fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Þetta er mín köllun

Ljósmyndarinn Rax hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Andlit Norðursins

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 27. desember 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir þremur áratugum hóf ljósmyndarinn Rax, Ragnar Axelsson, að skrásetja líf og störf fólks á norðurslóðum. Bókin Andlit norðursins birtir þetta ævistarf hans. Bókin hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og hreppti hin eftirsótti Bóksalaverðlaun í flokki fræðirita.

„Ég er glaður og hrærður yfir þessum viðurkenningum en líka feiminn,“ segir Rax. „Ég hef aldrei beðið um athygli og hefði helst viljað að enginn vissi hver ég er. Ég hef fengið verðlaun fyrir ljósmyndir en er löngu hættur að taka þátt í slíkum keppnum. Ég þoli ekki að tapa og þoli ekki heldur að vinna.“

Næsta bók hans verður vegleg bók um norðurheimskautið og hann er þegar byrjaður að vinna að henni. „Ég ætla að halda áfram að mynda lífið á norðurslóðum og í bókinni verða myndir frá átta löndum. Þeir ljósmyndarar sem mynda norðurslóðir í dag eru aðallega að mynda ísjaka, af myndunum mætti ætla að það væri ekkert fólk þarna. Það er fólkið sem ég vil ekki hvað síst festa á filmu. Sumir hafa ekki hugmynd um að fólk býr á þessum stöðum.

Það er ekki langt síðan ég var að fletta ljósmyndabók eftir bandarískan ljósmyndara sem hafði farið á norðurslóðir og í bókinni voru tugir ljósmynda af honum sjálfum að sýna sig. Mín skoðun er sú að bókin hefði ekki átt að snúast um hann heldur fólkið á þessum slóðum.

Ég fór tvisvar til Síberíu síðastliðinn vetur, ferðaðist á hreindýrasleða út í auðnina, þarna var flatneskja eins langt og augað eygði. Ég fór meðal annars til Jakútíu og úti í skógi fann ég gömul hjón sem bjuggu í litlum kofa og þar voru myndir af Stalín á öllum veggjum. Þarna var túlkur og ég spurði gamla manninn af hverju hann væri svona hrifinn af Stalín. Hann sagði: „Hann rak Þjóðverjana í burtu.“

Ég hitti líka hreindýrahirðingja sem búa í tjöldum. Konurnar færa tjöldin á tíu daga fresti meðan karlmennirnir sinna hreindýrunum. Meðalævilengd fólks á þeim slóðum er um fimmtíu ár. Þarna er töluvert mikil drykkja og lífið getur verið erfitt.

Ég á eftir að ferðast mikið við vinnslu bókarinnar og fer fljótlega til Grænlands í lítið þorp í Scoresbysundi og þar geta ísbirnir verið á vappi fyrir utan húsdyrnar.

Þarna ætla ég að mynda og svo ætla ég að rannsaka hundana á Grænlandi. Þeir eru merkilegir og það eru til margar sögur af þeim. Ég á þær margar og ætla að safna fleiri. Hundarnir eru búnir að halda í lífinu í Grænlendingum í 4.000 ár.“

Við Grænlandsstrendur
Alltaf á vaktinni Við Grænlandsstrendur

Mynd: StinniFoto

Vísindamenn skrifa hugleiðingar

Rax segist ætla að taka tvö til þrjú ár í að vinna að bókinni. „Ég talaði á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu og minnti þar á mikilvægi ljósmyndarinnar til að sýna heiminum hvað sé að gerast varðandi breytingar á norðurslóðum, til dæmis vegna loftslagsbreytinga. Það sem vísindamenn segja fer oft inn um annað eyrað og út um hitt. Þeir kvarta undan því að bara sé hlustað á þá einu sinni á ári. Á undanförnum árum hef ég verið að koma mér upp samskiptum við vísindamenn, bæði til að afla mér þekkingar og fá þá til að skrifa hugleiðingar um framtíð norðurslóða. Nokkrir þekktir vísindamenn hafa samþykkt að skrifa hugleiðingar í bókina. Á ráðstefnunni kom svo til mín fólk sem vill koma að fjármögnun þessa verkefnis. Það er dýrt að gera þetta en ég gæti unnið verkið á tveimur til þremur árum.“

Þú ferðast um svæði þar sem íbúar hafa mikil tengsl við náttúruna og ert stundum á stöðum þar sem eru engir menn. Hvaða áhrif hefur það á þig?

„Þegar ég fer út í auðnina og er í tjaldi eða kofa þar sem kyrrðin er yfirþyrmandi og ég sé stjörnurnar á himnum í svarta myrkri í 30 stiga frosti þá get ég ekki annað en fyllst lotningu og hugsað allt lífið upp á nýtt. Þegar ég sé allar þessar stjörnur, sem blikka mann, hugsa ég: Það getur ekki verið að við séum ein.

Þegar ég var lítill sagði mamma mér að allir ættu sína stjörnu. Þegar við sáum einu sinni stjörnuhrap spurði ég hana: Var einhver að deyja núna? Ég hugsa ennþá þannig að maður eigi eina stjörnu á himninum.

Ég var í KFUM sem unglingur og hef mína trú þótt maður efist stundum. En þarna, úti í náttúrunni þá hverfur þessi efi og ég finn fyrir yfirþyrmandi sterku afli. Þetta er sérstaklega áberandi á Grænlandi og það eru fleiri en ég sem segja það. Ég get ekki útskýrt það en stundum finnst mér að verið sé að tala við mig, alltaf á góðan hátt. Það er eins og þögnin tali við mann og hugsun manns verður mjög skýr.“

Erum við nútímamenn of hræddir við þögnina?

„Ég nýt þagnarinnar en ég óttast hana einnig. Þegar maður er einn lengi, kannski í hálfan mánuð til þrjár vikur, og veit ekki hvort einhver annar er á lífi í heiminum þá þarf maður að hugsa allt upp á nýtt. Í þögninni sér maður stundum kjánann í manni sjálfum og öðrum. Við nútímamennirnir erum alltof stressaðir og megum alveg slaka aðeins á. Ég get ekki farið í jóga eða hugleiðslu í borgarsamfélaginu, ég myndi ekki virka þar, en það gerist alveg sjálfkrafa þarna úti í náttúrunni.“

Hefurðu lent í lífshættu á ferðum þínum?

„Ég hugsa eiginlega aldrei um það. Auðvitað er hættulegt að hoppa á milli ísjaka í stormi úti á ballarhafi en um leið treysti ég veiðimönnunum sem eru með mér í för. Ég hef lent í aðstæðum sem hafa virkilega reynt á mig. Ég hef samt aldrei hugsað með mér að ég væri í lífshættu, ég vil ekki hugsa þannig. Ég fer alltaf varlega og mun meir nú en þegar ég var yngri. Mér hefur líka oft fundist að yfir mér sé vernd.

Ég veit ekki alveg af hverju ég hef þörf fyrir að fara á afskekkta staði með myndavél. Það er eins og ég þurfi að gera þetta. Ég veit ekkert af hverju en ég ræð ekkert við þetta. Þetta er mín köllun.“

Fólk með sögu í andlitinu

Hefur konan þín aldrei áhyggjur af þér á þessum ferðalögum?

„Hún er mjög róleg og treystir því að ég komi aftur. Ég held að krakkarnir mínir hafi stundum haft áhyggjur.“

Hvenær eignaðistu fyrstu myndavélina?

„Ég fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá pabba og mömmu en var byrjaður að taka myndir átta ára gamall. Ég var í sveit á Kvískerjum í Öræfum og fékk þá lánaða vélina hans pabba. Þarna bjuggu sjö systkini, fimm bræður og tvær systur sem báðar hétu Guðrún í höfuðið á sitt hvorri ömmunni. Þær týpur sem ég hitti í dag og ljósmynda eru týpurnar sem voru þar, fólk með sögu í andlitinu. Ég hlustaði á þetta fólk og lærði af því. Af þessum systkinum lærði ég til dæmis að sýna eldra fólki virðingu og meta þekkingu þess. Í dag finnst mér oft skorta á að yngra fólk sýni þeim eldri virðingu.“

Þú hittir merkilegt fólk á ferðum þínum, hvað hefurðu lært af því?

„Þetta er fólk sem heyr lífsbaráttu sem er allt öðru vísi en við eigum að venjast. Við Íslendingar erum stundum að kvarta og kveina. Ég þegi í þannig aðstæðum. Erfiðleikar okkar eru ekki neitt miðað við erfiðleika þessa fólks.

Ég á marga vini meðal veiðimanna. Einn þeirra er grænlenskur, Hjelmer sem er yfirburða greindur. Hann kann á náttúruna, er orðinn eins og hluti af henni og útskýrir fyrir manni á hógværan þátt hvernig hún virkar. Þegar vísindamenn eru að skoða það sem er að gerast þá vantar alveg þennan kafla í þekkingu þeirra. Þeir ættu að ræða við þessa veiðimenn því það myndi bæta miklu við þekkingu þeirra. Ég á marga fína vini, vísindamenn, sem ég hef sagt þetta við og þeir hafa sumir farið á þessar slóðir og viðurkennt seinna að það hafi verið það eina rétta. Mér finnst mikilsvert þegar menn eru að fjalla um norðurslóðir eða rannsaka þær að þeir fari á staðina og upplifi veruna þar. Eftir að hafa verið þarna í 30 ár þá líður mér, þegar ég geng á ísnum, eins og ég sé að ganga á bráðnuðum blaðsíðum í heimssögunni.“

Rétta hugarfarið

Þú hlýtur að þola kulda vel, annars værirðu ekki á þessum ferðalögum.

„Ég þoli kulda nokkuð vel og fer í sjósund í öllum veðrum. Grænlenskur veiðimaður sagði einu sinni við mig: „Þú hefur val. Þú getur valið að þér verði kalt vegna þess að þú ert stöðugt að hugsa um það og hefur áhyggjur af því. Eða þú hugsar sem svo að þú sért að fara að sjá eitthvað það stórkostlegasta sem hægt er að sjá og um leið verður þér heitt.“ Ég ákvað að vera glaður og kátur og mér leið miklu betur. Maður hefur val og ef maður er með rétta hugarfarið þá verður ferðin fín.

Myndina tók Rax á Grænlandi.
Ísbjörn Myndina tók Rax á Grænlandi.

Ég var á Grænlandi fyrir fjórum árum með nokkrum veiðimönnum, þar af Hjelmer vini mínum sem ég hef þekkt í 30 ár. Þeir höfðu komið auga á fjóra ísbirni og ætluðu sér að fanga einn þeirra. Ég sagðist ætla með en var sagt að það væri bannað. „Þú veist að ég ætla með,“ sagði ég við Hjelmer og sá í augunum á honum að hann gaf mér leyfi. Það var stormviðvörun þennan dag.

Ég elti veiðimennina nokkra kílómetra eftir ísröndinni. Þeim tókst að veiða einn ísbjörn en einhvers staðar voru þrír ísbirnir sem við sáum ekki. Hinir veiðimennirnir voru skammt frá með byssur en Hjelmer var skotfæralaus, byssukúlurnar höfðu dottið úr vösum hans þegar við vorum á hlaupum eftir hrjúfum ísnum. Stormurinn var að koma æðandi niður fjöllin og á heimleið þurftum við að berjast á móti veðrinu. Hjelmer nefndi við mig hvort ég væri tryggður ef ske kynni að við þyrftum að hringja á þyrlu ef ske kynni að ísinn myndi brotna og við fljóta á haf út á ísjaka. Ég sagði honum að ég hefði gleymt að tryggja mig. „Þeir myndu bjarga okkur veiðimönnunum en þú myndir þurfa að borga fyrir björgun,“ sagði hann. Ég horfði á hann og sagði: „Ég geng heim, þið farið bara í þyrlunni.“ Hann þagði, horfði á mig smástund, leit svo upp til fjalla og sagði: „Ég geng með þér.“

Þegar við komum til baka í þorpið tók Hjelmer brosandi utan um mig og sagði: „Þú veist að þú ert alltaf velkominn heim til mín. Ég vissi ekki að þú gætir verið svona mikill töffari.“ Eftir 30 ára góða vináttu hafði ég loksins staðist prófið. En ég var enginn töffari, ég var skíthræddur. Ég átti bara ekki þrjár milljónir fyrir þyrlunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur