Kveðjubréf til kalda stríðsins

Gagnrýni um nýja skáldsögu Eiríks Bergmanns

Hryðjuverkamaður snýr heim

Höfundur: Eiríkur Bergmann
Útgefandi: Sögur

Umheiminum í íslenskum bókmenntum hefur, eins og flestu öðru, best verið lýst af Laxness: „Þarna úti eru löndin.“ Útlönd eru eitthvað sem fólk annaðhvort fer til eða kemur frá, en tengjast Íslandi annars lítið. Það er kannski helst á árunum eftir hrun að þau eru farin að birtast í skáldskapnum og er Þýskaland þá sérstaklega áberandi, enda ódýrara að dveljast þar við skriftir þessa dagana en í Kóngsins Köben. Hallgrímur Helgason og Eiríkur Norðdahl hafa tengt okkur við Þýskaland nasismans og Eiríkur Bergmann tengur okkur hér við þýska síð-haustið og aðgerðir samtakanna Baader-Meinhof.

Í raun eru hér þrjár sögur sagðar á víxl. Sú fyrsta, í réttri tímaröð, gerist í gettóum Fellahverfisins í kringum 1980 og segir frá strákaklíkum sem stela og slást í neðanjarðarsamfélagi unglinga. Þessi hluti er raunsæjastur og líklega best heppnaður, nánast eins og Riddarar hringstigans í bland við fjórðu seríu Wire.

Landsþekktur hryðjuverkamaður

Næsti hluti gerist í kringum fundinn í Höfða 1986, en eins og hjá Andreas Baader sjálfum hafa smákrimmar nú gerst róttækir hugsjónamenn. Ákveðið er halda í aðgerð sem leiðir til þess að öryggisvörður missir augað og söguhetjan Valur verður landsþekktur hryðjuverkamaður. Hér þarf smá „suspension of disbelief“, og ef til vill hefði verið betra að láta aðgerðina gerast fyrir luktum dyrum sem eitthvað sem hefði getað gerst og við vitum ekki af, eða þá að breyta sögunni alveg og láta til dæmis hugsjónamennina koma í veg fyrir leiðtogafundinn svo að kalda stríðið stendur enn! Eigi að síður er sögusviðið áhugavert, ekki síst eftir að okkar maður flýr til Berlínar og nær þar að kynnast Baader-Meinhof-mönnum sem óðum eru að missa tilgang sinn.

Meatloaf í útrásarveislu

Þriðji hlutinn gerist í Reykjavík árið 2008 og er því bókin tvöföld (eða þreföld) söguleg skáldsaga, sú veröld sem var í góðærinu er horfin jafnt sem heimsmynd kalda stríðsins þar sem allt logaði í illdeilum og verkföllum, en spurning hvoru þessara Ísland árið 2015 líkist frekar. Það örlar nánast fyrir nostalgíu (2007stalgíu?), einn róttæklinganna er hér orðinn útrásarvíkingur og gott er að eiga menn að sem lána einkaþotur og BMW-jeppa og láta Meatloaf troða upp í veislum (hvers vegna gerði það enginn á sínum tíma?). Gömlu hugsjónirnar voru farnar að fölna á 9. áratugnum, sem leiðir á endanum til firru fyrsta áratugar þessarar aldar, en hvað koma skal í staðinn getur enginn enn sagt til um.

Undarlegar ákvarðanatökur

Sú tilraun að tengja saman þessa tvo heima er áhugaverð og metnaðarfull en ekki að öllu leyti heppnuð. Mestum vonbrigðum veldur 2008-þátturinn. Maður með jafn yfirgripsmikla þjóðfélagsþekkingu og Eiríkur Bergmann ætti að vera ágætlega til þess fallinn að pikka í innviði góðærisins. Í staðinn fáum við samkurl eiturlyfjasala og útrásarvíkings, og þessi tenging á háu og lágu var eiginlega betur útfærð í myndinni Vonarstræti. Það plott að stela skuldabréfi úr skúffu virðist einnig betur eiga heima í veröld 1980 heldur en 2008, var þetta í alvöru ekki til á tölvum? Sagan er og drifin áfram af undarlegri ákvarðanatöku sögupersóna sem koma sér gjarnan í meiri klípu en nauðsyn er á, en mest leysist á þann alíslenska hátt að spjalla við kunningja hér og þar.

Mátti herða á seinni hlutanum

Stíll Eiríks er ágætlega meitlaður framan af („...hann sat uppi með sínar eigin hugsanir, sem hann hafði enn minni lyst á en samlokunni“) en það hefði mátt herða á seinni helmingnum. Endirinn, þar sem hrunræða forsætisráðherra kemur við sögu, er nokkuð snotur, en við bíðum enn eftir hinni definítívu skáldsögu um hrunið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.