára. Þá var Tectonics-tónlistarhátíðin haldin í síðasta skipti í ár. Þráinn Hjálmarsson, tónskáld og einn álitsgjafa DV, nefnir fréttina sem eina þá markverðustu á árinu: „Áhrif hátíðarinnar á íslenskt tónlistarlíf mun eflaust koma betur og betur í ljós með tímanum, en Ilan Volkov, listrænn stjórnandi hátíðarinnar og þáverandi aðalstjórnandi SÍ, kom líkt og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf og náði að virkja gífurlega breiðan hóp listamanna og efna til óvæntra samtala með þessari hátíð,“ segir hann.

Mynd: © Róbert Reynisson

Tónlistarnám í limbói

2016 var árið sem tónlistarkennarar voru kjarasamningslausir, en samningur þeirra hefur nú verið laus í 14 mánuði. Ekki tókst að ljúka árinu með skammtímasamningi sem samninganefnd Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum lagði til.

Meirihluta árs hefur verið deilt um hvort sveitarfélögum beri lögbundin skylda til að styðja við tónlistarnám á mið- og framhaldsstigi en í september var Reykjavíkurborg sýknuð af kröfum Tónlistarskólans í Reykjavík, og því er ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta fjárstuðningi við tónlistarskólann árið 2011 vegna kostnaðar við kennslu nemenda í framhaldsnámi í hljóðfæraleik telst lögmæt. Í sama mánuði var undirritaður samningur um stofnun listframhaldsskóla á sviði tónlistar.

Mynd: Santiago Felipe

Ný tækni og framtíðarsýn

Tækni spilaði stærra hlutverk í listsköpun á árinu en oft áður og framtíðin í brennidepli: tón- og myndlistarhátíðin Cycle einbeitti sér að tímanum og framtíðinni og þverfaglega verkefnið OH project stóð fyrir ráðstefnunni Future Fictions í október.

Sýndarveruleikasýning Bjarkar, Björk Digital, ferðaðist um heiminn á árinu og var opnuð í Hörpu í nóvember. Nokkrir álitsgjafar DV nefndu sýninguna sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins. Davíð Ólafsson, aðjúnkt í menningarfræðum, segir til að mynda: „Þrotlaus leit Bjarkar að leiðum til að nota nýjustu tækni og vísindi í þágu listarinnar er merkileg og aðgengi hennar að fólki á hnífsegg stafrænnar miðlunar gerir henni kleift að sinna hlutverki landkönnuðarins.“

Bjarki Þór Jónsson tölvuleikjafræðingur segir sýninguna hafa staðið upp úr á árinu að sínu mati: „Á sýningunni er notast við sýndarveruleika þar sem Björk hefur náð að tvinna saman tónlist og tækni á áhugaverðan hátt. Í sumum atriðum getur gestur sýningarinnar tekið beinan þátt í tónlistarmyndbandi Bjarkar en sýningin er eins konar framlenging af plötunni Vulnicura, þar sem sýndarveruleiki er notaður samhliða tónlist Bjarkar. Mér finnst Björk Digital líka vera gott dæmi um hvernig hægt er að tvinna tölvutæknina saman við skapandi greinar á vel heppnaðan hátt.“

Hann segir sýndaveruleikaumræðuna einmitt hafa verið áberandi á Íslandi í ár: „Sérstaklega í kringum Slush PLAY ráðstefnuna sem fókusaði á tölvuleiki og sýndarveruleika. Íslensk fyrirtæki hafa auk þess verið að gera góða hluti á sviði sýndarveruleika með leikjum og upplifunum á borð við EVE Valkyrie, EVE Gunjack, Everest VR og Waltz of the Wizard.“

Sesselja G. Magnúsdóttir dansfræðingur nefnir annað verk sem notast við nýstárlega tækni – gervigreind og smáforrit – sem eftirminnilegasta verk ársins, dansverkið Calmus Weaves sem sýnt var á Listahátíð í Reykjavík. „Í verkinu dansa dansararnir við tónlist sem er samin í rauntíma með hjálp tónsmíðaforritsins CALMUS Composer, hugbúnaðar byggðum á gervigreind og hefðbundnum tónsmíðaaðferðum. Hljóðheimur verksins skapast við hreyfingar dansaranna en þeir bera á sér hreyfiskynjara sem senda skilaboð í tónsmíðaforritið sem síðan breytir skilaboðunum í tónlist sem annars vegar nær til áhorfanda fyrir tilstuðlan tölvu eða umritaðist í nótur sem hljóðfæraleikarar sem voru einnig á sviðinu lásu og spiluðu eftir CALMUS Notation, smáforriti í iPad.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aldrei fleiri skáldsögur

Aldrei hafa fleiri nýjar íslenskar skáldsögur komið út en árið 2016, en fjöldinn hefur tvöfaldast á síðustu tuttugu árum.

Það voru nokkrar hræringar á bókamarkaði í ár. Jóhann Páll Valdimarsson, einn áhrifamesti einstaklingur íslenska bókmenntaheimsins, seldi hlut sinn í Forlaginu. Sonur hans, Egill Örn Jóhannsson, stýrir nú skipinu einn, en Hólmfríður Úa Matthíasdóttir verður útgefandi þessa stærsta forlags landsins.

Guðrún Vilmundardóttir sagði skilið við Bjart og stofnaði nýja bókaútgáfu, Benedikt. Þá gaf Partus Press út sína fyrstu skáldsögu, en útgáfan hefur í nokkur ár fyllt í tómarúmið sem skapast hefur vegna áhugaleysis stærri bókaútgefenda um ungskáld og -höfunda með Meðgönguljóða-seríu sinni.

Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, nefnir breidd í bókaútgáfunni sem eitt það markverðasta í íslensku menningarlífi um þessar mundir: „Ég held það sé nokkuð ljóst, að bókmenntirnar – sem við byrjum alltaf á, „bókmenntaþjóðin“ – standa nokkuð vel hjá okkur um þessar mundir. Ég læt hugann reika til áranna eftir 1950, til gamans. Þá voru sennilega fleiri tindar. Þó finnst mér eins og í dag sé meiri breidd.“

Laun listamanna í víglínunni

Það er árlegur viðburður að fjallað sé á einhvern hátt um framkvæmd listamannalauna. Í ár fjallaði Fréttablaðið nokkuð um afköst listamanna sem hafa verið á fullum launum í áraraðir, sérstaklega var fjallað um afköst Andra Snæs Magnasonar, sem hafði fengið launin á hverju áru áratug en aðeins gefið út eina bók. Sú talning var þó nokkuð ósanngjörn enda kom ný bók út eftir höfundinn síðar á árinu - og hefur hann nú gefið út 3 bækur á 11 árum.

Á sama tíma var bent á að öll stjórn Rithöfundasambandsins hlyti full laun árið 2016 og spurningar settar fram um hvort armslengdarlögmál réðu för – það er hvort sú staðreynd að stjórnin valdi sjálf fólk í úthlutunarnefndina hefði áhrif á úthlutunina.

Myndlistarmenn hafa svo verið einarðir í herferð þar sem þeir krefjast þess að listamenn fái borgað fyrir vinnu sína: Við borgum myndlistarmönnum.

Þjóðin elskar Njálu

Það leikhúsverk sem sameinaði þjóðina hvað mest á þessu ári var vafalaust Njála, sem var frumsýnd rétt fyrir síðustu áramót. Þorleifur Örn Arnarson bjó til hátíðardagskrá í kringum þessa mestu klassík íslenskra bókmennta. Hann bjó til tilraunakennda en aðgengilega leikhúsupplifun með myndlistarmönnum, dönsurum og leikhóp. Þræðirnir voru nægilega lausir svo leikhópurinn gat brugðist við málefnum líðandi stundar, til dæmis sungið þjóðsönginn á sviðinu daginn sem Panamaskjölin voru gefin út. Þetta var sýningin sem fólk talaði um í fjölskylduboðum og flestir virtust hafa gaman af. Gagnrýnendur hrópuðu húrra og sýningin fékk nánast öll verðlaun sem hún gat mögulega fengið.

Nokkrir álitsgjafar DV nefndu Njálu sem eftirminnilegustu listupplifun sína á árinu. „Leiksýningin Njála var eftirminnilegasta leiksýningin á árinu og eiginlega sú besta sem ég hef séð í leikhúsi,“ segir Brynhildur Pálsdóttir hönnuður. Anna Marsibil Clausen blaðakona segir: „Minn persónulegi listahápunktur á árinu átti sér líklega stað á Njálu þegar Haraldur Gráfeldur tók sig til og söng „Stairway to Heaven“ á dönsku. Ó, ef við gætum öll bara købt en trappe til himmelen.“

Lifandi listdanssena

Listdanssenan hefur verið gríðarlega lifandi á Íslandi í ár, atorkusöm, samheldin, konseptdrifin og nýjungagjörn. Reykjavík Dance Festival og Íslenski dansflokkurinn eru þar innsti kjarninn og drifkraftur. Íslenskir danslistamenn eru einnig að gera það gott erlendis, og hefur Katrín Hall til að mynda verið ráðin listrænn stjórnandi dansflokks Gautaborgaróperunnar.

„Það er frábært að sjá hvernig íslenskir danshöfundar hafa blómstrað á árinu. Bæði hafa þeir fengið tækifæri til að skapa fyrir Íslenska dansflokkinn en einnig sett upp sínar eigin sýningar. Fjöldi þeirra sem sett hafa upp verk á árinu telur á annan tuginn sem er frábært. Sýningar þessara höfunda hafa einnig verið mjög fjölbreyttar,“ segir Sesselja G. Magnúsdóttir, dansfræðingur og einn álitsgjafa DV.

Umræður og áhyggjur af túrisma

Umræður um áhrif ferðamannaiðnaðarins á náttúru, samfélag og menningarlífið voru áberandi í öllu samfélaginu í ár. Í menningarheiminum heyrðist gagnrýni á gullæði túrismans og söluvöruvæðingu landsins, til að mynda á hinu listræna sviði í leikritunum Extravaganza og Auglýsing ársins, en einnig jákvæðnisraddir. Þar á milli eru þeir sem reyna að finna praktískar lausnir á vandamálunum sem fylgja sprengingunni.

Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt og einn álitsgjafa DV, nefnir til dæmis málþing Arkitektafélags Íslands, Ferðamannastaðir 360°, og verkefnið Destination: Iceland unnið af Nohnik arkitektum frá Hollandi: „Það er mikilvægt að við förum að skoða landsvæði í heild sinni, þvert á milli sýslna, og nú er tími til að framkvæma langtímaáætlun til að varðveita en einnig tryggja það að komandi kynslóðir geti áfram nýtt og notið staðareinkenna á hverjum stað.“

Reykjavíkurborg er einnig að breytast með auknum straumi ferðamanna. Brynhildur Pálsdóttir hönnuður segir þannig að húsnæðismálin hafi einkennt árið 2016: „Hækkun á leiguverði í miðbænum hefur valdið því að sérverslanir og gallerí hafa þurft að færa sig og loka en það jákvæða við þróun borgarinnar er að sjá þéttingu byggðarinnar, að sjá ný verkefni og svæði byggjast upp eins og til dæmis Hafnartorg og Alþingisreitinn.“

Þá nefnir Ewa Marcinek skáld nokkur áhugaverð viðbrögð við þróuninni: „Ferðamannaiðnaðurinn er að éta Reykjavík og ný nálgun á rýmið er nauðsynleg, sérstaklega frá sjónarhorni listar og menningar. Fullkomið dæmi um framtak sem tókst á við þetta á uppbyggilegan hátt var Ferðasendiráð Rockall (e. Travelling Embassy of Rockall) sem tók yfir Vesturbugt í Reykjavíkurhöfn í þrjá mánuði síðasta sumar.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Góðæristónleikarnir snúa aftur

Tónlistaróðir Íslendingar flykktust á tónleika með erlendum poppstjörnum í meiri mæli en undanfarin ár, en slíkir tónleikar eru ekki síður en byggingarkranar til merkis um efnahagslegt góðæri á landinu. Justin Bieber, Radiohead, Muse, Brian Wilson, Burt Bacharach, James Morrisson, PJ Harvey, Suede, Brian Ferry, Simply Red, Die Antwoord og Schoolboy Q mættu til landsins árið 2016 ... svo örfá dæmi séu nefnd.

Tónlistarhátíðir áttu hins vegar í meiri vandræðum. Rokkhátíðin ATP Iceland fór í þrot skömmu áður en hún átti að fara fram að Ásbrú í sumar, um tíma var óvíst um framtíð Sónar Reykjavík – eftir að þáverandi framkvæmdastjóri hátíðarinnar lenti í deilu um aðgangsmiða á fótboltaleik íslenska karlalandsliðsins í Frakklandi – en nýir framkvæmdaaðilar tóku við keflinu og hátíðin var glæsileg sem aldrei fyrr, og kvartanir og gagnrýni vegna raða og skipulagsleysis á Secret Solstice voru áberandi.

Mynd: Michael Wilkin Photography / The Vinyl Factory

Glamúr í kringum Ragnar

Í myndlistarheiminum er hæpið í kringum Ragnar Kjartansson stöðugt að aukast. Með yfirlitssýningum í Barbican Center í London, Hirschorn í Washington, sem fengu frábæra dóma, er hann endanlega búinn að tryggja sér sæti í efstu deild myndlistarheimsins. Í ár frumflutti hann líka nýtt sviðsverk í Voelksbühne-leikhúsinu í Berlín.

Ragnar er byrjaður að nýta sér stöðu sína og draga með sér aðra listamenn, til dæmis í gegnum Bel-Air Glamour útgáfufyrirtækið sem hefur nú gefið út þrjár plötur og haldið sérstök glamúrkvöld í tengslum við myndlistarsýningarnar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Listasafn ASÍ skellir í lás

Listasafn ASÍ tilkynnti í apríl að sýningarstarfsemi safnsins yrði hætt á árinu og kvaðst ætla að einbeita sér að því að sýna safneignina sem var upphaflega stofnuð í kringum listaverkagjöf Ragnars í Smára til Alþýðusambandsins.

Margir úr myndlistarheiminum voru ósáttir við það hvernig gengið var til verka við söluna og segir Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins og einn álitsgjafa DV, það vera bömmer ársins: „Yfirlýsingin frá ASÍ að verkalýðsfélagið bæri enga ábyrgð á að halda úti sýningarsal heldur einungis safneign, hreinlega stenst ekki. Það er munur á að eiga verk í lokaðri geymslu og halda safneign. Hvar á alþýðan að sjá verkin? Á skrifstofunni hans Gylfa formanns? En sem betur fer fór þetta þannig að nýir eigendur Ásmundarsal keyptu húsið einmitt útaf menningarsögulegu gildi þess og vilja halda starfseminni í húsinu lifandi og opinni fyrir almenning.“

Fjölbreyttari raddir óma

Með fjölbreyttara samfélagi eru þær raddir sem heyrast í íslensku menningarlífi að verða fleiri og margbreytilegri. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að jafna aðstöðumun kynjanna, nýir landsmenn eru að skapa sér sín eigin rými og fatlaðir að taka sér meira pláss.

Þetta segir Ármann Reynisson vinjettuskáld vera eitt af því sem einkenndi menningarlífið árið 2016: „Fjölbreytileikinn og hversu menningarþroskinn er orðinn víðtækur úti í samfélaginu. Ekki einskorðaður við fáar hefðbundnar listgreinar eða einstaka listamenn eins og áður fyrr. Það er áberandi hversu margar konur koma víða við sögu – engir eftirbátar karlmanna. Sama má segja um „List án landamæra“ sem eflist ár frá ári.“

Til dæmis má nefna að flestir stærstu listamenn Iceland Airwaves í ár voru konur og sama var upp á teningnum á Norrænum músíkdögum: „Það var vissulega ánægjulegt að frétta af þeim straumhvörfum sem áttu sér stað í rúmlega 200 ára sögu hátíðarinnar, að á efnisskránni var hlutfall karl- og kvenhöfunda jafnt í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar,“ segir Þráinn Hjálmarsson tónskáld.

Erlendar raddir eru að verða örlítið meira áberandi í íslenskri menningarumræðu. Það er þó ekki endilega vegna þess að þau eru boðin velkomin heldur einmitt vegna þess að þessir aðilar skapa sér sinn eigin vettvang, og má til dæmis nefna listarýmið Listastofuna og fjölmála skáldasamfélagið Ós Pressan. Þá helgaði Tímarit Máls og menningar eitt tölublað sitt spurningunni: „Hvað er íslenskur höfundur?“

-

Leiðrétting: Í upphaflegu greininni var sagt að Andri Snær Magnason hafi fengið full listamannalaun í áratug og gefið út eina bók á tímabilinu. Það er rangt og hefur greinin verið leiðrétt. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.