Guðbergur Bergsson á KFC og fleiri minningar Dr. Gunna

Fyrsta málverkasýning Dr. Gunna opnuð á Mokka - Hefur samið lag fyrir hvert málverk

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég man ekki alveg af hverju ég byrjaði á þessu,“ svarar Dr. Gunni þegar hann er spurður hvernig það kom til að hann byrjaði að mála tæplega fimmtugur, en tónlistarmaðurinn og rokkspekúlantinn opnaði sína fyrstu málverkasýningu, Atvik, á Mokka í vikunni.

Um er að ræða 18 akrílmyndir sem málaðar eru á hvítgrunnuð plötuumslög, en efni myndanna er minningabrot úr lífi Dr. Gunna. Í hverju umslagi er svo ný sólóplata frá listamanninum, Atvik, en á henni eru átján lög – eitt fyrir hverja mynd. „Ég byrjaði að mála þessar myndir árið 2014 og ætlaði upphaflega að hafa sýninguna þegar ég varð fimmtugur en það náðist ekki. Í upphafi notaði ég LP-plötuumslög sem striga til að mála á, og þá kom fljótlega upp sú hugmynd að hafa plötur inni í myndunum. Þess vegna er þetta líka LP-plata sem fylgir hverri mynd. Þetta eru því átján myndir og átján laga plata sem verður bara til í þessum átján eintökum,“ útskýrir hann.

Dr. Gunni segir efnið spanna allt lífshlaup hans en hins vegar séu það ekki endilega stærstu viðburðir ævi hans sem séu á myndunum – enda minnið ólíkindatól sem magni oft upp smávægilegustu minningabrot.

„Ég ákvað að fanga 18 atvik eða minningar úr mínu heilagumsi, það er ekkert endilega neitt merkilegt sem ég er að mála, stundum jafnvel mjög ómerkilegt. Eins og þegar ég sá Guðberg Bergsson á KFC og eitthvað slíkt … eða það er reyndar frekar merkilegt. Það er svo lag á plötunni sem fjallar um það þegar Guðbergur fór á klósettið á KFC.“

Hvað munu myndirnar/plöturnar svo kosta?

„Uppsett verð er 45 þúsund, Mér finnst það reyndar ógeðslega dýrt, en vinir mínir í myndlistarheiminum segja mér að það sé bara ódýrt.“

Sýningin stendur yfir á Mokka-Kaffi til 1. nóvember.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.