Blómlegt umhverfi

Hot Eskimos heldur tónleika í Hörpu og sendir frá sér nýjan disk

„Við förum í eins margar áttir og við getum á þessum tónleikum.“
Jón Rafnsson og Karl Olgeirsson „Við förum í eins margar áttir og við getum á þessum tónleikum.“
Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Félagarnir í djasstríóinu Hot Eskimos hafa verið að hljóðrita nýjan disk sem kemur út á haustdögum. Í næsta mánuði halda þeir tónleika í Hörpunni ásamt sænska básúnuleikaranum og söngvaranum Nils Landgren. Djasstríóið Hot Eskimos var stofnað árið 2010. Karl Olgeirsson spilar á píanó, Jón Rafnsson á kontrabassa og Kristinn Snær Agnarsson á trommur. Þegar viðtalið var tekið var Kristinn Snær upptekinn við skyldustörf í þágu tónlistarinnar.

Blaðamaður hóf viðtalið við Jón og Karl á því að forvitnast um nýja diskinn, sem senn fer á markað. „Nýi diskurinn, We Ride Polar Bears, verður annar í röðinni, en sá fyrsti, Songs from the Top of the World, kom út árið 2011 og hefur gengið mjög vel,“ segir Karl. „Það er ekki ósvipuð hugsun á bak við nýja diskinn og þann fyrsta,“ segir Jón. „Tilurð fyrsta disksins kom þannig til að okkur langaði til að gera djassútgáfu af íslenskum lögum, við tókum sem dæmi lög eftir Björk, Sigur Rós og Gylfa Ægisson og settum í djassbúning. Við erum að gera mjög svipað núna, þarna eru lög eftir erlenda lagahöfunda, eins og Paul McCartney, og tvö frumsamin lög eftir Kalla, ásamt fleiri lögum.“

„Hann minnir töluvert á Chet Baker, hefur þessa einlægu og viðkvæmu rödd og svo syngur hann eins og hann spilar á hljóðfærið sitt.“
Nils Landgren „Hann minnir töluvert á Chet Baker, hefur þessa einlægu og viðkvæmu rödd og svo syngur hann eins og hann spilar á hljóðfærið sitt.“

Einlæg og viðkvæm rödd

Hot Eskimos heldur tónleika í Hörpu 11. september og Nils Landgren , sem er virtur sænskur hljóðfæraleikari, básúnuleikari og söngvari, stígur þar á svið með þeim. „Nils, er einn þekktasti djasstónlistarmaður Svía í dag. Hann lék með Abba-sveitinni þegar sú hljómsveit var sem mest áberandi og hélt áfram að starfa með meðlimum hópsins eftir að þau slitu samstarfinu. Hljómsveit hans, Nils Landgren Funk Unit, er geysivinsæl í Evrópu og reyndar víðar. Hljómsveitin hefur sent frá sér mikið af flottum plötum þar á meðal eina sem heitir Funky Abba sem inniheldur eingöngu Abba-lög í skemmtilegum fönkútsetningum,“ segir Jón sem hefur lengi þekkt Nils.
„Ég sá Nils koma fram á djasshátíð í Lundi og varð algjörlega heillaður af röddinni,“ bætir Karl við. „Hann minnir töluvert á Chet Baker, hefur þessa einlægu og viðkvæmu rödd og svo syngur hann eins og hann spilar á hljóðfærið sitt.“

Spurðir um efnisskrá tónleikanna í Hörpu segja þeir: „Nils hefur gert töluvert af því að taka þekkt popp- og rokklög og setja þau í djassklæði. Það höfum við sömuleiðis gert. Þessi tónlist mun heyrast á tónleikunum. Hann hefur líka gert töluvert af því að spila sænska þjóðlagatónlist og kannski tökum við þjóðlög frá báðum löndum. Við förum í eins margar áttir og við getum á þessum tónleikum.“

Blómlegt djassumhverfi

Þeir félagar eru spurðir að því hvenær áhugi þeirra á djassi hefði fyrst vaknað. „Ég hóf ferilinn á því að spila poppmúsík á böllum,“ segir Jón. „Árið 1976 fór ég að læra klassíska tónlist og lærði á fiðlu, en skipti fljótlega yfir á kontrabassa og 1978 sá ég Nils Henning í Háskólabíói, sem mér fannst spennandi. Árið 1980 kom hingað vesturíslenskur djassbassaleikari, Bob Magnusson. Ég hitti hann aðeins í þessari Íslandsheimsókn og ætlunin var að fara í nám til hans í Ameríku en það æxlaðist nú þannig að ég fór í framhaldsnám til Stokkhólms í klassískum kontrabassaleik auk tónlistarkennaranáms. Ég flutti heim 1990 og hef síðan unnið að tónlist og kennt,“ segir Jón.

„Ég lærði á gítar þegar ég var pínulítill og á orgel í Orgelskóla Yamaha,“ segir Karl. „Þegar ég var tólf ára kom píanó á heimilið og ég fór að fikta mig áfram, hlustaði á Billy Joel og aðra sem maður hlustar á þegar maður er píanóleikari. Svo var það rökrétt framhald að fara út í djassinn þar sem maður gat farið lengra sem hljóðfæraleikari. Þá hlustaði ég á Oscar Peterson, Bill Evans og þessa karla. Það var reyndar algjör tilviljun hvaða plötur maður eignaðist á þessum árum, maður labbaði inn í plötubúð, fór í djassrekkann og sá plötuumslag sem leit flott út og keypti plötuna.“

Að lokum eru þeir spurðir um djassumhverfið á Ísland. Þeir segja það vera mjög blómlegt. „Þetta er lítill markaður en gæðin eru mikil og það er töluvert framboð af tónleikum. Staðan er ótrúlega góð miðað við hvað við erum fámenn þjóð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.