„Hvar á alþýðan að sjá verkin, á skrifstofunni hans Gylfa formanns?“

Menningarárið 2016: Þorgerður Ólafsdóttir

Þorgerður Ólafsdótttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, segir bömmer ársins hafa verið hverni Alþýðusamband Íslands gekk til verka varðandi sölu á Ásmundarsal.
Bömmer ársins Þorgerður Ólafsdótttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, segir bömmer ársins hafa verið hverni Alþýðusamband Íslands gekk til verka varðandi sölu á Ásmundarsal.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í menningarannál ársins 2016 sem birtist í áramótablaði DV 30. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2016 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarmaður og formaður Nýlistasafnsins.

safnstjóri Nýlistasafnsins.
Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins.

Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk (eða arkitektúr/hönnun) ársins 2016?

Það er ekkert eitt verk eða ákveðinn viðburður sem að stendur upp úr, heldur öflug sena, kraftur og orka sem halda áfram að einkenna menningarumhverfið á Íslandi. Það eru allir svo ótrúlega duglegir!

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu? (gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)

Myndlistarsenan hefur náð að stækka og dafna, jafnt innan lands sem utan. Íslenskir listamenn sýna miklu meira erlendis en hérna heima þar sem rýmin og staðirnir eru ekki nógu margir til að halda utan um allt þetta hæfileikafólk.

.
Safnasafnið .
Mynd: Magnhildur Sigurðardóttir

Umræðan á það stundum til að draga landamæri sín við höfuðborgarsvæðið en það eru virkilega flottir hlutir að gerast á öllu landinu. Til að mynda hafa sýningarnar fyrir norðan hjá Listasafni Akureyrar, Safnasafninu, Verksmiðjunni á Hjalteyri og Freyjulundi á Siglufirði, verið mjög góðar. Skaftfell á Seyðisfirði og Rúllandi Snjóbolti á Djúpavík er topparnir fyrir austan og vesturleiðina marka Plan B, Frystiklefinn á Rifi með fjölbreytta starfsemi og gallerí Úthverfa á Ísafirði. Í höfuðborginni unnu listamannareknu rýmin EkkiSens og Harbinger gallerí það þrekvirki að ná yfir 2 ára starfsmúrinn með sjálfboðavinnu einni saman. Nýtt gallerí, Berg Contemporary opnaði einnig á Klapparstígnum og það verður spennandi að fylgjast með þeim.

Bömmer ársins var auðvitað hvernig Alþýðusamband Íslands gekk til verka varðandi sölu á Ásmundarsal. Yfirlýsingin frá ASÍ að verkalýðsfélagið bæri enga ábyrgð á að halda úti sýningarsal heldur einungis safneign, hreinlega stenst ekki. Það er munur á að eiga verk í lokaðri geymslu og halda safneign. Hvar á alþýðan að sjá verkin? Á skrifstofunni hans Gylfa formanns?

En sem betur fer fór þetta þannig að nýir eigendur Ásmundarsal keyptu húsið einmitt útaf menningarsögulegu gildi þess og vilja halda starfseminni í húsinu lifandi og opin fyrir almenning. Það hefði getað farið þannig að húsið færi bara undir hótelstarfsemi.

Dans og tónlistarverkið Play eftir Shantala Shivalingappa og Sidi Larbi Cherkaoui sem þau tileinka danshöfundinum Pinu Bausch, var dásamlegt frá upphafi til enda. Það er svo nauðsynlegt að geta fengið til eyjarinnar verk eins og þetta, sem Listahátíð í Reykjavík tókst, þó það hefði aðeins verið möguleiki á einni sýningu.

Ég er enn að endurspila ákveðin atriðin úr Njálu rúmum mánuði seinna. Hópurinn fór bara alla leið í hverju atriðinu á eftir öðru og ábyggilega langt út fyrir eigin þægindaramma. En allt tókst svo vel upp og yfirgengilegustu atriðin urðu aldrei banal, þó svo maður skók sér til og frá í sætinu, tilbúin fyrir kjánahrollinn sem aldrei kom, bara eilífar uppljómanir og upptendranir.

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2016?

Meðvituð fífldirfska er nauðsynlegur eiginleiki og drifkraftur fyrir senuna hérna heima og núna er ég að vísa í alla anga hennar. Þetta er ein mikilvægasta tegundin af hugrekki sem að fær fólk til að framkvæma magnaða hluti, skapa ógleymanleg augnablik og fjalla um erfiðustu málefnin. Á Íslandi erum við svo nefnilega svo heppin að búa að menningarsenu sem er fyrst og fremst sköpuð af duglegum einstaklingum sem af hugsjón yfirstíga flestar hindranir. Maður er endalaust þakklátur því listafólki sem að láta bara hlutina gerast og bjóða okkur að verða vitni að þeim og opna aðeins meira á okkur hausinn.

Þessi mikli metnaður og gífurleg vinna er einmitt að skila sér núna í einhvers konar trylltu góðæri innan listarinnar, gegnum ofboðlega flott verkefni og sýningar inn í menningarumhverfi sem er svo hryllilega fjársvelt. Menningin er næstmikilvægasti liðurinn í stærstu gjaldeyristekjum Íslands, lógíkin er eitthvað bjöguð.

Ég veit ekki hvort að allir listamenn séu bara sjálfir með blússandi yfirdrátt og blikkandi YOLO yfirskrift á verkefnin sín en þetta er mjög áberandi.

En svona tímabil vara aldrei lengi þannig að á einhverjum tímapunkti mun heimildin á kortinu maxa út, þolið dvína og þá kemur skellur.... nema að ríkið taki við sér í tíma. Skellurinn verður nefnilega mun stærri og alvarlegri núna og mun hafa veruleg áhrif ef eitthvað er að marka leiðir ferðamanna gegnum landið og staðina sem verða fyrir valinu.

Frá sýning í listamannarekna galleríinu Ekkisens
Ekkisens Frá sýning í listamannarekna galleríinu Ekkisens

Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:

Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt.
Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.
Ewa Marcinek, ljóðskáld.
Bjarki Þór Jónsson, tölvuleikjafræðngur og kennari
Anna Marsibil Clausen, blaðakona og bókmenntafræðingur
Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri.
Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarmaður.
Fannar Örn Karlsson, tónlistarmaður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.