fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Leonard Cohen í fimm ljóðlínum

Cohen er látinn 82 ára – Eitt virtasta söngvaskáld og lagasmiður samtímans – Kvennamaður, munkur, skáld

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 16. nóvember 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn virtasti lagasmiður og söngvaskáld samtímans Leonard Cohen lést 7. nóvember síðast liðinn, 82 ára gamall. Hann gaf út fjórtán hljóðversplötur á ferlinum, þrettán ljóðabækur og textasöfn og tvær skáldsögur. Nýjasta plata Cohens, You want it darker, kom út aðeins tveimur vikum fyrir andlátið.

Ljóðskáld fyrst og fremst

When young the Christians told me // how we pinned Jesus // like a lovely butterfly against the wood, // and I wept beside paintings of Calvary // at velvet wounds // and delicate twisted feet.

Fyrsta ljóðabókin, Let us Compare Mythologies, kom út þegar Leonard Norman Cohen var 22 ára gamall og nýútskrifaður úr námi í enskum bókmenntum við McGill-háskóla í Montreal í Kanada. Bókin var tileinkuð föður hans, sem lést þegar Leonard var 9 ára. Cohen var alinn upp í gyðingafjölskyldu í enskumælandi hluta þessarar kaþólsku borgar. Gyðinglegar og kristnar sögur sem og grískar goðsagnir voru áberandi í þessari fyrstu bók skáldsins.

Lög um ástir og konur

Suzanne takes you down to her place near the river //
You can hear the boats go by, you can spend the night beside her.

Þetta voru fyrstu orðin á fyrstu plötunni, Songs of Leonard Cohen, sem kom út í lok árs 1967.
Eftir útgáfu nokkurra ljóðabóka og skáldsögu sem voru skrifaðar á meðan hann bjó á grísku eyjunni Hydru með þáverandi ástkonu sinni, hinni norsku Marianne Stang Jensen Ihlen, tók hann sér nælonstrengjagítar í hönd og gerðist þjóðlagatónlistarmaður. Hann fluttist til New York og umgekkst helstu listamenn borgarinnar, til að mynda fólk úr verksmiðjugengi Andys Warhol. Strax á fyrstu plötunni heyrðust ódauðlegar lagasmíðar á borð við Suzanne, Sisters of Mercy og So Long, Marianne, sem fjallaði um ástkonuna og músuna norsku. Fjölmörg laga Cohens fjalla einmitt um ástina og var hann annálaður kvennamaður.

Í leit að guðdóminum

I’ve heard there was a secret chord // That David played and it pleased the Lord // But you don’t really care for music, do you?

Lagið Halelujah er eflaust eitt allra þekktasta lag Cohens en það kom út á plötunni Various Positions árið 1984. Sagan segir að Cohen hafi unnið í laginu í um fimm ár, skrifað meira en 80 erindi, áður en honum tókst að festa það niður og taka upp. Lagið vakti enga sérstaka athygli fyrr en 13 árum seinna, í millitíðinni hafði John Cale úr Velvet Underground gert ábreiðu af því með öðrum erindum af lager Cohens, ungur maður að nafni Jeff Buckley hafði svo heyrt útgáfu Cales og tekið sjálfur upp og gefið út á frumraun sinni Grace – en lagið sló endanlega í gegn eftir að Buckley drukknaði aðeins 29 ára gamall árið 1997. Eins og í svo mörgum textum Cohens eru trúarlegu þemu og leit eftir guðdóminum áberandi. Cohen stundaði alla tíð gyðingatrúna sem hann ólst upp við en samhliða því stundaði hann zen-búddisma og hvarf raunar um nokkurra ára skeið úr sviðsljósinu og gekk í búddískt munkaklaustur á tíunda áratugnum.

Myrk sýn á heiminn

They sentenced me to twenty years of boredom // For trying to change the system from within // I’m coming now, I’m coming to reward them // First we take Manhattan, then we take Berlin

Leonard Cohen heimsótti Ísland árið 1988 og spilaði á tónleikum í Laugardalshöll sem voru hluti af Listahátíð í Reykjavík. Lagið First we take Manhattan er eitt þekktasta lag plötunnar I’m Your Man sem hann hafði þá nýlega sent frá sér og var það á meðal þeirra 29 laga sem hann flutti í Höllinni. Lagið er myrkur eitís dansslagari innblásinn af þýska skæraliðahópnum Rote Arme Faction (Baader-Meinhof) en Cohen sagði að honum þætti afstaða og afdráttarleysi hryðjuverkamanna almennt vera heillandi, þótt hann styddi ekki aðgerðir þeirra.

Sáttur við dauðann

I wish there was a treaty we could sign // It’s over now, the water and the wine // We were broken then but now we’re borderline // And I wish there was a treaty // I wish there was a treaty between your love and mine.

Þetta eru síðustu orðin á síðustu plötu Leonards Cohen, You want it darker, sem kom út þann 21. október, rúmum tveimur vikum fyrir dauða skáldsins. Dauðinn svífur yfir vötnum í þessum magnaða svanasöng skáldsins.

Í viðtali við The New Yorker í október hafði Cohen lýst því yfir að hann teldi sig eiga stutt eftir: „Ég er tilbúinn til að deyja. Ég vona bara að það verði ekki of óþægilegt – það er svo sem ekki mikið meira sem ég hef áhyggjur af,“ sagði Cohen. Hann sagðist enn fremur helst vilja ná að hnýta sem flesta lausa enda á sköpunarverki sínu, sortera og klára ókláruð ljóð og lög – en ef það tækist ekki gerði það lítið til. Sonur Cohens sagði föður sinn hafa unnið að þessu allt fram á dauðadag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Léttist um 74 kíló með því að hætta einu sem flestar mæður gera

Léttist um 74 kíló með því að hætta einu sem flestar mæður gera
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu
433
Fyrir 12 klukkutímum

Evrópudeildin: Ensku liðin bæði úr leik – Roma henti Milan úr keppni

Evrópudeildin: Ensku liðin bæði úr leik – Roma henti Milan úr keppni
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Upptaka af lýsandanum fer eins og eldur í sinu – Hlustaðu á hvað hann gerði í beinni

Upptaka af lýsandanum fer eins og eldur í sinu – Hlustaðu á hvað hann gerði í beinni
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara