Sagði 1000 dollara bankarán vera listgjörning

og aðrar fréttir úr listheiminum

Mynd: Mynd Photos

• Kvikmyndagerðarmaðurinn Joe Gibbons hefur verið dæmdur í árs fangelsi fyrir 1.000 dollara bankarán í New York-borg, en ránið sagði hann hafa verið gjörningalistaverk. Gibbons tók gjörninginn upp á myndband. Gibbons hefur meðal annars sýnt fyrri verk sín á Whitney-tvíæringum og í Pompidou Center.

• Slóvenska rokksveitin Laibach verður fyrsta erlenda sveitin til að leika á tónleikum í Norður-Kóreu frá stofnun alþýðulýðveldisins, þegar hún kemur fram á tvennum tvö þúsund manna tónleikum í Pyongyang í ágúst. Það er norski leikstjórinn Morten Traavik sem skipuleggur tónleikana.

• Hin fornfræga bókabúð Atheneum við Nørregade í Kaupmannahöfn er að leggja upp laupana, eftir 141 árs rekstur. Ástæðan er sögð vera samkeppni frá vefbókabúðum sem hafa hríðlækkað verð á bókum eftir að bókaverð var gefið frjálst í landinu fyrir fjórum árum. Nú lítur út fyrir að næturklúbbur muni opna í stað bókabúðarinnar.

• „Þjóðarsafn afrískrar listar samþykkir ekki hegðun Bills Cosby.“ Þetta mun koma fram í tilkynningu sem sett hefur verið upp við Smithsonian-safnið í Washington. Grínistinn, sem nýlega komst upp að hefði byrlað konu nauðgunarlyf, á rúman þriðjung verkanna sem eru hluti af sýningunni „Samtöl – afrísk og afrísk-amerísk listaverk í samræðu“ sem stendur nú yfir í safninu.
• Bein myndbandsútsending verður frá tónlistarhátíðinni KEXPort sem fer fram í fjórða skipti í portinu á bak við KEX hostel á laugardag. Tólf listamenn koma fram á tólf tímum, meðal annars Gísli Pálmi, Sóley, Agent Fresco og Valdimar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.