fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Ákvað sextán ára að verða listmálari

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 21. desember 2016 21:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út er komin bókin Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, en þar er sagt frá listakonunni og birtar fjölmargar myndir af verkum hennar. Kristín G. Guðnadóttir skrifar grein um listakonuna og birt er viðtal sem Steinunn G. Helgadóttir tók við hana.

Kristín er spurð um tilurð bókarinnar. „Sumarið 2015 var ég að laga til í vinnuherbergi mínu niðri í bæ og gerði mér grein fyrir því að verkin mín voru í geymslum úti um allan bæ. Ég hugsaði með mér að kannski væri best að gefa út bók um verkin því þannig yrði til yfirlit um þau. Ég var svo heppin að ekki löngu seinna sá ég auglýsingu frá Myndlistarsjóði um styrkveitingar og meðal annars til útgáfu. Ég fékk styrk og fór af stað að vinna í bókinni.“

Hvenær fékkstu fyrst áhuga á myndlist?

„Það er eins og ég hafi fæðst með áhugann. Þegar ég var lítil og kom á bæi þá skoðaði ég alltaf myndir og man enn í dag eftir myndum sem voru á veggjum á bæjunum í kring.“

Þú kennir þig við Munkaþverá þar sem þú ólst upp. Af hverju gerirðu það?

„Það er til aðgreiningar frá listakonunni Kristínu Jónsdóttur sem var fyrsta konan, ásamt Júlíönu Sveinsdóttur, til að gera myndlist að ævistarfi.

Náfrændi þeirrar Kristínar, Baldur Eiríksson, var kvæntur frænku minni og var frístundamálari. Hann átti sinn þátt í því að ég fór út í myndlist því hann lánaði mér olíuliti fyrir jólin þegar ég var fimmtán ára. Mig langaði til að gefa pabba og mömmu í jólagjöf eitthvað sem ég hefði málað. Ég hafði aldrei snert á olíulitum og átti ekki pening til að kaupa þá en spurði Baldur hvort hann gæti lánað mér slíka liti og það var alveg sjálfsagt. Ég settist í horn í stofunni hjá þeim hjónum og málaði landslagsmyndir á kassa sem ég gaf foreldrum mínum.“

Gerði samning við móður sína

Þú tókst ákvörðun um að fara í myndlistarnám, var það ekkert snúið á þessum tíma?

„Við vorum fjögur systkinin og það var ekki einfalt að koma okkur öllum til mennta, en pabbi og mamma lögðu mikla áherslu á að gera það. Mamma hafði sjálf þurft að hætta námi vegna efnaleysis.

Þegar ég var sextán ára gömul úti á túni að raka með foreldrum mínum sagði ég þeim að ég ætlaði að fara til Reykjavíkur og verða listmálari. Þetta var þeim meiriháttar áfall. Þau vildu að ég lyki stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Þau reyndu bæði að telja mig af þessari ráðagerð minni en ég var þrjósk og ákveðin. Það endaði með því að við mamma gerðum samning. Ég skyldi fara suður og á námskeið til að sjá hvort ég hefði myndlistarhæfileika. Ég fór til Reykjavíkur, réð mig þar í vist, vann fyrir hádegi fyrir fæði og húsnæði og smá kaupi og fór á myndlistarnámskeið. Seinna sótti ég um í Handíða-og myndlistarskólanum og var þar í tvo vetur í myndlistar- og teiknikennaradeild.

Ég var alltaf ákveðin í því að fara til útlanda í framhaldsnám. Á þessum tíma giftist ég Þrándi Thoroddsen sem var í námi í Kaupmannahöfn svo það lá beint við að ég færi þangað. Ég fór í framhaldsnám í Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn og var þar í textíldeild í þrjú ár.

Ég var mjög bjartsýn þegar ég kom heim eftir námið úti, ætlaði að lifa á vefnaði og mála á kvöldin, en það tókst ekki á Íslandi. Lúðvíg Guðmundsson skólastjóri bauð mér kennslu við Handíða- og myndlistarskólann. Um tíma kenndi ég þrykk og munsturgerð í deild sem hét Listiðnaðardeild kvenna. Á þessum tíma var allt svo kynskipt, það hefði enginn karlmaður á Íslandi þorað að fara í þær greinar sem þar voru kenndar. Ég var kennari við skólann í tólf ár með nokkrum hléum því ég fór í stutt framhaldsnám í París. Árið 1975 ákvað ég svo að helga mig listsköpun.“

Verk í minningu dæmdra kvenna

Hvað einkennir verk þín?

„Myndlistarferill minn skiptist í tímabil. Fyrst kom klaufalega tímabilið þegar ég var að mála með olíulitum og vatnslitum og teikna með blýanti. Svo kom tímabil þegar ég þrykkti myndverk og þegar ég eignaðist lítinn vefstól fór ég að vefa myndverk.

Upp úr 1970 vann ég nokkuð mikið úr hrosshári og notaði einnig vír, þráð, kopar og pappír. Svo kom tímabil, sem stóð nokkuð lengi, þar sem ég fór að þæfa ull. Það var alltaf draumur minn að gera stór verk en ég hafði aldrei haft bolmagn til þess. Nú fór ég að geta það með því að búa til í einingar og raða þeim saman.

Eftir það tímabil fór ég að vinna með örnefni, bæði á pappír og ull. Ég vann einnig mikið með tónlist því tónlist hefur alltaf haft mikil áhrif á verk mín. Ég var alin upp á heimili þar sem var mikil tónlist, föðurbróðir minn var organisti og ég lærði sjálf svolítið. Tónlist var líka sameiginlegt áhugamál okkar Jóns Óskars, seinni manns míns. Ég vann mikið með plexígler og ull og verkin fengu nöfn eins og blús, tokkata og fúga.

Ég gerði líka tilraunir með að skrifa í verkin því texti var mér alltaf ofarlega í huga. Það voru kannski áhrif frá Jóni Óskari og ég varð fyrir beinum áhrifum af sumum verkum hans. Þegar hann var að skrifa ævisögu Sölva Helgasonar þá hjálpaði ég honum að afla gagna. Við fórum í gegnum dómskjöl og þá rakst ég á mörg mál um konur sem fengu harða dóma.

Mér fannst þessi mál svo átakanleg. Þessar konur fóru út í fjós og hlöðu til að fæða, eins og María mey gerði á sínum tíma. Þær voru síðan margar dæmdar fyrir að bera börn sín út. Ég gerði verk í minningu þeirra og eitt þeirra var sýnt í kirkju á Spáni. Ég byggði í kringum líkneski af Maríu mey, setti í kringum hana glerplötur með nöfnum kvennanna og árið sem börnin fæddust og svo notaði ég ull sem tákn um hlýju og samband við náttúruna.“

Gert í minningu kvenna sem voru dæmdar fyrir að bera út börn sín.
Skjól frá árinu 2002 Gert í minningu kvenna sem voru dæmdar fyrir að bera út börn sín.

Kristín vinnur enn ötullega að list sinni og segist nú mest nota blýant en einnig mála með vatnslitum. Meðal nýlegra verka hennar er sería sem hún gerði eftir ljóðum manns síns, Jóns Óskars. Þar skrifar hún upp ljóð með blýanti á pappír og til verða ýmis form, þar á meðal vettlingur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Samtal Liverpool við Slot virkt

Samtal Liverpool við Slot virkt
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Villa staðfestir gleðitíðindin

Villa staðfestir gleðitíðindin
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Sjáðu athyglisvert myndband sem Óli Kalli birti – „Bara ef ég fæ að vera með Gylfa“

Sjáðu athyglisvert myndband sem Óli Kalli birti – „Bara ef ég fæ að vera með Gylfa“