Minningin í ljósmyndinni

Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur ræðir raunverulegar og skáldaðar minningar í bókinni Ef ég hefði verið ... eftir Ninu Zurier

Mynd: Lilý Guðrún Tryggvadóttir

Fyrsta minning Ninu er af kjól. Hún horfir full aðdáunar á mömmu sína, þessa fallegu konu sem situr alvarleg og prúðbúin í stofunni í Blönduhlíðinni – þetta hlýtur að vera gamlárskvöld árið 1952. Jólatréð er ennþá uppi og varpar skugga á vegginn. En það sem hún man skýrast er efnið í sparikjól mömmu sinnar. Efni sem brakar í þegar maður snertir það. Efni sem má ekki hjúfra sig upp að – maður má ekki káma fína kjólinn út – svo yfirnáttúrulega fallegt en ósnertanlegt.

Þannig gæti fyrsta minning Ninu Zurier litið út ef hún hefði verið fædd í Reykjavík í stað Detroit í Bandaríkjunum í byrjun sjötta áratugarins. Myndin af prúðbúnu konunni í Blönduhlíðinni er fyrsta myndin í ljósmyndabókinni Ef ég hefði verið ... en í henni ímyndar Nina sér hvernig barnæska hennar hefði verið ef hún hefði alist upp á Íslandi. „Þetta er einstök tilraun með ímyndunaraflið og raunveruleikann,“ segir Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur í inngangi bókarinnar sem kom út á vegum Crymogeu á dögunum.

Ef ég hefði verið ... Íslendingur

Hún fór að leika sér svolítið með þá hugmynd hvernig líf hennar hefði orðið ef hún hefði fæðst á Íslandi, hvort það hefði yfirhöfuð verið frábrugðið því lífi sem hún lifði í Bandaríkjunum og að hvaða leyti.

Nina Zurier er bandarískur ljósmyndari. Hún er fædd í Detroit á sjötta áratugnum en býr og starfar í Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum, myndlistarmanninum John Zurier. „Þau komu fyrst til landsins árið 2002, hafa komið reglulega síðan þá og unnið töluvert af list sinni á Íslandi. Nina hefur sagt mér frá því að fyrst þegar hún kom til Íslands hafi henni fundist svolítið eins og hún væri komin heim,“ segir Sigrún Alba.

„Það var einhver tilfinning sem fylgdi því að vera í Reykjavík – ég veit ekki hvort það minnti á Detroit æskunnar eða hvað það var. Fyrir nokkrum árum var hún svo á Ljósmyndasafni Reykjavíkur að skoða myndaalbúm og filmukontakta og fann þá myndir frá sjötta og sjöunda áratugnum sem höfðuðu sterkt til hennar. Hún fór að leika sér svolítið með þá hugmynd hvernig líf hennar hefði orðið ef hún hefði fæðst á Íslandi, hvort það hefði yfirhöfuð verið frábrugðið því lífi sem hún lifði í Bandaríkjunum og að hvaða leyti. Upp frá því fór hún að fara skipulega í gegnum safnið og fór að búa til sögur um mögulegt líf sitt ef hún hefði fæðst á Íslandi á sjötta áratugnum,“ segir Sigrún.

Mynd: Lilý Guðrún Tryggvadóttir

Skáldaðar minningar

„Ímyndunaraflið er líkt og draumarnir, þetta skapandi afl sem gerir okkur mögulegt að takast á við raunveruleikann“

Á þennan hátt fæst Nina við eðli minninga og samband þeirra við ímyndunaraflið. Er hægt að skálda minningar? spyr hún en þá kviknar um leið önnur spurning: eru minningar kannski alltaf að einhverju leyti skáldaðar?
„Franski heimspekingurinn Paul Ricoeur hefur skrifað um það hvernig við notum ímyndunaraflið til að gefa minningunum innihaldsríka merkingu,“ segir Sigrún. „Ímyndunaraflið er líkt og draumarnir, þetta skapandi afl sem gerir okkur mögulegt að takast á við raunveruleikann.”

„Maður man ekki allt sem maður hefur upplifað en það sem maður man er oft eitthvað sem hefur vakið sterkar tilfinningar eða höfðar til manns vitsmunalega – af því að maður sér að það passar eða passar ekki við manns eigin sjálfsmynd. Þannig byrjar maður að búa til frásögn um eigið líf og setja minningarnar inn í þessa frásögn,“ segir hún.

Upplifun sem er endurtekin í huganum eða minning um tiltekna staðreynd er í raun óskiljanleg ef maður gefur henni ekki merkingu, tengir minninguna ekki við þá frásögn sem maður hefur búið til um sjálfan sig. Nina gengur hins vegar skrefinu lengra og býr til frásögn um sig sjálfa sem á enga stoð í raunverulegum upplifunum hennar og skapar minningar fyrir þetta ímyndaða sjálf með því að rýna í ljósmyndir.

„Hún safnar ljósmyndum sem byggja á raunverulegum atburðum, raunverulegu lífi og raunverulegum minningum annarra og skoðar sig sjálfa í þeim – gerir sjálfa sig að „hinum“. Þannig býr hún til sögu um tilbúið líf sem á sér samt einhverja stoð í raunveruleikanum. Hver mynd felur í sér sögu sem gæti verið frásögn frá hennar lífi en er í raun frásögn úr lífi annarra,“ segir Sigrún.

veltir fyrir sér samspili minninga og ímyndunarafls í ljósmyndabókinni Ef ég hefði verið ... eftir Ninu Zurier.
Sigrún Alba Sigurðardóttir veltir fyrir sér samspili minninga og ímyndunarafls í ljósmyndabókinni Ef ég hefði verið ... eftir Ninu Zurier.
Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Að lesa ljósmyndir eins og ljóð

Þegar ljósmyndin er skoðuð rennur hugurinn því til ólíkra staða og tíma: bæði augnabliksins sem ljósmyndin var tekin og til hliðstæðs lífs Ninu í Bandaríkjunum – hvernig voru sumarfríin í Detroit? spyr maður þegar maður skoðar mynd af íslenskri tjaldútilegu: „Hver mynd felur í sér mjög margar sögur og ég held að sem lesandi eða áhorfandi eigi maður að leyfa sér það – að lesa eða skoða myndirnar svolítið eins og ljóð. Bara leyfa sér að búa til sögur um hverja mynd, hún býður lesandanum á vissan hátt að gera það,“ segir Sigrún.

En myndirnar bjóða lesandanum einnig að tengja við og rifja upp eigin minningar. „Mér finnst mjög áhugavert hvernig mynd sem er tekin í Vogaskóla á sjötta áratugnum kveikir minningar hjá mér úr Álftamýrarskóla á áttunda og níunda áratugnum. Það má kalla það „punktum“ sem er hugtak frá Roland Barthes. Ég horfi á þessa skó og þá hellist yfir mig tilfinning sem ég tengi við að spila fótbolta í grasi á skólalóðinni á vorin, og það gýs upp þessi vonda lykt sem kemur þegar klakinn er að bráðna ofan í grasið. Þegar ég horfi á myndina þá finn ég þessa lykt – samt er þetta ekki mynd úr mínu lífi. Þetta er ekki einu sinni frá þeim tíma sem ég er í grunnskóla en það getur verið svona smáatriði í mynd – punktum – sem að talar einhvern veginn beint til manns.“

Mynd: Pétur Thomsen

Mynd: Pétur Thomsen

Smáatriðin dregin fram

Lítil og að því er virðast ómerkileg smáatriði kveikja oft sterkari tilfinningar en heildarmyndin og brenna sig þannig inn í minni okkar: áferðin á kjól mömmu, hvernig skýin glömpuðu á Tjörninni einn sumardag, svipbrigði vinanna eða líkamsstellingar. Með því að birta stækkaða mynd af einu smáatriði við hlið hverrar upprunalegrar ljósmyndar í bókinni beinir Nina athygli lesandans í átt að ákveðnu atriði og tiltekinni tilfinningu.

þá skynjar maður betur hvað það er að vera kona á hlaupum í íslensku veðri, á háhæluðum skóm á gangstétt sem er öll brotnuð upp.

„Eitt dæmi er mynd úr Aðalstræti frá sjöunda áratugnum. Þegar maður sér myndina í heild fer maður að skoða húsin og skiltin og setja í sögulegt samhengi, en vegna þess að Nina stækkar upp smáatriði og dregur fram konu með veski sem er eitthvað að flýta sér á milli staða þá skynjar maður betur hvað það er að vera kona á hlaupum í íslensku veðri, á háhæluðum skóm á gangstétt sem er öll brotnuð upp. Þá er það tilfinningin sem skilar sér. En hvort tveggja staðreyndirnar og tilfinningarnar segja einhvern sannleika um sjöunda áratuginn í Reykjavík.“

Ljósmyndirnar eru þannig ekki aðeins skemmtileg heimild um það hvernig hið ímyndaða uppvaxtarland leit út, um fatastíl, hönnun, arkitektúr á ákveðnu tímabili, heldur einnig líkamlegri hluti: „Þær eru heimild um brosið, augnaráðið, snertinguna, um allt þetta óáþreifanlega, tilfinningarnar og hugarástandið.“

Þar sem Nina sér ljósmyndirnar með augum aðkomumannsins opnar hún oftar en ekki augu íslenskra lesenda fyrir áhugaverðum hlutum sem þeir hefðu annars litið framhjá. „Hún dregur fram þau smáatriði sem hafa talað sterkt til hennar. Við erum kannski orðin svolítið vön að sjá svipaðar myndir – til dæmis þrjár konur sitjandi á grasi í Hljómskálagarðinum. En hún sér þetta á svolítið framandi hátt og stoppar við einhver atriði sem gætu auðveldlega farið framhjá þeim sem eru vanir að sjá svona myndir.“

Mynd: Sveinn Þormóðsson

Mynd: Sveinn Þormóðsson

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.