fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Sending er eitt besta íslenska leikritið í langan tíma

Menningarárið 2016: Sveinn Einarsson

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 29. desember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í menningarannál ársins 2016 sem birtist í áramótablaði DV 30. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2016 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Sveinn Einarsson, leikstjóri og fyrrum þjóðleikhússtjóri.

Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk ársins 2016?

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?
(gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2016?

fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri.
Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar ég var yngri hafði ég ansi gaman að upprifjunum fjölmiðla af menningarviðburðum liðins árs og hvað hverjum fannst. Með árunum verður maður kannski ekki eins uppveðraður af hverju sem er, þykist hafa séð og heyrt eitthvað áður. En þó er viturlegt að rækta sina menningarlegu forvitni og opinn hug. Hins vegar gerist það ósjálfrátt að maður fer að horfa yfir akurinn til nokkurra eða marga ára og velta fyrir sér uppskerunni til lengri tíma. En hér verða ekki viðhafnar stjörnugjafir sem eru hrein lágkúra.

Bókmenntir.

Ég held það sé nokkuð ljóst, að bókmenntirnar – sem við byrjum alltaf á, „bókmenntaþjóðin“, – standa nokkuð vel hjá okkur um þessar mundir. Þessu til staðfestingar langar mig að nefna nokkrar úrvalsbækur, sem ekki komust i hóp þeirra sem tilnefndar voru til verðlauna bókaútgefenda. Fyrst skal þá fremstan telja Þorstein frá Hamri með ljóðaþroska sinn, eins konar manifesto heillar kynslóðar; þá er Steinunn Sigurðardótttir með ljómandi ljóðabók líka (og frumlega og forvitnilega mannlýsingu í Heiðu) og Guðmundur Andri Thorsson, einn snjallasti pistlahöfundurinn um þessar mundir með hækur. Og svo ætla ég að biðja gott fólk að láta sér ekki yfirsjást, að Guðrún Hannesdóttir bætir við sig með hverri nýrri bók.

Sveinn Einarsson nefnir ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Núna, sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins.
Manifestó heillar kynslóðar Sveinn Einarsson nefnir ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Núna, sem eitt eftirminnilegasta listaverk ársins.

Sú ágæta og margvitra skáldkona Álfrún Gunnlaugsdóttir vill gleymast í auglýsingaflóðinu en er með merka sögu, sem og Sigurbjörg Þrastardóttir sem er með harla skondna og geðþekka bók. Þá vil ég sérstaklega nefna Hermann Stefánsson, einn okkar frumlegasta höfund, sem í þetta sinn fjallar um Látra-Björgu í þéttum, magnþrungnum texta; Hermann er launkíminn og með skírskotanir og rittengsl út og suður í tíma og rúmi og þó bréfið stílað á okkar vesölu tíð. Og svo ber auðvitað að nefna Pétur Gunnarsson og Andra Snæ, sem báðir eru með hunangsverk, svo sem við var að búast, Pétur afar skemmtilegur og Andri svolítið nýr Andri. Mér tókst einnig svolítið að fylgjast með þeim yngstu; ég náði að lesa bæði Friðgeir Einarsson og Dag Hjartarson, og svo Guðmund óskarsson sem mér fannst betri í Bankster.

En áður en sagt sé skilið við bókmenntirnar vil ég minna á að leikrit eru líka bókmenntir og í haust var sýnt eitt besta íslenska leikritið í langan tíma, Sending eftir Bjarna Jónsson.

Ég læt hugann reika til áranna eftir 1950, til gamans. Þá voru sennilega fleiri tindar (Laxness, Gunnar, Kamban, Þorbergur, Ólafur Jóhann, Snorri Hjartarson, Steinn Steinarr, Jón Helgason og Jón úr Vör og ungu ljóðskáldin að brjótast fram, Hannes Pétursson og Sigfús Daðason, og síðan Thor, Guðbergur og Svava í prósanum). Þó finnst mér eins og í dag sé meiri breidd, en kannski er það misskilningur þegar betur er skoðað. Annars er ofangreind upptalning vitaskuld háð þvi hvað að manni berst, hvað maður krækir sér í á bókasöfnum eða ræðst í að kaupa. Hér vantar því til dæmis vin minn Þórarin Eldjárn, sem ég ætla auðvita að lesa, Sigríði Hagalín sem mér sýnist allir tala vel um, Kompu Sigrúnar Pálsdottir sem aðrir eru líka að tala vel um, Þórdísi Gísladóttur, Eyþór….. og …og…. Forvitnin og eftirvæntingin kann sér fá takmörk.

Jú, trúlega er allmikil breidd í skáldsagnagerð núna og ekki síður ljóðagerð. Lakara í leikrituninni. Og huganir eru of fáar.

Myndlist.

Þetta er auðvitað auma yfirlitið -, þó að ég þykist vera með 60 ára gamalt háskólapróf í bókmenntum í bakhöndinni, – hér vantar bæði barna-og unglingabækur og svo þjóðlegan eða óþjóðlegan fróðleik, sem ég nálgast yfirleitt eftir áramót. Er þó kominn vel á veg með Þjóðminjar Margrétar Hallgrímsdótttur, spennandi. Á enn hálli ís er ég í myndlistinni, þrátt fyrir umtalsverðan áhuga. Ég verð að viðurkenna, að stundum veit ég ekki hvert sú eðla kúnst er að æða og oftlega finnst mér of margir kallaðir. En svo koma upplifunarstundirnar með Ragnari Kjartanssyni, Ólafi Elíassyni, Erró, Eggerti Péturssyni og Helga Þorgilsi (sem voru með sérstaklega skemmtilega sýningu í Ásmundarsalnum sáluga,) og svo segir mér kona mín sem er listfræðingur að Guðjón Ketlisson sé einn mesti fagurkeri íslenskrar myndlistar um þessar mundir. Og ég tek undir.

Mikið var gaman að yfirlitssýningunni á verkum Nínu Tryggvadóttur í Listasafninu og eins sýninginni í Hafnarhúsinu með þátttöku ýmissa góðra listamanna, þar sem ólíkir þættir tilverunnar í kringum okkur voru samofnir listinni. En hvenær fáum við stóra yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar og Magnúsar Tómassonar?

Sveinn Einarsson nefnir yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur í Listasafni Íslands sem einn eftirminnilegasta listviðburð ársins.
Nína í Listasafninu Sveinn Einarsson nefnir yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur í Listasafni Íslands sem einn eftirminnilegasta listviðburð ársins.

Fleiri listgreinar.

Um dansárið ætla ég ekki að tjá mig, því að yfirleitt eru græjurnar of hátt stilltar fyrir fólk sem er með hjartað á gatt og sem berst við að halda því á lífi. Ég ætla líka að leiða hjá mér arkitektúrinn; segja bara að mér líst bráðvel á hús tungumálanna á Melunum og gleðst yfir bókinni um Rögnvald Ólafsson.

Sem óforbetranlegur bíómaður get ég ekki annað en staldrað aðeins við á þeim slóðum; kosturinn er sem fyrr allt of mikið úr vestrinu, evrópskar úrvalsmyndir sjást varla hér nema á hátíðum og þá sýndar einu sinni eða tvisvar. Guði sé þó lof fyrir að við höfum Riff. En er það alveg út úr gróðakorti að nefna myndir upp á íslensku, eins og Sjónvarpið myndarskapast þó við, en Sambíóin og Bíó Paradís ekki? Mörg úrvalsmyndin hefur farið framhjá venjulegu íslensku fólki af þessum sökum.

Tónlistin

Í lokin nokkur orð um tónlistina. Kannski er gróskan þar mest. Auðvitað er ekki búið að grisja og stundum finnst mér fjölmiðlarnir ganga æði langt í því auglýsa ungviðið sem varla er komið út úr bílskúrunum. En þarna er gerjandi, skapandi ólga. Gaman er að fylgjast með velgengi Jóhanns Jóhannsonar, eins og ævinlega þegar Íslendingar skara framúr á einhvern hátt. En velgengni erlendis má ekki verða til þess að við komum ekki auga á hvað gott er gert á heimavelli. Mér finnst til dæmis orðinn viðburður i hvert skipti sem Hörður Áskelsson og kórarnir hans halda tónleika í Hallgrímskirkju svo að dæmi séu nefnd. En á árinu kvöddum við svo annan dugleiksmann á því sviði, Jón Stefánsson.

Á skapandi sviðinu verð ég að nefna barnaóperu Gunnsteins Ólafssonar, þó að málið sé mér skylt á skjá; sömuleiðis Einars Benediktssonar-flautuverkið hans Áskels Mássonar. Við eigum ótrúlega marga góða og vel menntaða tónlistarmenn og söngvara og mér finnst Sinfóníuhljómsveitinni stöðugt fara fram; bersýnilega heppni að fá Tortelier til liðs við hana. En söngvararnir þurfa að fá fleiri tækifæri; margt er hægt að gera sem ekki kostar milljónir utan um sig.

Og er nú ekki gaman að fylgjast með ferli þrenningarinnar Önnu Þorvalsdóttur, Daníels Bjarnasonar og Huga Guðmundssonar í tónsmíðunum? Þaðan má mikils vænta.

Þó að ég þykist alæta á tónlist og kunni bæði að meta karlakórasöng (Fóstbræður 100 ára, til hamingju!) og harmoníkuleik, er ég meira í klassíkinni, fæddist fyrir poppið. Ég spurði því ungan sérfræðing fjölskyldunnar um tónlistartindinn að hennar mati. Svarið var Tónleikar og gjörningur Bjarkar. Sjálfur hef ég alltaf verið meira Sigurrósarmegin, en ég læt unga fólkið hafa síðasta orðið.

Umfjöllun um fræðirit krefst lengri tíma en jólaösin leyfir. Um leiklist fjalla ég síðan í vor ef ég lifi, því að við á þeim bæ hugsum alltaf í leikárum.


Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:

Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt.
Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.
Ewa Marcinek, ljóðskáld.
Bjarki Þór Jónsson, tölvuleikjafræðngur og kennari
Anna Marsibil Clausen, blaðakona og bókmenntafræðingur
Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri.
Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarmaður.
Fannar Örn Karlsson, tónlistarmaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“