fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Bændur sváfu hjá

Óttar Guðmundsson skrifar um kynlíf í Íslendingasögum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 1. júní 2016 13:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ólafsson Grunnvíkingur lýsti efni Íslendingasagna með setningunni: Bændur flugust á. Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur aðrar hugmyndir um efni þeirra. Fyrir nokkrum árum kom út bók hans Hetjur og hugarvíl og þar var fjallað um geðsjúkdóma og persónuleikararaskanir í Íslendingasögum. Nú er komin út ný bók, Frygð og fornar hetjur, þar sem Óttar fjallar um samskipti kynjanna og kynlíf í Íslendingasögum.

„Um efni bókarinnar gæti ég sagt: Bændur sváfu hjá,“ segir Óttar. „Í bókinni er ég að skoða hjá hverjum þeir sváfu og hvaða reglur giltu um það, hver mátti sofa hjá hverjum og hver stjórnaði því.“

Hver er niðurstaðan?

Eiginkona Óttars, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, er höfundur kápumyndar og sá um myndskreytingar í bókinni.
Ný bók um kynlíf í Íslendingasögum Eiginkona Óttars, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, er höfundur kápumyndar og sá um myndskreytingar í bókinni.

„Aðalniðurstaðan er bág staða konunnar. Konan er eins og skiptimynt í viðskiptum karla. Hún er lögbundin eign karlmannsins frá því hún fæðist, fyrst föður síns og bræðra og svo eiginmanns og síðan sona. Lýsandi dæmi um þetta er ástarævintýri Þuríðar og Björns Breiðvíkingakappa í Eyrbyggju. Þau eru mjög ástfangin en bróðir Þuríðar, Snorri goði, er með aðrar áætlanir fyrir systur sína og hann ræður. Hann giftir hana tveimur öðrum mönnum og reynir að drepa Björn. Þegar Þuríður er búin að eignast barn með Birni, framhjá sínum eiginmanni, þá rekur Snorri Björn úr landi og hann sést aldrei framar á Íslandi.

Bók mín fjallar að verulegu leyti um stöðu konunnar í kynlífi og samskiptum kynjanna. Ég leita mjög víða fanga og fer inn í goðafræðina og þar er sama kvenfyrirlitning og í Íslendingasögum því ásynjurnar eru mun lægra skrifaðar en æsirnir.“

Hallgerður langáhugaverðust

Finnst sönn ást í Íslendingasögunum?

„Já, ástin milli Gunnlaugs ormstungu og Helgu fögru er ansi sönn. Tveir unglingar verða mjög ástfangnir og hann fórnar lífinu fyrir ástina og hún syrgir hann æ síðan.

Svo eru aðrir einstaklingar sem eru fyrst og fremst mjög ástfangnir af ástinni sem hugtaki en ekki ástfangnir af konunni sem ástin beinist að. Þetta eru menn eins og Hallfreður vandræðaskáld, Björn Hítdælakappi og fleiri.“

Hverjar eru áhugaverðustu persónur Íslendingasagna þegar kemur að kynlífshegðun?

„Hallgerður langbrók er langáhugaverðasta persónan af því að hún hagar sér eins og karl og neitar að ganga inn í hefðbundið kvennahlutverk.“

„Hallgerður langbrók er langáhugaverðasta persónan af því að hún hagar sér eins og karl og neitar að ganga inn í hefðbundið kvennahlutverk. Hún er glæsileg, skemmtileg og gáfuð kona sem lætur ekki segja sér fyrir verkum, hagar sér eins og karlmennirnir og tekur af skarið. Hún var hötuð af þjóðinni um aldir af því að hún var ekki í þessu hefðbundna kvenhlutverki. Mér finnst hún merkilegasta sögupersóna allra Íslendingasagna, sú sem vekur langmestan áhuga hjá mér og ég hef samúð með henni. Á unglingsaldri er hún kynferðislega misnotuð af fóstra sínum og í Njálu sefur hún samanlagt hjá sex mönnum sem eru allir drepnir í átökum og missir einnig barnabarn sitt. Líf hennar er mjög ömurlegt en hún gefst aldrei upp.“

Dularfullar persónur og mikil örlög

Þar sem Óttar hefur verið að rýna í Íslendingasögurnar síðustu ár og skrifað bækur um þær er hann spurður hvenær áhugi hans á þeim hafi vaknað.

„Áhugi á Íslendingasögunum hefur fylgt mér síðan ég var krakki,“ segir hann. „Ég kynntist þeim í gegnum bækur sem hétu Kappar, Íslendingasögur fyrir börn og unglinga, sem Marinó Stefánsson barnakennari tók saman. Ég stend í þakkarskuld við Marinó því hann leiddi mig inn í þennan heim sem hefur fylgt mér æ síðan. Ég hef notað Íslendingasögurnar mikið í kennslu og tekið dæmi þaðan og í mörgum bóka minna hef ég vitnað í Íslendingasögur. Þær eru mjög lifandi fyrir mér, þarna er mikið af fólki og dramatískar örlagasögur sem er gaman að stúdera.“

Finnst þér að þessar persónur séu enn lifandi fyrir Íslendingum?

„Það er mikill áhugi á þeim hjá eldri kynslóðinni en ekki nærri eins mikill hjá yngra fólki sem er ekkert að velta sér upp úr örlögum Hallgerðar langbrókar.

Í þessari bók er ég mikið að stúdera minna þekktar Íslendingasögur, eins og Droplaugarsona-sögu, Flóamannasögu. Vopnfirðingasögu og svo framvegis. Það er varla nokkur maður sem þekkir persónurnar í þeim bókum. Menn vita meira um þessar þekktustu Íslendingasagnahetjur.“

Óttar er að lokum spurður hvort hann ætli að skrifa fleiri bækur um persónur Íslendingasagna. Hann segir það ekki ólíklegt. „Ég er að velta því fyrir mér hvað ég eigi að fjalla um næst. Í Íslendingasögunum er allt fullt af dularfullum persónum og miklum örlögum. Þessar sögur eru endalaus brunnur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Aðstoðarmaður Klopp með spennandi tilboð á borði sínu

Aðstoðarmaður Klopp með spennandi tilboð á borði sínu
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum
Hartman í Val