Íslenskar konur í myndbandi Siu

Kitty von Sometime vann myndband við lagið Dim the lights með Creep og Siu

Mynd: Birta Rán Björgvinsdóttir

Í dag var frumsýnt nýtt myndbandsverk listakonunnar Kitty von Sometime við lagið Dim the lights með dúettinum Creep. Það er ástralska stórstjarnan Sia sem syngur lagið. Tökurnar fóru fram í risastórri vöruskemmu í Vesturbæ Kópavogs í apríl. Kvikmyndatökumaðurinn Hákon Sverrisson stýrði tökunum en að verkefninu komu 58 manns, allir í sjálfboðavinnu.

Myndbandið er hluti af „The Weird Girls Project“ sem Kitty hefur unnið með síðan 2007. Verkin eru listræn myndbönd, en hingað til hefur Kitty framleitt yfir 25 myndbönd með yfir 100 konum. Að þessu sinni komu 20 konur við sögu, flestar íslenskar, en þrjár þeirra lögðu á sig ferðalag frá útlöndum til að vera með.

Kitty flutti níu kíló af glimmeri til landsins frá Kína fyrir verkefnið. Hver og ein kvennanna þurfti tvær klukkustundir í förðun, en 15 manns unnu að förðuninni. Búningurinn var, auk akrílmálningar og glimmers, efnislitlar álímdar nærbuxur. Að morgni tökudags vissu konurnar ekkert um „búningana“ en allar létu slag standa og tóku þátt þrátt fyrir að þurfa að vera nokkurn veginn allsberar heilan dag.

Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.