fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Hin fullkomna jólamynd

RÚV sýnir Þetta er dásamlegt líf

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 24. desember 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Varla er hægt að ímynda sér yndislegri jólamynd en It’s A Wonderful Life (Þetta er dásamlegt líf) frá árinu 1946 sem Frank Capra leikstýrði og RÚV sýnir á aðfangadagskvöld. Ég hef fyrir venju að horfa á þessa mannbætandi mynd um hver jól. Hún geymir þann dásamlega boðskap að líf okkar sé samtvinnað lífi annarra og að öll getum við haft áhrif til góðs.

Í myndinni leikur James Stewart afar hjálpsaman mann, George Bailey, sem býr í smábæ og aðstæður hafa hagað því svo að hann hefur aldrei almennilega fengið að njóta sín. Hremmingar sem illur auðmaður stuðlar að verða til þess að George lendir í fjárhagserfiðleikum, missir lífslöngun og ætlar að fyrirfara sér. Hann sér ekki lengur tilgang í því að lifa og óskar þess að hann hefði aldrei fæðst. Ekki er þetta hugsunarháttur sem er til eftirbreytni. Öll höfum við okkar hlutverk í lífinu og megum ekki leggja árar í bát þótt á móti blási. Það verður hinum örvinglaða George til happs að verndarengill mætir á svæðið og sýnir honum hvernig líf þeirra sem næst honum standa hefði orðið hefði hann ekki fæðst. Þá hefði ýmislegt orðið á annan veg og mun verri. George áttar sig á því að hann hefur haft góð áhrif á líf annarra og öðlast lífsgleði á ný.

James Stewart er frábær í hlutverki George og örvænting hans er slík að áhorfandanum getur ekki annað en liðið verulega illa við að horfa upp á hana. Ekki eigum við að kvarta yfir því, það er hollt að finna til með öðrum og sýnir að við erum nokkurn veginn í lagi sem manneskja, þótt vissulega mætti ýmislegt betur fara.

Ég er hrifin af hugmyndinni um verndarengla, það er varla hægt að hugsa sér göfugra hlutskipti en að hafa þann starfa að gæta og vernda aðra. Í þessari mynd er verndarengillinn Clarence ekki unglegasti engill sem hægt er að ímynda sér en hann er algjört krútt og stundum skemmtilega viðutan. Við ættum öll að eiga okkar Clarence.

Þessi skemmtilega, hugljúfa og merkingarríka mynd þolir sannarlega að horft sé á hana einu sinni á ári, enda er hún sýnd á sjónvarpsstöðvum víða um heim fyrir jól. Þetta er mynd sem hefur þau áhrif á fólk að það verður ögn betra fyrir vikið. Ekki er víst að sú umbreyting standi lengi en hún verður samt, og það skiptir máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Í gær

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna