fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Hvítþveginn Óskar

Eingöngu hvítir leikarar tilnefndir tvö ár í röð – Óskarsakademían 94% hvít – Of fá aðalhlutverk fyrir minnihlutahópa

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 31. janúar 2016 22:20

Eingöngu hvítir leikarar tilnefndir tvö ár í röð - Óskarsakademían 94% hvít - Of fá aðalhlutverk fyrir minnihlutahópa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir þeir tuttugu leikarar sem eru tilnefndir til Óskarsverðlauna fyrir besta leik í aðal- og aukahlutverkum eru hvítir – annað árið í röð. Í þokkabót eru allir tilnefndir leikstjórar hvítir karlmenn og allar kvikmyndirnar sem tilnefndar eru sem besta myndin skarta hvítum persónum í aðalhlutverkum.

Þessi einsleitni í tilnefningum hefur verið harðlega gagnrýnd. Til að mótmæla hafa nokkrar svartar stórstjörnur, til að mynda Jada Pinkett Smith og Spike Lee, ákveðið að sniðganga hátíðina.

Aðrir hafa tekið til varna, leikkonan Charlotte Rampling sagði að umræðan var rasísk í garð hvítra, og viðskiptatímaritið The Economist reiknaði út að svartir Bandaríkjamenn hafi fengið hlutfallslega réttan fjölda tilnefninga það sem af er 21. öldinni. Tölurnar sýndu þó einnig að fjölbreytni er stórlega ábótavant í kvikmyndabransanum.

Af hverju svona hvít?

Þessi þekktustu kvikmyndaverðlaun heims hafa verið veitt frá árinu 1929. Á 20. öldinni voru 95 prósent allra tilnefndra leikara á verðlaunahátíðinni hvít, undantekningarnar voru örfáar og sigurvegarar úr minnihlutahópum enn færri.

Þetta breyttist þó í byrjun nýrrar aldar og árið 2001 hlutu tveir svartir leikarar verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki, Halle Berry og Denzel Washington.

Margir héldu að jafnrétti væri náð á þessum vettvangi en efasemdaraddir hafa aftur heyrst undanfarin tvö ár þegar allir tilnefndir leikarar hafa verið hvítir.

Spurning hefur vaknað: af hverju eru Óskarsverðlaunin svona hvít?

Allir þeir tuttugu leikarar sem eru tilnefndir í ár sem bestir, hvort tveggja í aðal- og aukahlutverki, eru hvítir.
Bestu leikararnir Allir þeir tuttugu leikarar sem eru tilnefndir í ár sem bestir, hvort tveggja í aðal- og aukahlutverki, eru hvítir.

Sniðganga verðlaunin

Umræða um kynþáttahalla á Óskarsverðlaununum hefur skotið upp kollinum áður en aldrei verið jafn áberandi og í ár, meðal annars á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #OscarsSoWhite. Margir vilja meina að gengið hafi verið framhjá myndum á borð við Creed, Concussion, Beasts of no nation, og Straight Outta Compton. Aðalleikarar og leikstjórar þessara mynda eru svartir, en í þeim tilvikum þar sem þær hlutu tilnefningu voru það aðeins hvítir aukaleikarar eða handritshöfundar sem voru tilnefndir.

Leikstjórinn Spike Lee mætir ekki á Óskarsverðlaunahátíðina, þrátt fyrir að veita eigi honum heiðursverðlaun fyrir framlag hans til kvikmyndalistarinnar.
Mætir ekki Leikstjórinn Spike Lee mætir ekki á Óskarsverðlaunahátíðina, þrátt fyrir að veita eigi honum heiðursverðlaun fyrir framlag hans til kvikmyndalistarinnar.

Mynd: reuters

Eftir að tilnefningarnar voru gerðar opinberar hvatti leikkonan Jada Pinkett Smith til þess að svart fólk í kvikmyndabransanum sniðgengi hátíðina (eiginmaður hennar, Will Smith, var einn af þeim sem orðaðir voru við verðlaun fyrir Concussion) og leikstjórinn Spike Lee tók undir. Hann er einn þeirra sem hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar á hátíðinni í ár, en hann hefur sagt að hann ætli frekar að mæta á körfuboltaleik sama kvöld – fjarvera hans verður því áþreifanleg.

Rasísk umræða … í garð hvítra

Lítið annað hefur verið rætt í kvikmyndaheiminum að undanförnu og allir sem skipta máli spurðir um skoðun á málinu.

Breska gæðaleikkonan Charlotte Rampling sagði í viðtali að mögulegt væri að svörtu leikararnir hafi einfaldlega ekki verðskuldað tilnefningar og sagði að umræðan væri raunar rasísk í garð hvítra – hún baðst síðar afsökunar á ummælunum. Michael Caine tók í sama streng og sagði að ekki mætti verðlauna leikara bara fyrir að vera svartir, heldur þurfi þeir fyrst og fremst að leika vel. Franska leikkonan og leikstjórinn Julie Delpy sagði að eflaust væri auðveldara að vera svartur leikari í Hollywood en kona – hún baðst síðar afsökunar á ummælunum.

#SvartirSkiptaMáli

#SvartirSkiptaMáli

Það má segja að réttindabarátta svartra Bandaríkjamanna hafi gengið í endurnýjun lífdaga á undanförnum tveimur árum og meðvitund um stofnanabundið misrétti í garð minnihlutahópa aukist.

Eftir nokkur áberandi mál þar sem hvítir lögreglumenn myrtu unga svarta Bandaríkjamenn án þess að hljóta dóm fyrir fór reiðialda um þjóðfélagið. Upp úr mótmælunum og óeirðunum reis hreyfing sem sameinaðist undir slagorðinu Black Lives Matter, eða Svört líf skipta máli.

Markmið hreyfingarinnar hefur verið að berjast gegn stofnanabundnu ofbeldi og jaðarsetningu svartra Bandaríkjamanna, sem búa á fjölmargan hátt við krappari kjör en hvítir samlandar þeirra, jafnt efnahagslega, réttarfarslega sem menningarlega.

Aðrar stjörnur hafa hins vegar tekið undir gagnrýnisraddirnar, til að mynda Mark Ruffalo og George Clooney, en Clooney sagði kvikmyndabransann í heild sinni vera að færast í ranga átt. Hann sagði vandamálið ekki bara vera hver veldi tilnefningarnar heldur hversu góð hlutverk væru í boði fyrir minnihlutahópa.

Yfirgnæfandi hvít akademía

En hvar liggur vandamálið?

Ein helsta kenningin er að vandamálið felist í einsleitni Óskarsakademíunnar sjálfrar, en meðlimir hennar hafa kosningarétt um tilnefningar. Af þeim sex þúsund einstaklingum sem skipa akademíuna eru 94 prósent hvít, sem er mun hærra en hlutfall hvítra í Bandaríkjunum. Það er ljóst að smekkur fólks mótast af bakgrunni þess og lífsreynslu og spurningin er því hvort akademían tengi betur við sögur um hvítar persónur.

Á undanförnum árum hefur verið gerð tilraun til að breyta samsetningu akademíunnar svo hún endurspegli þjóðfélagið betur og til að bregðast við umræðum undanfarinna vikna var tilkynnt að sætum í akademíunni yrði nú fjölgað og skipulagi breytt til að hlutfall meðlima úr minnihlutahópum myndi tvöfaldast á næstu fjórum árum.

Fá færri hlutverk

Samkvæmt grein The Economist um málið er ástæðuna þó ekki að finna í vali akademíunnar á bestu leikurunum. Þar segir að tæplega 12,6 prósent Bandaríkjamanna séu af afrískum uppruna en svartir leikarar hafi hlotið 10 prósent tilnefninga frá aldamótum – og 15 prósent verðlaunanna. Hlutfallið sé því nokkuð nærri lagi.

Hið sama er þó ekki segja um rómanska Bandaríkjamenn, sem eru 16 prósent þjóðarinnar en hafa aðeins hlotið þrjú prósent af tilnefningunum frá aldamótum, eða asíska Bandaríkjamenn, sem eru sex prósent þjóðarinnar en hafa aðeins hlotið eitt prósent tilnefninga frá aldamótum.

 Þegar Brando sniðgekk Óskarinn

Þegar Brando sniðgekk Óskarinn

Þegar tilkynnt var að Marlon Brando hlyti Óskarsverðlaunin árið 1973 fyrir túlkun sína á Guðföðurnum, steig hann ekki sjálfur á svið heldur sendi Sacheen Littlefeather sem afþakkaði verðlaunin fyrir hans hönd. Með því vildi Brando mótmæla mismunun og misnotkun kvikmyndaiðnaðarins á frumbyggjaþjóðum Bandaríkjanna.

Samkvæmt greiningu The Economist er ástæðan þá fyrst og fremst skortur á bitastæðum hlutverkum fyrir fólk úr minnihlutahópum.

Fjöldi ólíkra hlutverka í bandarískum bíómyndum endurspeglar bandarískt þjóðfélag nokkuð vel, en þegar kemur að aðalhlutverkum skekkist myndin umtalsvert. Svartir fá níu prósent aðalhlutverka, rómanskir aðeins þrjú prósent, asískættaðir tvö prósent, en hvítir 85 prósent.

Þegar tölurnar eru skoðaðar virðist vera sem Óskarsakademían velji einfaldlega það sem er fyrir framan hana – og það eru fyrst og fremst hvítir leikarar.

Verða að kjósa með bíómiðanum

Vandamálið virðist því liggja mun dýpra en í samsetningu akademíunnar. Þeir sem halda um stjórntaumana, framleiðslufyrirtæki, kvikmyndaver, sjónvarpsstöðvar og leikstjórar, ákveða af einhverjum ástæðum að setja hvíta leikara í aðalhlutverk frekar en fólk úr minnihlutahópum.

Æðstu stjórnendur, jafnt í bandarískum stórfyrirtækjum sem og menningarstofnunum eru langflestir hvítir og getur það verið hluti ástæðunnar. Önnur ástæða getur verið að þeir séu einfaldlega að hlusta á áhorfendur sem velji að sjá kvikmyndir með hvítum aðalpersónum – eflaust vegna þess að því eru þeir vanir: hvíta hetjan er „normið“.

Greinarhöfundur The Economist kemst að þeirri niðurstöðu að ef áhorfendur vilji að kvikmyndirnar (og þar með Óskarsverðlaunin) endurspegli samfélagið verði þeir að vera duglegri að kjósa með bíómiðanum, og bendir á að Bandaríkjamenn ættaðir frá rómönsku Ameríku kaupi 25 prósent allra bíómiða í Bandaríkjunum.

Af hverju er einsleitni í kvikmyndagerð vandamál?

Af hverju er einsleitni í kvikmyndagerð vandamál?

Í fyrra spratt upp kröftug umræða á Íslandi um mikilvægi þess að konur tjáðu sig og segðu eigin sögur í gegnum kvikmyndamiðilinn. Dögg Mósesdóttir, kvikmyndaleikstjóri og formaður félags kvenna í kvimyndum og sjónvarpi (WIFT), var ein af þeim sem lagði áherslu á mikilvægi fjölbreytileikans. DV fékk hana til að útskýra hverju hún teldi einsleitni í kvikmyndagerð vera vandamál.

„Einsleitni í kvikmyndum er mjög alvarlegt vandamál þar sem kvikmyndir eru gífulega öflugur miðill sem sekkur sér í undirmeðvitund okkar og mótar viðhorf okkar til samfélagsins. Sú staðreynd að hvítir miðaldra karlmenn séu þeir „einu“ sem hafi eitthvað að segja í kvikmyndum gefur mjög skekkta og skaðlega mynd af samfélaginu. Þetta virkar sem eins konar þöggun á aðra þjóðfélagshópa og elur á fordómum,“ segir Dögg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“