Tilnefningar til Menningarverðlauna DV 2014 - Fyrri hluti

Menningarverðlaun DV verða veitt í 9 flokkum þriðjudaginn 24. mars.

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2014 verða veitt þriðjudaginn 24. mars næstkomandi klukkan 17.00 í Iðnó.
45 verkefni, hópar og einstaklingar eru tilnefndir til verðlaunanna í ár í níu flokkum; kvikmyndum, leiklist, dansi, tónlist, myndlist, arkitektúr, hönnun, bókmenntum og fræðum. Auk þess afhendir forseti Íslands heiðursverðlaun og lesendaverðlaun dv.is verða veitt. Hér birtist fyrri hluti tilnefninganna, en síðari hlutinn verður kunngerður í helgarblaði DV, föstudaginn 13. mars. Sama dag hefst netkosning á dv.is en þar gefst lesendum tækifæri til að kjósa þá tilnefningu sem þeim líst best á – sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hlýtur lesendaverðlaun dv.is.

Tónlist

Dómnefnd: Gunnar Lárus Hjálmarsson (formaður), Dana Rún Hákonardóttir og Elísabet Indra Ragnarsdóttir.

Anna Þorvaldsdóttir.

Tónskáld.

Mynd: Hrafn Ásgeirsson

Anna Þorvaldsdóttir hefur á undanförnum árum skipað sér í röð áhugaverðustu tónskálda Norðurlandanna fyrir einstakan og persónulegan tónheim sinn; nostrað er við fíngerðustu blæbrigði í tónlistinni sem er samt full af rými fyrir hlustandann til að skynja og sogast með. Árið 2014 var gjöfult á ferli Önnu; á meðal þess sem hæst bar var útgáfa þýska útgáfurisans Deutsche Grammophon á plötunni Aerial sem hefur að geyma verk eftir Önnu frá árunum 2011–2013 auk þess sem hinn virti tónlistarhópur Ice Ensemble frumflutti viðamikið verk hennar á Listahátíð í Reykjavík 2014.

Eistnaflug.

Þungarokkshátíð.

Mynd: Atli Jarl Martin

Íslenskt þungarokk hefur aldrei farið eins hátt og á síðasta ári þegar þrjár hljómsveitir – Dimma, Skálmöld og Sólstafir – gáfu út sterkar plötur og slógu í gegn bæði hér og erlendis. Rokkhátíðin Eistnaflug sem haldin hefur verið árlega í Neskaupstað síðan 2004 og fagnaði því tíu ára afmæli í fyrra, hefur verið eins konar uppskeruhátíð íslensks þungarokks og mikilvægur hluti af senunni. Hátíðin er hugarfóstur Stefáns Magnússonar sem hefur alltaf staðið í brúnni. Hátíðin hefur vaxið ár frá ári og vakið athygli út fyrir landsteinana, enda heimsækja nú hátíðina mikilvæg nöfn í þungarokkinu.

M-Band.

Fyrir plötuna Haust.

M-Band er sólóverkefni Harðar Más Bjarnasonar, sem syngur og spilar á ýmis hljóðfæri. Tónlistin er elektrónísk popptónlist þar sem hjartnæm tenórrödd Harðar svífur ofan á ljúfri, dreymandi og heillandi tónlist. Hörður lét fyrst heyra í sér árið 2012 á EP-plötu en í fyrra kom fyrsta albúmið, hin taktfasta og leitandi „Haust“. Hörður leggur sérstaklega mikið upp úr kraftmikilli upplifun áhorfenda á tónleikum, en hann lék víða á síðasta ári, bæði heima og erlendis.

Rökkurró.

Fyrir plötuna Innra.

Rökkurró sendi frá sér sína þriðju plötu, Innra, seint á síðasta ári en hún hefur fengið góðar undirtektir hér heima sem og utan landsteina. Þrjú ár eru liðin frá síðustu plötu sveitarinnar, Í annan heim, en sú fyrsta, Það kólnar í kvöld, kom út 2007. Hljómsveitin hefur verið í stöðugri þróun og náði áður óþekktum hæðum á nýju plötunni. Rökkurró er nýkomin heim eftir tónleikaferðalag um Evrópu og má með sanni segja að sveitin komi tvíefld til baka.

Mengi.

Tónleikastaður.

Tónleikastaðurinn Mengi á Óðinsgötu hefur haldið úti metnaðarfullri, frumlegri og áhugaverðri tónleikadagskrá. Þar hefur fjöldinn allur af tónlistarmönnum úr ólíkum áttum – bæði innlendum og erlendum – komið fram frá því staðurinn var opnaður fyrir rúmu ári. Með tilkomu Mengis hefur orðið til dýrmætur vettvangur fyrir tilraunakennda tónlist og spunatónlist en þann vettvang vantaði sárlega í íslenskt tónlistarlíf.

Mynd: Ísgerður Gunnarsdóttir

Kvikmyndir

Dómnefnd: Vera Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson, Ísold Uggadóttir.

Höggið.

Heimildamynd eftir Ágústu Einarsdóttur.

Mynd: (C) Disa Lareau, all rights reserved

Einstaklega vönduð íslensk heimildamynd um sannsögulega viðburði. Hér er á ferð stórbrotin saga af sjóskaða og svo hetjulegri björgun í Norður-Atlantshafi á jólanótt árið 1986. Notast er bæði við myndefni frá samtímanum sem og nýtt leikið efni, í bland við viðtöl við þá sem lifðu af. Myndin er spennandi og vel upp byggð, þó að hún sé trú viðburðunum virkar hún nánast eins og spennumynd á köflum og undir lokin er mynduð tilgáta um það sem raunverulega gerðist. Heimildamyndargerð eins og hún gerist best, og varpar ljósi bæði á kjör íslenskra sjómanna sem og afdrif Íslands í ólgusjó kalda stríðsins.

Mynd: Grímur Bjarnason
Mynd: Magnus Froderberg/norden.org

Benedikt Erlingsson og Friðrik Erlingsson.

Fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu.

Benedikt Erlingsson og Friðrik Erlingsson fá tilnefningu fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu á Íslandi. Þeir stigu nýlega báðir fram á opinberum vettvangi með umdeildar skoðanir varðandi stöðu kvikmyndalistarinnar hérlendis. Friðrik skrifaði greinar þar sem hann gagnrýndi efnistök íslensks sjónvarpsefnis og ákvarðanatöku varðandi framleiðslu þess. Hann bendir á að margt beri að endurskoða, því hér sé aldeilis efniviður til staðar en að oft sé verið að eltast við erlendar fyrirmyndir sem eigi illa heima í íslensku samhengi. Benedikt gagnrýndi ríkisstjórn Íslands fyrir niðurskurð til Kvikmyndasjóðs í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs 2014. Hann biðlaði til áhorfenda í salnum um að ræða við íslenska ráðamenn sem viðstaddir voru og útskýra fyrir þeim hversu mikilvæg kvikmyndagerð væri fyrir menningu okkar. Friðrik og Benedikt reyndu hvor með sínum hætti að stuðla að uppbyggilegri gagnrýni sem nauðsynleg er, eigi kvikmyndamenning að geta dafnað hérlendis.

Þorsteinn Bachmann.

Fyrir leik í kvikmyndinni Vonarstræti.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í kvikmyndinni Vonarstræti leikur Þorsteinn rithöfundinn og ógæfumanninn Móra og sýnir stórleik í hlutverkinu. Hann fer allan skalann í túlkun sinni á manni sem fer frá því að vera „venjulegur fjölskyldufaðir“ í að verða nánast útigangsmaður. Þorsteinn sýnir besta leik sinn til þessa og mikla næmni bæði í túlkun sinni á persónunni og samleik við aðra leikara. Eftir 20 ára feril, oftast í aukahlutverkum, sýnir hann svo um munar að hann blómstrar í aðalhlutverki og er um þessar mundir einn af áhugaverðustu leikurum landsins.

Salóme.

Heimildamynd eftir Yrsu Rocu Fannberg.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Salóme er persónuleg heimildamynd sem Yrsa Roca Fannberg gerði um móður sína, Salóme E. Fannberg veflistakonu. Yrsa er sjálf á bak við myndavélina og við fylgjumst með samskiptum mæðgnanna á nærgöngulan en jafnframt einlægan máta. Það þarf mikið hugrekki til að kvikmynda eigið tilfinningalíf með þessum hætti og er ekkert dregið undan. Myndin er fyrsta heimildamynd leikstjórans en er þrátt fyrir það afar þroskuð saga um samband móður og dóttur.

Skjaldborg.

Hátíð íslenskra heimildamynda.

Kvikmyndahátíðin Skjaldborg sem haldin er á Patreksfirði hefur undanfarin ár stækkað og eflst og var hátíðin í ár sú glæsilegasta til þessa. Skjaldborg frumsýnir á hverju ári fjölda íslenskra heimildamynda sem sumar ættu annars í erfiðleikum með að rata fyrir augu almennings. Efnistökin á Skjaldborg hafa jafnan verið fjölbreytt og myndirnar margvíslegar. Þarna fá leikstjórar einnig tækifæri til að sýna verk sem eru í vinnslu og fá álit á þeim og hvað megi bæta eða breyta. Skjaldborg hefur orðið fastur liður í almanaki bíóunnandans og fengið fjöldann allan af áhugaverðum gestum, bæði innlendum og erlendum, en síðast var það hinn rússneski Victor Kossakovsky sem var heiðursgestur hátíðarinnar.

Leiklist

Dómnefnd: Silja Aðalsteinsdóttir (formaður), Arngrímur Vídalín, Bryndís Loftsdóttir.

Bergur Þór Ingólfsson.

Fyrir leikstjórn og handrit barnaleikritsins Hamlet litli hjá LR.

Í Hamlet litla tekst Bergur Þór á við það ögrandi verkefni að koma sögu Hamlets prins eftir William Shakespeare á svið með þrem leikurum í klukkutíma verki ætluðu börnum. Handrit hans er afar þétt og heldur jafnvel yngstu áhorfendum spenntum og áhugasömum allan tímann. Fjörugri tónlist, forvitnilegum leikbrúðum, leikmunum og allri þeirri tækni sem fyrirfinnst í leikhúsinu er teflt saman ásamt firnasterkum leikurum og allt gengur upp. Bergur kemur sögu Hamlets vel til skila á þessum stutta tíma og splæsir auk þess inn eftirminnilegu atriði þar sem Ófelía talar um móður sína með þeim hætti að enginn verður ósnortinn. Það er mikil upplifun fyrir áhorfendur á öllum aldri að sjá þessa sýningu, hún opinberar ýmsa galdra leikhússins, kynnir fjölbreytt frásagnarform og er unnin af slíkri alúð að lengi verður minnst.

Elma Stefanía Ágústsdóttir.

Fyrir leik sinn í þremur sýningum í Þjóðleikhúsinu.

Mynd: DV myndir/Sigtryggur Ari

Elma Stefanía setti sterkan svip á þrjár gerólíkar persónur í þremur eftirminnilegum og áhrifamiklum leiksýningum á árinu: Ástu Sóllilju, lífsblómi Bjarts í Sumarhúsum í ögrandi og umdeildri sýningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness, Abigail Williams, forsmáða ástkonu Johns Proctor, í glæsilegri uppsetningu Stefans Metz á Eldrauninni eftir Arthur Miller og Herbjörgu Maríu unga í viðburðaríkri og auðugri sýningu Unu Þorleifsdóttur á Konunni við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Um leið viljum við gefa leikstjórum, öðrum leikurum og sviðslistamönnum þessara sýninga fallega rós í sitt hnappagat.

Hilmar Jónsson.

Fyrir leikstjórn verksins Furðulegt háttalag hunds um nótt hjá LR.

Verkið fjallar um einhverfan dreng, Christopher, sem fórnar öllu haldreipi sínu í leit að sannleikanum um fjölskyldu sína. Hilmar skapar frábært jafnvægi milli hins eintóna einhverfa drengs og allra hinna litskrúðugu persónanna, þannig að áhorfendur umbera krefjandi nærveru Christophers og taka þátt í hinu strembna ferðalagi í leit að sannleikanum með honum. Tíu sterkir leikarar fara með þrjátíu og átta hlutverk og eru þar allir hver öðrum betri, jafnvel hundurinn sem kemur inn í lok sýningarinnar sýnir algjöran stjörnuleik. Leikmynd, lýsing, hljóðmynd og sviðshreyfingar leikara vinna saman á einstakan hátt undir stjórn Hilmars og mynda á fimmta tug mismunandi staðsetninga verksins á spennandi og trúverðugan hátt. Þetta er ákaflega flókin og viðamikil sýning en allar tæknilegar úrlausnir ganga upp og eru í raun listaverk út af fyrir sig.

Marta Nordal.

Fyrir leikstjórn sína á Ofsa eftir sögu Einars Kárasonar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Leikhópur Mörtu Nordal og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, Aldrei óstelandi, hefur vakið athygli á síðustu árum fyrir frumlegar og áhrifamiklar sýningar þar sem þau hafa nýtt sér útvarpsleikhústækni á ýmsan hátt til að ná utan um og magna efnivið sinn. Ofsi gerist á Sturlungaöld og segir frá glæsilegri brúðkaupsveislu sem endar með morðbrennu og sögupersónur skipta tugum; þó komu fjórir leikarar sögunni til skila á einkar áhrifaríkan hátt á litlu sviði með því að beita slagverki, útvarpstækni og ýmsum sviðsbrellum á afar hugmyndaríkan hátt. Allir sem komu að þessari sýningu eiga hrós skilið en Marta fær tilnefningu sem leikstjóri hennar.

Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Fyrir túlkun sína á Nóru í Dúkkuheimili Ibsens hjá LR.

Í umskiptunum úr yfirborðskenndri hamingju til örvæntingar sýnir Unnur Ösp einstaklega næma tilfinningu fyrir togstreitu í sál kúgaðrar konu sem neyðist til að fórna öllu til að bjarga sjálfri sér. Þrátt fyrir háan aldur verksins á það enn erindi eins og sannaðist í kraftmikilli uppfærslu Hörpu Arnardóttur. Aðrir leikarar áttu einnig sinn þátt í áhrifum sýningarinnar, einkum Hilmir Snær í hlutverki Þorvalds, og þá ekki síður leikmynd Ilmar Stefánsdóttur sem myndar hið ótrausta undirlag sem heimilið er byggt á.

Mynd: GRIMUR BJARNASON

Danslist

Dómnefnd: Karen María Jónsdóttir (formaður), Ólöf Ingólfsdóttir og Margrét Áskelsdóttir.

Aude Busson og stjórn Assitej.

Fyrir Sviðslistahátíð Assitej 2014 fyrir unga áhorfendur.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hátíðin hóf annað starfsár sitt með því að tilkynna nafnbreytingu úr Leiklistarhátíð Assitej í Sviðslistahátíð. Nafnbreytingin var svo undirstrikuð með áherslu á dans í verkefnavali hátíðarinnar. Hér sýndi stjórn Assitej mikið hugrekki, tekin var ákvörðun um að taka hefðbundna hátíð og fara með hana í nýja átt. Stjórnin treysti dansinum til að halda merki hátíðarinnar á lofti. Hátíðin, sem bauð upp á þrjú íslensk dansverk fyrir börn og eitt erlent, var hvati fyrir sköpun nýrra barnadansverka og barnadansmynda sem og þróun á fjölbreyttu og skapandi námskeiðahaldi. Ný áhersla bauð upp á breiðara samstarf, nú við Dansverkstæðið í Reykjavík og samtímadansbraut Listaháskóla Íslands. Skemmst er frá því að segja að hátíðin sló í gegn og opnaði aðgengi barna á ýmsum aldri að listdansi.


Ásrún Magnúsdóttir.

Fyrir dansverkið Church of dance.

Í verkinu, sem jafnframt var opnunarverk Reykjavík Dance Festival 2014, fær Ásrún nágranna sína á Njálsgötunni til að bjóða gestum og gangandi inn í stofu að dansa við uppáhaldstónlist húsráðenda. Með því beinir hún athygli almennings að dansi, gerir gesti meðvitaða um dansinn í eigin lífi og kóreógrafíu sýnilega í umhverfinu. Síðustu misserin hefur Ásrún unnið að rannsóknum á listdansi með þróun þátttökuverka þar sem almenningur á í virku samtali við listamanninn um dans, sýn og upplifun. Í verkinu Church of dance nær Ásrún einstaklega skemmtilegum tökum á forminu þegar hún býður almenningi bókstaflega yfir hátíðlegan dansþröskuldinn og inn í dansheim hversdagsins. Hugmyndin og útfærslan var gríðarlega sterk og hreif þátttakendur með sér í fjölbreyttum samdansi.

Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson.

Fyrir dansverkið Lecture on borderline musicals.Í verkinu er áhorfandanum boðið að kafa í fyrirbærið jaðarsöngleikur. Í fyrirlestri vísa Erna og Valdimar í karaktera, lög, og danssenur úr fyrri verkum til útskýringa sem þau framkvæma af mikilli snilld. Umfjöllunarefnið er brotið til mergjar og dansað er á mörkum gríns og alvöru, raunveruleika og skáldskapar. Uppbygging verksins er mjög skýr og markviss og samspil Ernu og Valdimars í góðu jafnvægi. Erna og Valdimar setja hér fram yfirgripsmikinn feril sinn í kraftmikilli og skemmtilegri nálgun, þar sem gamalt efni er sett í nýtt samhengi og bæði gamlir aðdáendur og nýir áhorfendur geta notið.

Halla Þórðardóttir.

Fyrir dans sinn í verkinu Meadow.

Halla Þórðardóttir á athygli áhorfandans í verkinu Meadow eftir Brian Gerke í uppsetningu Íslenska dansflokksins. Verkið sækir innblástur í ævintýralegan hugarheim höfundarins sem uppfullur er af dýrslegum mannverum. Halla bæði opnar verkið og lokar því og hrífur áhorfandann, sem missir aldrei sjónar á henni, með í gegnum verkið með sterkri nærveru sinni. Sérstaklega minnisstæður er eindans hennar í upphafi verksins þar sem hún stígur óburðug og brothætt sín fyrstu skref áður en hún svo sprettir úr spori. Halla gerir hlutverki sínu mjög góð skil með örlæti sínu og listfengi, tæknilegri færni og nákvæmni í framkvæmd hreyfinga.

Margrét Sara Guðjónsdóttir.

Fyrir dansverkið Blind spotting.

Í verkinu kallar Margrét fram áhrifaríkar en uggvænlegar myndir. Átta einstaklingar fyrirfinnast á sviðinu, líkamar þeirra eru örmagna á sama tíma og innra tilfinningalíf einstaklinganna er við það að springa. Rauð flauelstjöld leika stórt hlutverk í verkinu en hreyfing þeirra ýtir verkinu áfram og skapar hulin rými sem annað slagið opnast áhorfendum og opinbera þeim ástand þess einstaklings sem þar er að finna. Verkið nær þannig að dáleiða áhorfandann og draga hann inn í ástand einstaklinganna í verkinu. Hér fullkomnar Margrét Sara fagurfræðileg höfundareinkenni sín þar sem ytri naumhyggja mætir innri sprengikrafti.

Tilnefningar í flokkum myndlistar, hönnunar, arkitektúrs, bókmennta og fræða verða birtar í helgarblaði DV föstudaginn 13. mars.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.