Þægilegar raddir

Minningar vöknuðu við að hlusta á Frjálsar hendur

Sérlega góður útvarpsmaður.
Illugi Jökulsson Sérlega góður útvarpsmaður.

Ég hlusta ekki mikið á útvarp, en á dögunum náði ég í skottið á þætti Illuga Jökulssonar, Frjálsar hendur. Hann var að segja frá stórveldisdögum gamals ríkis. Ég heyrði einungis lokamínútur þáttarins en þær vöktu hughrif. Illugi hefur lag á því að segja frá þannig að mann langar til að heyra meira. Honum tekst semsagt að vekja hjá manni forvitni. Það er góður eiginleiki hjá útvarpsmanni. Auk þess hefur hann afar þægilega rödd sem kallar á að maður leggi við hlustir. Nokkrum dögum fyrr hafði ég heyrt brot af útvarpssögunni, Brennu Njáls sögu. Upptakan er gömul og það er Ingibjörg Haraldsdóttir skáld sem les. Einnig hún hefur rödd sem kallar mann að útvarpstækinu. Það að hlusta á Illuga og Ingibjörgu vakti minningar.

Á sjónvarpslausum tímum ólst ég upp við útvarpshlustun. Útvarpið mótaði þá sem á það hlustuðu og menningarefni var áberandi á dagskránni. Þar voru flutt útvarpsleikrit og ég man að það að hlusta á Skálholt Kambans var upplifun og það var lítill vandi að lifa sig inn í dramatísk örlög Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Maður beið eftir útvarpssögunni og þar var Góði dátinn Svejk í upplestri Gísla Halldórssonar mesta skemmtunin. Og þá, eins og nú, var Njála vinsæl útvarpssaga. Og ekki má gleyma þættinum Á hljóðbergi sem Björn Th. Björnsson hafði umsjón með og var opinberun. Þar spilaði hann upptökur með frægum erlendum skáldum og listamönnum. Þar heyrðist Dylan Thomas lesa eigin ljóð og flutningur leikarans þekkta Vincent Price á Hrafninum eftir Edgar Allan Poe var magnaður. Kannski eru ekki lengur til upptökur af þessum þáttum, en ef þær skyldu vera til og vera endurfluttar þá sæti maður með sælusvip fyrir framan útvarpstækið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.