fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Tímalaus fjársjóður

Bókardómur: Fjársjóðseyjan eftir Robert Louis Stevenson

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 23. nóvember 2016 15:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál og menning hefur á undanförnum árum gefið út klassísk meistaraverk, innbundin og myndskreytt. Þar má nefna Frankenstein eftir Mary Shelley, Reisubók Gúllívers eftir Jonathan Swift og Ummyndanir Ovidiusar, svo einhverjir titlar séu nefndir. Nú bætist við Fjársjóðseyja Roberts Louis Stevenson. Flestir þekkja söguna, sem margoft hefur verið kvikmynduð, og margir hafa lesið íslensku þýðinguna frá árinu 2001, sem var allnokkuð stytt. Nú kemur sagan út í fullri lengd í sérlega góðri þýðingu Árna Óskarssonar sem einnig skrifar fróðlegan eftirmála við verkið.

Í Fjársjóðseyjunni kynnumst við hinum knáa og unga Jim Hawkins sem fer í fjársjóðsleit og kemst í kynni við sjóræningja. Þetta er ævintýrasaga með öllu tilheyrandi. Þarna eru skrautlegir skálkar, talandi páfagaukur, falinn fjársjóður og beinagrindur. Það er ekki hægt að biðja um það betra! Sagan státar svo af eftirminnilegri hetju, ungum dreng, Jim Hawkins, sem er bæði ráðagóður og hugrakkur og ekki veitir af þeim eiginleikum í öllum þeim miklu hættum sem hann lendir í. Þessi ungi drengur fangar hug lesandans sem gengur inn í hugarheim hans, eins og í magnaðri lýsingu á martröðum sem hann fær um hinn einfætta sæfara sem hann hefur verið varaður við. Þegar sá mætir svo á sviðið er ekki laust við að fari um lesandann, eins og hina geðugu söguhetju.

Hann var 31 þegar hann skrifaði Fjársjóðseyjuna fyrir 12 ára stjúpson sinn.
Robert Louis Stevenson Hann var 31 þegar hann skrifaði Fjársjóðseyjuna fyrir 12 ára stjúpson sinn.

Andrúmsloft sögunnar er drungalegt og ógnir virðast ætíð bíða handan við hornið. Þarna verða viðbjóðsleg dráp og voðaverk eru unnin fyrir framan augun á drengnum. Það er erfitt að sjá fyrir sér barnabókarhöfund í nútímanum leggja upp í jafn svakalegan leiðangur og hér er gert. Stílgáfa höfundar er aðdáunarverð, hann dregur upp sterkar og kröftugar myndir þannig að sögusviðið verður ljóslifandi fyrir lesandanum. Þetta er krassandi frásögn og þeim fullorðna lesanda sem breytist ekki í spennt barn við lesturinn er ekki viðbjargandi. Þessi ævintýralega saga er einfaldlega dýrðleg skemmtun fyrir jafnt unga sem aldna.

Þorparar sögunnar eru litríkir persónuleikar sem þrátt fyrir illmennsku ná að kalla fram vissa samúð hjá lesendum, kannski vegna þess að þeir eru stórskemmtilegir og sjálfir fullkomlega meðvitaðir um sína miklu og stóru bresti. Það fer notalegur hrollur um lesandann þegar fúlmenni kyrjar: Á dauðs manns kistu … Ó-hó og rommflaska ein! Aðalskúrkurinn er hinn einfætti langi-John Silver og ekki er hægt annað en að heillast af honum, það er einfaldlega ekkert hversdagslegt við hann. Hið sama má segja um Ben Gunn sem hafði dúsað á fjársjóðseyjunni í óratíma, hann er eftirminnileg tragi-kómísk týpa.

Bókina prýða myndir eftir George Roux (1850–1929), listilega vel gerðar og þjóna sögunni einkar vel. Það er ekki alveg hægt að taka undir með Lísu í Undralandi sem spurði hvaða gagn væri að myndalausum bókum, en þegar maður skoðar þessa þá veit maður samt hvað hún átti við. Þetta eru myndir sem fanga augað og ekki er annað hægt en að staldra við þær.

Máli og menningu ber að þakka fyrir þá alúð sem lögð hefur verið í útgáfu þessarar bókar. Vonandi sér forlagið sér kleift að halda áfram að gefa út perlur heimsbókmenntanna í þessu sama formi, og þá algjörlegar óstyttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

KSÍ segir ráðningu á framkvæmdarstjóra í góðum farvegi

KSÍ segir ráðningu á framkvæmdarstjóra í góðum farvegi
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Selfoss borgar stóran hluta af myndarlegum launapakka Gary Martin

Selfoss borgar stóran hluta af myndarlegum launapakka Gary Martin
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Bayern byrjað að ræða við Rangnick um að taka við

Bayern byrjað að ræða við Rangnick um að taka við
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“