fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Íslenskir rapparar virkja málið á skapandi og kraftmikinn hátt

Heiða Jóhannsdóttir gerir upp menningarárið 2015: Blæði, rappbylgja og konur í kvikmyndagerð

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 2. janúar 2016 14:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í menningarannál ársins sem birtist í áramótablaði DV 29. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til fimmtán álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2015 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


Heiða Jóhannsdóttir, kennari í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk ársins 2015?

.
Heiða Jóhannsdóttir .

Sýning Íslenska dansflokksins á Blæði á Listahátíð í Reykjavík var alveg stórkostleg, og mjög eftirminnileg. Sýningin er spunnin í kringum þrjú dansverk eftir heimsþekkta danshöfunda með Ernu Ómarsdóttur í farabroddi. Í dansverkunum er sögð nokkurs konar umbrotasaga mannskepnunnar frá hinu frumstæða og líkamlega til hins fínstillta og dulmagnaða. Í verkinu má segja að leitað sé aftur til eðliskrafta náttúru og menningar, átök þeirra og sampil eru sett á svið og vöngum velt yfir því hvort leiðin liggi í olíudrifna glötun eða hvort við munum umbreytast í krafti þeirra hæfileika til tjáskipta sem manneskjunni er í blóð borin og holdgerist í dansinsum. Þó svo að verkið leiti aftur í goðsögur eru átökin í því knúin áfram af spurningum um samband okkur við náttúruna, sköpunarkraftinn og þann innri og ytri orkubúskap sem knýr okkur áfram og krefst vandlegrar endurskoðunar í samtímanum.

Heiða Jóhannsdóttir nefnir Blæði með Íslenska dansflokknum sem eitt eftirmininlegasta
Blæði Heiða Jóhannsdóttir nefnir Blæði með Íslenska dansflokknum sem eitt eftirmininlegasta

Þá fannst mér Vulnicura, hljómplata Bjarkar sem kom út á árinu, kallast á við Blæði. Það blæðandi berskjaldaða og sársaukafulla tilfinningaferli sem tónlistin sprettur úr minnti mig á sögupersónuna Selmu úr Myrkradansaranum, en tónlistin við þá kvikmynd er eitt af því magnaðasta sem Björk hefur gert. Myndræni heimurinn í kringum Vulnicura, sem lýsir nokkurs konar stálkonu sem fer í gegnum lífræna upplausn og endurnýjun, er líka listaverk út af fyrir sig.

Tónlistarlega séð var árið líka almennt sneisafullt af hæfileikum og frábærum viðburðum, en það sem sker sig úr er skapandi rímnaflæði sem hrifið hefur yngri kynslóðir jafnt sem aðrar með sér. Það er áhugavert að fylgjast með hvernig rappgrúppur á borð við Reykjavíkurdætur, Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti virkja íslenskt mál á skapandi og kraftmikinn hátt í þeirri óheftu og valdeflandi sjálfstjáningu sem rappið gengur út á.

Ég hef ekki komist í jólabókaútgáfuna en ég las fjórar bækur sem komu út fyrr á árinu, allar frábærar. Tvær þeirra rista djúpt í innri heima tilfinninga, þ.e. Blátt blóð eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur og ljóðabók nýliðans Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við sem erum blind og nafnlaus. Tvær nýjar þýðingar las ég líka, stórkostlegar bókmenntir sem takast á við spurningar um mennskuna, samfélag og vald, annars vegar Höllina eftir Franz Kafka í þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar, og hins vegar þýðingu á fyrstu bókinni í Napólíbókaröð Elenu Ferrante sem nefnist Framúrskarandi vinkona.

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu? 
(gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)

.
Fúsi eftir Dag Kára .

Umræðan um jöfn tækifæri kynjanna í íslenskri kvikmyndagerð gaus upp með miklum hvelli, m.a. á fésbókarsíðu Dags Kára Péturssonar. Það er hressandi að sjá að umræðan er að komast á nýtt stig, enda held ég að aukið jafnrétti og víðsýni víða um lönd sé loksins að hagga þeirri ráðandi stöðu sem hvítir karlar hafa haft í listheiminum. Íslensk kvikmyndagerð er að fara í gegnum mikið þroskastökk þrátt fyrir óvissu og þrengingar í fjármögnunarmálum. Íslenskar leiknar myndir hafa hlotið mikinn meðbyr á alþjóðlegum vettvangi, Hrútar í leikstjórn Gríms Hákonarsonar hlaut hin virtu Un Certain Regard-verðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Cannes og Fúsi Dags Kára færði íslenskri kvikmyndagerð Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs annað árið í röð, og hér eru einungis tvö dæmi um merkar viðurkenningar og víðtæka dreifingu nefnd. Það þarf að leita lengra til sjá afrakstur þess sem konur hafa verið að gera, en það komu margar góðar heimildarmyndir út á árinu sem beina sjónum að réttinda-, sjálfsmyndar- og kúgunarsögu kvenna og tóku tvær slíkar, Hvað er svona merkilegt við það? og Ég vil vera skrítin, þátt í Nordisk Panorama í ár. Þá vakti Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, gagnrýnin og söguleg endurskoðun Ölmu Ómarsdóttur á „ástandinu“ svokallaða mikla athygli meðal almennings hér heima.

Svo er líka áhugavert að fylgjast með þeirri þróun sem hefur orðið undanfarin ár í íslenskri tónlistarmyndbandasköpun, í rappsenunni og víðar. Þá náði dagskrárgerð fyrir sjónvarp og íslenskt grín nýjum hæðum í Hraðfréttum, sem er spunakennt, gagnrýnið og hárnákvæmt. RÚV á einnig sérstakt hrós skili fyrir Krakkarúv og Krakkafréttir.

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2015?

Það eru umbreytingar í loftinu í íslensku samfélagi og listsköpunin þar í fararbroddi.

Það eru umbreytingar í loftinu í íslensku samfélagi og listsköpunin þar í fararbroddi. Árið var ótrúlega viðburðaríkt, það má segja að það hafi gengið á með eldgosum og sinubrunum í samfélagsumræðunni. Hvert samfélagsmiðladrifna uppþotið fylgdi á fætur öðru þar sem fólk tók afstöðu til ýmissa mála sem hafa mátt þola þöggun eða mótast af þröngsýni. Framþróun í upplýsingatækni og samfélagsmiðlum hefur verið kjörvettvangur fyrir sjálfhverfu en hún hefur líka galopnað samfélagsumræðuna og nú er ákveðinn samhljómur að myndast í mörgum mikilvægum málefnum. Þar er tekist á víðtækan hátt á við spurningar um endurskilgreiningu mennskunnar nú þegar æ fleirum er orðið ómögulegt að horfa fram hjá ómennsku gagnvart skorthópum og lífinu á jörðinni almennt. Ég held að hugarfar og viðhorf séu að fara í gegnum talsverða endurnýjun, og þar kemur sér vel að samfélagsmiðlar hafa margfaldað það sjónarhorn á menningu og mannlíf sem haldið er að okkur í fjölmiðlum, og allt vinnur þetta gegn einstefnu í boðskiptum. Fólk af ólíkum kynjum og bakgrunni, og á ólíkum aldursskeiðum, fær meiri hljómgrunn en áður.

í Borgarleikhúsinu.
Opnum okkur í Borgarleikhúsinu.

Tvö gjörnings- og sviðsverk sem komu fyrir almenningssjónir síðla árs voru skemmtileg birtingarmynd þess hvernig listræn sköpun staðsetur sig í gagnvirku umræðurými samtímans. Annars vegar var það Kassagjörningur Almars Atlasonar í Listaháskóla Íslands þar sem hinn upprennandi hvíti karllistamaðurinn lagðist undir feld í glerkassa og bjó til opið samskiptarými sem kannaði viðbrögð fólks við grunnþáttum mennskunnar og algjöru umkomuleysi. Hins vegar tók Borgarleikhúsið á áhugaverðan þátt af skarið í að hleypa röddum flóttafólks inn í listumræðuna, með samverustundinni Opnum okkur þar sem fólk sem skilgreint hefur verið af kerfinu sem hælisleitendur, fékk svigrúm til að tjá viðhorf sín og erfiða reynslu.


Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:

Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur.
Ingólfur Gíslason, ljóðskáld og stofnandi vefgallerísins 2015 er gildra.
Heiða Jóhannsdóttir, kennari í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Aude Busson, sviðslistakona.
Pétur Grétarsson, tónlistarmaður og umsjónarmaður Hátalarans á Rás 1.
Valur Antonsson, heimspekingur.
Katla Maríudóttir, arkitekt.
Njörður Sigurjónsson, dósent í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Hönnunarsafns Íslands.
Angela Rawlings, ljóðskáld.
Halldór Guðmundsson, rithöfundur og forstjóri Hörpu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna