Glíma þýðandans

Friðrik Rafnsson þýðir gæðaverk úr frönsku

„Ég er svo latur að eðlisfari að ég myndi sennilega ekki taka að mér að þýða bók nema ég sæi eitthvað bókmenntalega bitastætt í henni sem væri gaman að glíma við.“
Friðrik Rafnsson „Ég er svo latur að eðlisfari að ég myndi sennilega ekki taka að mér að þýða bók nema ég sæi eitthvað bókmenntalega bitastætt í henni sem væri gaman að glíma við.“
Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Friðrik Rafnsson er afkastamikill bókmenntaþýðandi. Á síðasta ári komu út hér á landi þrjár skáldsögur sem hann þýddi úr frönsku: Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA-skáp, Sannleikurinn um mál Harry Quebert eftir Joël Dicker, Hátíð merkingarleysunnar, eftir Milan Kundera og fjórðu bókinni, spennutryllinum Alex, eftir Pierre Lemaitre, var dreift í bókaklúbbi seint á síðasta ári og er nýkomin út á almennan markað.

Friðrik hefur þýðingar að aðalstarfi og segir vinnuna skemmtilega. „Ýmist vel ég bækur sjálfur, eins og í tilfelli Kundera, eða fæ pantanir um þýðingar og fram að þessu hafa þetta verið afar áhugaverðar bækur, hver á sinn hátt. Ég er svo latur að eðlisfari að ég myndi sennilega ekki taka að mér að þýða bók nema ég sæi eitthvað bókmenntalega bitastætt í henni sem væri gaman að glíma við.“

Kveðjufúga Kundera

Þessi teikning eftir Milan Kundera prýðir íslensku þýðinguna á Hátíð merkingarleysunnar.
Hæfileikamikill Kundera Þessi teikning eftir Milan Kundera prýðir íslensku þýðinguna á Hátíð merkingarleysunnar.

Spurður um þær bækur sem komu út á síðasta ári í þýðingu hans segir hann: „Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA-skáp er eftir ungan höfund, Romain Puértolas, og sló algjörlega í gegn í Frakklandi í hitteðfyrra og hefur nú verið gefin út víða um heim og náð metsölu. Puértolas er landamæralögga og er þarna að skrifa um mál sem hann þekkir vel, sem er fólksflótti frá Norður-Afríku til Evrópu. Aðalpersónan er fakír sem fer frá Indlandi til Frakklands til að kaupa sér naglarúm og lendir í öllum þeim hremmingum sem einn lítill fakír getur lent í en verður líka yfir sig ástfanginn. Þetta er allra skemmtilegasta skáldsaga sem ég hef þýtt.“

Friðrik fékk Ísnálina, verðlaun fyrir þýðingu sína á bók svissneska höfundarins Joël Dicker, Sannleikurinn um mál Harry Quebert, en hún hefur slegið í gegn víða um heim. „Háklassaspennubók með skemmtilegum vangaveltum um ritstörf,“ segir Friðrik.
Þriðja bókin sem kom út á síðasta ári í þýðingu hans er Hátíð merkingarleysunnar eftir Milan Kundera. Friðrik hefur þýtt allar skáldsögur Kundera, samsagnasafn hans og öll ritgerðarsöfnin fyrir utan hálft ritgerðarsafn sem hann mun þýða einhvern tíma í framtíðinni. Hátíð merkingarleysunnar kom út í Frakklandi í fyrra og var svo til splunkuný þegar hún kom út hér landi í þýðingu Friðriks. „Þetta er stutt skáldaga, nóvella, sem gerist í París nútímans um hásumar og fjallar um vini sem eru að kljást við ýmislegt í lífinu, meðal annars veikindi. Ein aðalpersónan heldur að hann hafi greinst með krabbamein en kemst svo að því að svo er ekki og verður fyrir nokkrum vonbrigðum því honum fannst spennandi tilhugsun að verða fórnarlamb og láta vorkenna sér,“ segir Friðrik. „Eins og oft er í bókum Kundera þá er söguþráðurinn ekki fast fléttaður heldur fjallar Kundera um ýmis viðfangsefni eins og húmor og húmorsleysi. Hann skrifaði árið 1973, á afar erfiðu tímabili á ævinni, stórskemmtilega skáldsögu sem nefnist Kveðjuvalsinn. Nú er hann orðinn áttatíu og fimm ára og er eflaust farinn að huga að endalokunum. Hátíð merkingarleysunnar er því nokkurs konar „kveðjufúga“ skrifaði hann sér til gamans, eða „kostulegur eftirmáli“ eins og hann skrifar í káputextanum á bókinni.“

Leiftrandi húmor og frumleg hugsun

Tvær vel fléttaðar spennubækur, gamansaga um fakír og kveðjufúga frá Kundera.
Fjórar þýddar skáldsögur Tvær vel fléttaðar spennubækur, gamansaga um fakír og kveðjufúga frá Kundera.
Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Friðrik og Kundera hafa verið vinir til margra ára og Friðrik er spurður um fyrstu kynni þeirra. „Ég var í bókmenntanámi í Suður-Frakklandi þar sem voru lesnar smásögur eftir nokkra höfunda. Ég hreifst mjög af sögu eftir Kundera sem er í Bókinni um hlátur og gleymsku. Hún heitir Englarnir en þar talar Kundera um hlátur englanna og hlátur djöfulsins. Skömmu seinna þýddi ég eftir hann sögu sem heitir Ferðaleikur og birtist í Tímariti Máls og menningar. Vigdís Finnbogadóttir kom í opinbera heimsókn til Parísar 1983 og við Eydís, kona mín, vorum þar í boði sem haldið var fyrir Íslendinga. Ég ákvað að skrifa Kundera smábréf þar sem ég sagði að ég hefði þýtt sögu eftir hann og væri að þýða leikrit hans, Jakob og meistarinn, og spurði hvort hægt væri að hitta hann. Ég fékk bréf til baka þar sem okkur hjónunum var boðið heim í kaffi til hans og konunnar hans. Þannig upphófst vinátta sem hefur staðið síðan.“

Spurður að því hvað hrífi hann við Kundera sem rithöfund segir Friðrik: „Aðalsmerki hans er að tvinna saman leiftrandi húmor og djúpa og frumlega hugsun. Hann er mikill húmoristi og er einkar laginn við að koma auga á óvæntar hliðar á manneskjunni og mannlífinu. Hann lítur á skáldsöguna sem rannsóknartæki til að afhjúpa óvæntar hliðar á tilverunni. Þetta gerir hann á léttleikandi og aðgengilegan hátt, nokkuð sem skýrir vinsældir bóka hans um allan heim.“

Kundera hefur lengi verið orðaður við Nóbelsverðlaunin, en Friðriki finnst ekkert tiltökumál að hann skuli ekki hafa fengið þau. „Kundera á að baki afar farsælan feril sem skáldsagna- og ritgerðahöfundur, auk þess sem hann hefur skrifað eitt leikrit, Jakob og meistarinn. Það er sjaldgæft að höfundar í þessum gæðaflokki nái jafn almennum og miklum vinsældum um allan heim og Kundera. Hann er að nema ný lönd í skáldsögunni og er oft mjög djarfur í forminu en nær samt til almennra lesenda. Mér hefur lengi fundist að Nóbelsverðlaununum sé betur varið til annarra en hans. Það sama á við um ýmsa aðra þekkta afbragðshöfunda, eins og Philip Roth og Murakami. Þeir þurfa ekki á Nóbelnum að halda. Væri ég í Nóbelsnefndinni myndi ég frekar velja höfund sem væri frábær en ekki mjög þekktur.“

Ekki fyrir viðkvæmar sálir

Þetta er alls ekki bók fyrir viðkvæmar sálir.

Nýjasta þýðing Friðriks er æsispennandi glæpasaga sem kom út í Frakklandi árið 2011, Alex eftir Pierre Lemaitre, einn vinsælasta glæpasagnahöfund Frakka nú um stundir. Bækur hans hafa verið þýddar á um þrjátíu tungumál og fyrir Alex hlaut höfundurinn Alþjóðlega rýtinginn, verðlaun CWA, samtaka breskra glæpasagnahöfunda, árið 2013. „Það var mjög gaman en krefjandi að þýða Alex því Lamaitre er mjög vel lesinn og í bókum sínum lyftir hann hattinum til ýmissa rithöfunda, eins og Proust og Pasternak, en líka kvikmyndaleikstjóra eins og meistara Alfred Hitchcock. Mér finnst Alex snilldarlega vel fléttuð spennusaga sem reynir mjög á réttlætiskennd lesandans. Þetta er alls ekki bók fyrir viðkvæmar sálir. Fyrst og fremst er Pierre Lemaitre vel lesinn og fantagóður rithöfundur sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er þýðandans að átta sig vel á því öllu og koma því til skila á íslensku. Ég vona að það hafi tekist.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.