Pípulagnir líkamans og innviðir netsins

Sequences VII er tíu daga myndlistarhátíð í Reykjavík – Alfredo Cramerotti listrænn stjórnandi hátíðarinnar ræðir pípulagnir og heiðurslistakonuna Carolee Schneemann

Alfredo Cramerotti  er fyrsti erlendi sýningarstjórinn til að sjá um listræna stjórn myndlistartvíæringsins Sequences.
Listrænn stjórnandi Alfredo Cramerotti er fyrsti erlendi sýningarstjórinn til að sjá um listræna stjórn myndlistartvíæringsins Sequences.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Áhersla Sequences hefur alltaf verið á hugmyndina um tíma og slagorð hátíðarinnar er „raun-tíma-hátíð.“ Áhorfendur fá að njóta myndlistar sem notast við miðla sem einungis er hægt að upplifa á ákveðnum tíma: myndbönd, leikhús, gjörningar, dans,“ segir Alfredo Cramerotti, listrænn stjórnandi myndlistarhátíðarinnar Sequences, sem hefst um helgina. Hátíðin er haldin annað hvert ár og fer hún nú fram í sjöunda sinn. 26 listamenn, um helmingurinn íslenskir, sýna og er þema hátíðarinnar pípulagnir. Heiðursgestur er bandaríska myndlistarkonan og frumkvöðull í gjörningalistum, Carolee Schneemann.

Íslensk list framsækin og nútímaleg

Þema Sequences í ár eru pípur, rásir, æðar, lagnir, vírar og aðrir farvegir fyrir flutning efnis og upplýsinga frá A til B.
Pípulagnir Þema Sequences í ár eru pípur, rásir, æðar, lagnir, vírar og aðrir farvegir fyrir flutning efnis og upplýsinga frá A til B.
Mynd: Páll Ivan frá Eiðum

Alfredo Cramerotti er fyrsti erlendi aðilinn sem tekur að sér sýningarstjórn á Sequences. Hann er listfræðingur, rithöfundur og sýningarstjóri og gegnir stöðu forstöðumanns MOSTYN, stærstu samtímalistastofnunar Wales. Þá hefur hann verið sýningarstjóri evrópska samtímalistatvíæringsins Manifesta 8 á Spáni árið 2010 og stýrt þjóðarskálum Wales og Maldíveyja á Feneyjatvíæringnum árið 2013.

Mér fannst áhugavert að skoða þessa strúktúra, náttúrulega jafnt sem manngerða, sem gera okkur kleift að færa efni, hluti, þekkingu og líkama milli staða.

„Það var líklega í kringum þarsíðustu hátíð sem ég heyrði fyrst um Sequences. Seinna hitti ég Markús Þór Andrésson á Feyneyjatvíæringnum en þá var hann listrænn stjórnandi Sequences. Það var svo í fyrra sem ég og stjórn hátíðarinnar fórum að ræða möguleikann á samstarfi. Mér fannst þetta sérstaklega spennandi, ég hafði aldrei komið til Íslands og sá það fyrir mér sem land leyndardóma, hetja og goðsagna. Svo hefur landið magnað orðspor sem mjög framsækið og nútímalegt. Þó að íslenskir myndlistarmenn séu kannski ekki jafn kunnir hinum almenna listunnanda og í tónlistarheiminum hafa þeir mjög sterka stöðu borið saman við mun fjölmennari lönd með rótgrónar listamenntastofnanir, söfn, gallerí og svo framvegis. Það er í raun ótrúlegt að bera saman íbúafjölda og sýnileika, en íslenskir listamenn eru að sýna úti um allan heim,“ segir Alfredo.

Pípulagnirnar upp á yfirborðið

Vídeóinnsetningin Fleiri rangir hlutir (e. More wrong things) eftir heiðurslistamanninn Carolee Schneemenn verður sett upp í Kling og Bang.
Ranghalar Vídeóinnsetningin Fleiri rangir hlutir (e. More wrong things) eftir heiðurslistamanninn Carolee Schneemenn verður sett upp í Kling og Bang.

Eftir að ákveðið var að Alfredo tæki verkefnið að sér fór af stað samtal um listrænar áherslur hátíðarinnar í ár. „Þemað sem ég stakk upp á var kannski svolítið undarleg nálgun á pípulagnir. Mér fannst áhugavert að hugsa ekki bara um efni heldur frekar um kerfin og innviðina sem færa efni frá A til B – að leggja ekki áherslu á þá staðreynd að við keyrum bíla heldur að við notum vegakerfi til að komast frá A til B. Mér fannst áhugavert að skoða þessa strúktúra, náttúrulega jafnt sem manngerða, sem gera okkur kleift að færa efni, hluti, þekkingu og líkama milli staða. Lagnir eru kannski skýrasta dæmið um þetta: frá pípulögnum á heimilinu þar sem þú dælir heitu vatni inn í húsið og til víra sem færa rafmagn, orku og hita inn í bygginguna,“ segir Alfredo.

Þetta er það áhugaverða við innviði internetsins, þeir eru í raun þéttriðið kerfi sjóstrengja sem flytja símtöl og internetboð frá einni heimsálfu til annarrar

Hinar náttúrulegu pípulagnir líkamans og boðleiðir stafrænna samskipta – pípulagnir internetsins – verða einnig áberandi á hátíðinni. Báðar virka okkur ósýnilegar en eru þrátt fyrir það efnislegar. „Líkaminn er þéttriðið net lagna: í honum eru ólíkir farvegir fyrir loft, blóð og ýmsa aðra vökva. Í heilanum eru taugaboð svo send milli heilafrumna. Það má líka færa þetta upp á jörðina sjálfa og að því leyti til er áhugavert að vera á Íslandi. Hér erum við með jarðhita sem er verið að dæla upp úr jörðinni, efni innan úr jörðinni flæða upp á yfirborðið og eru færð í aðra mynd,“ segir Alfredo.

„Varðandi internetið, þá hugsum við um upplýsingatækni og netþjónustu sem loftkennd fyrirbæri, staðsett í „skýjum“ – en þau eru þvert á móti mjög jarðtengd og efnisleg. Þetta er það áhugaverða við innviði internetsins, þeir eru í raun þéttriðið kerfi sjóstrengja sem flytja símtöl og internetboð frá einni heimsálfu til annarrar, milli gríðarstórra bygginga sem hýsa netþjóna og gagnageymslur. En nokkrar slíkar byggingar eru meira að segja staðsettar hér á landi. Það eru ákveðnir kostir við að byggja slík mannvirki á Íslandi, mitt á milli Evrópu og Ameríku, og þar sem loftið er svo kalt að það þarf ekki kerfi til að kæla vélarnar sem hitna mjög mikið við áreynsluna,“ segir Alfredo.

Að hliðra sjónarhorninu

Þau sýna á Sequences VII

Dagrún Aðalsteinsdóttir, Una Margrét Árnadóttir, Ed Atkins, Jordan Baseman, Hanna Kristín Birgisdóttir, Margrét H. Blöndal, Helga Griffiths, Francesca Grill, Styrmir Örn Guðmundsson, Graham Gussin, Anne Haaning, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Selma Hreggviðsdóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, David Kefford, Raul Keller, Kris Lemsalu, Katarina Löfström, Ragnar Helgi Ólafsson, Beatrice Pedoconi, Finnbogi Pétursson, Sally O'Reilly, Ene Liis-Semper, Margrét Helga Sesseljudóttir og Helgi Þórsson.

„Hlutverk sýningarstjórans felst í að móta þessa hugmynd í gegnum verk listamannanna og gera breiðari áhorfendahóp kleift að nálgast hana,“ segir Alfredo. Verkin sem eru sýnd á hátíðinni er ýmist verk eftir listamenn sem Alfredo þekkti og fannst ríma við þemað eða verk sem voru sköpuð eftir samræður sýningarstjórans og listamannsins. „Þegar ég kom fyrst til landsins heimsótti ég 25 til 30 vinnustofur, settist niður með listamönnunum og spjallaði við þá til að reyna að skilja hvert áhugasvið þeirra væri og úr því varð að við báðum nokkra þeirra um ný listaverk. Samtalið fólst í því að athuga hvort þeir væru með hugmyndir um hvernig þessi pípulagnamyndlíking gæti talað til almennings. Svo þetta er sambland nýrra verka og verka sem voru til áður.“

Meðal fjölmargra listamanna sem kljást við þemað á hátíðinni eru Ragnar Helgi Ólafsson, en verk hans er nokkuð bókstaflega staðsett innan um pípulagnir á almenningssalerninu í Bankastræti núll; Raul Keller, sem vinnur með útvarpsbylgjur, óræðar og ósýnilegar tengingar út í alheiminn; og Dagrún Aðalsteinsdóttir sem vinnur með líkamann og mismunandi birtingarmyndir hans, afmyndar hann og framlengir.

En telur hann að listin geti tekist á við þessar pælingar á einhvern hátt sem aðrar athafnir og önnur svið samfélagsins geta ekki? „Já, ég held að ef ég myndi reyna að lýsa vinnu listamanns í þremur orðum væri það „að hliðra sjónarhorninu“. Að hliðra sjónarhorni okkar á hlutina í kringum okkur, á hluti sem við tökum sem gefnum um líf okkar, vinnu, fjölskyldu og svo framvegis. Staða listamannsins í samfélaginu er mikilvæg þar sem hún gefur manni færi á að spyrja spurninga og að færa sig frá hinum viðtekna sjónarhól. Stundum er þetta nýja sjónarhorn mjög praktískt en stundum er það mjög huglægt og tilgátukennt. Niðurstaðan getur verið eitthvað sem er hægt að hagnýta en alls ekki alltaf, hún getur líka kveikt meðvitund í áhorfandanum um að hægt sé að skoða heiminn á annan hátt. Þá breytir listin í raun engu í efnisheiminum en hefur áhrif á hugsun áhorfandans,“ segir Alfredo. „Án slíkra hugarfarsbreytinga, nýrra spurninga og nálgunar á heiminn hefðum við aldrei þróast frá því þegar við bjuggum í hellum og þar til núna. Vísindi og tækniþróun gegna svipuðu hlutverki, þar er stöðugt verið að ýta út mörkum hins mögulega og hins viðtekna. En tækniþróunin er línulegra ferli á meðan listin fer í hringi. Gildi hennar felst í því að efast og spyrja gagnrýnna spurninga um sjálfan sig í hvert skipti, hún fer stöðugt aftur í ræturnar og byrjar upp á nýtt.“

Listamaður listamannanna

Á Sequences verða sýndar myndir sem Erró tók af listaverkaröðinni Auga líkami (e. Eye body)  þar sem líkami listamannsins, Carolee Schneemann, leikur stórt hlutverk í klippimyndinni.
Notar líkamann í verk sín Á Sequences verða sýndar myndir sem Erró tók af listaverkaröðinni Auga líkami (e. Eye body) þar sem líkami listamannsins, Carolee Schneemann, leikur stórt hlutverk í klippimyndinni.

Heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár er bandaríska myndlistarkonan Carolee Schnemann, sem er frumkvöðull í gjörningalist. Alfredo segir það mikið gleðiefni að fá að skoða verk hennar, en hann telur hana passa vel við þema hátíðarinnar, en þá sérstaklega notkun hennar á líkamanum í verk sín. „Hún hefur verið gríðarlega mikilvæg í lista- og menningarheiminum allt frá sjöunda áratugnum. Hún er ein af þeim sem umbyltu hugmyndum fólks um gjörningalist og möguleika listamannsins til að nota líkama sinn sem hráan efnivið í listaverk. Hún var aldrei hrædd við að nota eigin kynferði og kyn og velti mikið fyrir sér einkennum eigin kyns og kyngervis. Þetta þótti óvenjulegt á tíma þegar hugmyndin um listamanninn sem hvítan karlmann var ennþá allsráðandi. Þrátt fyrir að vera mjög margar voru konur nánast ósýnilegar í listaheiminum. Hún skapaði sér hins vegar einstaka stöðu og með því að nota hinn virka líkama í verk sín braut hún niður ótal hugmyndir sem þá voru viðteknar um hvernig listamenn ættu að vera,“ segir Alfredo.

Schneeman er ein af þeim sem umbyltu hugmyndum fólks um gjörningalist og möguleika listamannsins til að nota líkama sinn sem hráan efnivið í listaverk

Fjögur gömul verk eftir Schneemann verða til sýnis á hátíðinni og segir Alfredo að hér sé nánast um ræða litla yfirlitssýningu. Þá verður viðtal Hans Ulrich Obrist við listakonuna frumsýnt, heimildarmynd í fullri lengd sýnd og þá mun hún flytja erindi og ræða við Ragnar Kjartansson í gegnum Skype. En Ragnar hefur einmitt lýst yfir aðdáun sinni á Schneemann. „Þótt hún sé kannski ekki þekkt meðal almennings er hún einn af þeim listamönnum sem aðrir listamenn líta mikið til – hún er listamaður listamannanna. Á undanförnum tíu árum hefur áhuginn á verkum hennar svo vaxið á ný. Maður tekur eftir að margir listamenn af yngri kynslóðinni eru að sækja í sama brunn og hún, til dæmis eru margir að nota ítarlegar upplýsingar um eigin líkama og tölur um virkni hans sem efnivið fyrir listaverk,“ segir Alfredo og bendir einnig á hvernig áhrifa Schneemann hafi einnig gætt í meginstraumsmenningu samtímans. Til dæmis má nefna að Maude Lebowski, persóna sem Julianne Moore leikur í Hollywood-myndinni The Big Lebowski, er að hluta innblásin af Schneemann og kjötkjóll sem Franc Fernandez hannaði fyrir poppstjörnuna Lady Gaga árið 2010 og vakti mikla athygli er sagður innblásinn af þekktasta verki Schneemann, Meat Joy.

Líkaðu við Menningarsíðu DV á Facebook og fáðu menningarfréttir, viðtöl, og gagnrýni beint í æð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.