fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Þörf útgáfa

Bókardómur: Hrakningar á heiðavegum eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 13. desember 2016 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skammt er síðan þjóðin öll beið með öndina í hálsinum eftir fréttum af afdrifum rjúpnaskyttu sem lenti í villum á Héraði. Friðriks Rúnars Garðarssonar var leitað í á annan sólarhring af hundruð björgunarsveitarfólks. Sjálfsagt hafa margir talið Friðrik af enda afar fátítt í seinni tíð að menn lifi af tvær nætur týndir á fjöllum. Þeim mun meiri var léttirinn og gleðin þegar Friðrik fannst síðan heill á húfi ásamt hundi sínum.

Því er þetta rifjað upp hér að nýverið kom út bókin Hrakningar á heiðavegum hjá Veröld. Bókin er úrval hrakningasagna úr fjögurra binda útgáfu þeirra Pálma Hannessonar og Jóns Eyþórssonar, Hrakningar og heiðavegir, sem út komu á árunum 1949 til 1957. Þær bækur hafa lifað með eldri kynslóðum og eru löngu ófáanlegar, jafnvel er fátítt að þær sé að finna á fornsölum. Sá sem þetta skrifar á í fórum sínum þrjár hinar fyrstu en hefur aldrei komið höndum yfir fjórðu bókina. Því er útgáfa úrvalsrits þessa, sem tekið er saman af Bjarna Þorsteinssyni, gleðiefni fyrir unnendur þjóðlegs fróðleiks og bókaunnendur alla.

Því er útgáfa úrvalsrits þessa, sem tekið er saman af Bjarna Þorsteinssyni, gleðiefni fyrir unnendur þjóðlegs fróðleiks og bókaunnendur alla.
Bjarni Þorsteinsson Því er útgáfa úrvalsrits þessa, sem tekið er saman af Bjarna Þorsteinssyni, gleðiefni fyrir unnendur þjóðlegs fróðleiks og bókaunnendur alla.

Í bókinni er 31 saga og hefur Pálmi Hannesson skráð þær flestar, eða níu talsins. Hefðu þær að ósekju mátt vera enn fleiri því Pálmi var mikill stílsnillingur. Sögur hans eru afar vel skrifaðar, þær veita góða innsýn í hugarheim þeirra sem berjast hafa þurft við óblíð náttúruöfl í óbyggðum. Gildir þar einu hvort hefur haft betur, náttúran eða maðurinn. Þá er heimildavinna Pálma með miklum ágætum, þar sem því verður viðkomið, þó að oft hafi hann þurft að reiða sig nær eingöngu á frásagnir ýmist þeirra sem atburðina lifðu eða annarra sem fjær stóðu.

Af öðrum sögum í bókinni er það að segja að þær eru misjafnlega stílaðar en flestar þó býsna vel. Mikill fengur er að frásögnum af hrakningum þeim sem ritaðar eru upp beint eftir þeim sem þær lifðu og sömuleiðis þeim sem sjálfir hafa ritað sína upplifun. Þannig er til að mynda um háskaför Stefáns frá Möðrudal, sem fleiri kunna að þekkja sem Stórval, en þá frásögn ritaði Erla skáldkona, Guðfinna Þorsteinsdóttir. Stefán lagði upp í ferð með póst frá Möðrudal á Fjöllum og yfir á Jökuldal en lenti í miklum hrakningum á heimleið. Broslegt er að lesa um böggulinn sem Stefán var beðinn fyrir og bar með sér af trúmennsku í öllum sínum erfiðleikum. Kom í ljós að böggullinn hafði að geyma vaðmálsbuxur nýjar, sem Stefáni hefðu gagnast vel hefði hann aðeins litið í böggulinn. En trúmennska Stefáns var slík að ekki datt honum það í hug. Kemur þá óneitanlega í hug lesanda saga Nóbelskáldsins af brauðinu dýra í Innansveitarkroniku. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“

Einna síst er frásögnin af hvarfi Reynistaðabræðra. Sú saga var áður kunn flestum landsmönnum en líklega hefur nokkuð fennt yfir hana og líklegt að yngri kynslóðir þekki hana lítt, eða alla vega síður en eldri kynslóðir. Frásögnina ritaði Jón Eyþórsson en ekki er örgrannt um að sá er hér heldur um penna hefði óskað sér þess að Pálmi Hannesson hefði heldur ritað hana. Ekki er að efa að Pálmi hefði til að mynda getað sett sig inn í hugarheim Jóns Austmanns þegar hann ríður á leið til byggða í hjálparleit, einn og illa haldinn, og lætur líf sitt við þá för.

Sögurnar snerta margar lesandann sökum þess hversu hryggilegar þær eru. Oft hefur fólk farið af stað með meira kappi en forsjá og haldið út í válynd veður í fullkomnu tilgangsleysi. Erfitt er þó að setja sig inn í hugarheim þeirra sem um
ræðir, sitjandi í hlýjunni heima við og hafa sjaldnast haft ástæðu til að leggja út í illviðri eða hættur.

Útgáfa bókarinnar Hrakningar á heiðavegum er þarfaverk og ber að þakka Bjarna Þorsteinssyni og Veröld framtakið. Bókin sjálf er til sóma, þar fá sögurnar að njóta sín líkt og þær voru ritaðar og gefnar út á sínum tíma. Helst má kvarta undan því að erfitt er fyrir lítt staðkunnuga að gera sér grein fyrir leiðarlýsingum og stöðum. Hefði mátt bæta úr þessu með því að láta kort fylgja hverri frásögn og hefði það lyft upplifun lesenda mjög.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Zidane hvattur til að taka við United

Zidane hvattur til að taka við United
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun