fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Vinn með þráhyggjupælingar

Halldór Ragnarsson endurgerði verkin sem hann missti í bruna- Tók sex mánuði að endurgera sum þeirra – Sýning hans byggð á fjórum setningum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 16. september 2016 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Endurgerðir er heiti sýningar Halldórs Ragnarssonar í Listamönnum-Gallerí á Skúlagötu en hún verður opnuð laugardaginn 17. september. Titillinn Endurgerðir vísar sérstaklega til þess að öll verkin á sýningunni eru í raun endurgerðir af 90 verkum sem eyðilögðust í bruna á vinnustofu Halldórs á Grettisgötu í mars síðastliðnum. Hluta af þeim verkum hafði listamaðurinn fyrirhugað að sýna á sömu sýningu í maí en bruninn batt enda á þá áætlun. Listamaðurinn missti þó ekki móðinn og endurgerði verkin og sýnir þau sex mánuðum eftir brunann.

Meiri orka eftir brunann

„Fyrstu vikurnar eftir brunann vissi ég ekki hvernig ég ætti að takast á við áfallið. Þess eru dæmi að fólk hafi hætt í listtengdum störfum eftir áfall eins og þetta. En eftir nokkrar vikur fannst mér ekki annað koma til greina en að endurgera verkin. Það er líka í takt við það sem ég er að fjalla um í listsköpun minni, sem er í raun endurtekning,“ segir Halldór. „Þar sem öll gögn mín brunnu einnig eru verkin gerð eftir ljósmyndum sem ég átti á netinu og síðan eftir minni. Það tók sex mánuði að endurgera sum þeirra. Ég lærði mikið af því að gera verkin aftur og fyrir vikið eru þau betri. Ég er svo heppinn að hafa verið á listamannalaunum á þessum tíma og gat því einbeitt mér að listsköpun alla daga. Ekkert var að trufla mig. Mér fannst ég búa yfir meiri orku en fyrir brunann. Það var einnig ákveðinn gjörningur fyrir mig að gera verkin aftur.“

Tímaeyðsla að vinna við annað

Halldór er fæddur 1981 í Reykjavík og útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands eftir að hafa lært heimspeki við Háskóla Íslands. Í þessari sýningu segist hann vera, eins og svo oft áður, að skoða tungumálið til að koma hugmyndum sínum í ákveðinn farveg. „Ég er að nýta mér margræðni tungumálsins til að skoða mitt nánasta umhverfi og þá kannski sérstaklega mína persónulega sýn á hversdagsleikann. Ég hef verið að rýna í tungumál og spá í merkingu orða, og núna nýlega er ég farinn að velta setningum mikið fyrir mér. Fyrir um áratug teiknaði ég öll orð í orðabókinni sem byrja á A, og er það á vissan hátt kveikjan að vinnu minni almennt með tungumálið í myndlist minni. Hvert orð var á pappír sem var 15×15 sentimetrar. Þetta urðu um 3.000 teikningar og verkið tók tvö ár. Ég vinn með þráhyggjupælingar. Þannig er það líka í mínu daglega lífi, annars myndi ég ekki leggja vinnu í þessi verk.

Þessi sýning, Endurgerðir, er byggð á fjórum almennum setningum, þær tengjast allar og fjalla um það að fara að gera eitthvað sem kannski verður ekki klárað. Ein þessara setninga er: Hvenær er að koma pása? Það verk er gert með blýanti á pappír. Það tók mig fjóra mánuði að skrifa á hverjum einasta degi í fjóra klukkutíma: Hvenær er að koma pása? Merking spurningarinnar breytist með endurtekningunni og ef eitthvað er sagt nógu oft verður það jafnvel merkingarlaust.“

Halldór hefur tekið þátt í fjölda samsýninga; bæði hér og erlendis. Endurgerðir er áttunda einkasýning hans. Hann er spurður hvernig gangi að vinna fyrir sér sem listamaður. „Það er puð. Þetta hálfgengur en gengur þó. Ég sé mig alls ekki gera eitthvað annað en það sem ég er að gera. Það eru nokkur ár síðan ég áttaði mig á því að það er tímaeyðsla fyrir mig að vinna við annað en listsköpun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United
EyjanFastir pennar
Fyrir 10 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?