Fjárlagafrumvarpið vonbrigði fyrir kvikmyndagerðamenn

Formaður Sambands kvikmyndaframleiðanda segir 500 milljónir vanta upp á

Á miðvikudag kynnti ríkisstjórn Íslands frumvarp sitt til fjárlaga fyrir árið 2015. Umræða um frumvarpið hófst svo í kjölfarið á Alþingi. Þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram er tekist á um hversu mikil samneysla íbúa samfélagsins skuli vera, hvar fjármunum sé best varið og af hverju. Menningarmál hafa í gegnum tíðina verið einn þeirra málaflokka sem auðveldast er að skera niður vegna þess að hagræn áhrif auðugs lista- og menningarlífs sjást ekki í hagtölum næsta árs.

Margir telja að hlutverk ríkisins sé ekki að niðurgreiða menningarneyslu íbúanna heldur eigi lögmál markaðarins að ráða. Aðrir álíta það vera frumforsendu samfélags að hafa lifandi tungumál og auðugt menningarlíf, en því verði einungis haldið blómlegu með styrkjum frá hinu opinbera.

Kvikmyndabransinn fær meira

Kvikmyndaframleiðendur eru ekki sáttir við nýtt fjárlagafrumvarp.
Hilmar Sigurðsson Kvikmyndaframleiðendur eru ekki sáttir við nýtt fjárlagafrumvarp.
Mynd: Hilmar Sigurðsson

Framlög til menningarmála aukast frá síðasta fjárlagafrumvarpi. 10.430 milljónir króna af fjárlögum ríkisins fara í rekstur safna og listastofnana samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015. Þetta eru rúmlega 14,5 prósent af þeim 71.829 milljónum sem eru eyrnamerkt mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Stærstu einstöku breytingarnar í fjárlögum innan listageirans eru þær að kvikmyndaiðnaðurinn fær um 100 milljón krónum meira en í fyrra.

Þessi aukning er samkvæmt samkomulagi frá árinu 2011 þegar mennta- og menningarmálaráðherra samdi við kvikmyndagerðarmenn, -framleiðendur og -leikstjóra um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu frá 2012 til 2015. Samkomulagið fól í sér að framlag í Kvikmyndasjóð vegna þessara verkefna yrði 640 milljónir árið 2014 og 740 milljónir króna árið 2015.

Árið 2013 ákváðu stjórnvöld hins vegar að spýta enn frekar í lófana varðandi kvikmyndagerð og juku framlagið umtalsvert. Þessi aukning var skorin niður um leið og ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við störfum.

Vegna hagræðingarkröfu nýju ríkisstjórnarinnar var þessari þróun snúið við og framlag til sjóðsins 624,7 milljónir í fjárlögum 2014 en ekki 640 milljónir eins og upphaflega samkomulagið gerði ráð fyrir og þess vegna er framlag til sjóðsins nú 724,7 milljónir króna.

Þurfa að lágmarki 1200 milljónir

,,Jú, jú, það er auðvelt að segja að við eigum að láta markaðinn ráða en ef við viljum gera kvikmyndir á íslensku þá þarf að koma til opinbert framlag.“

Hilmar Sigurðsson, formaður Félags kvikmyndaframleiðenda, segir frumvarpið vera vonbrigði, enda hafi orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í síðasta áramótaávarpi kveikt vonir um annað.

Hann segir að vissulega sé verið uppfylla loforðin sem voru gefin í verulega slæmu árferði árið 2011.
Hann segir að það þurfi um 1.200 milljónir að lágmarki til að geta gert það sem við getum talið eðlilegt framboð á íslensku efni í öllum miðlum.

En hefur þjóðin efni á því að vera að nota skattana sína í slíka lúxusvöru? Af hverju mega lögmál markaðarins ekki ráða í kvikmyndaiðnaðinum? ,,Við erum á málsvæði sem er 320 þúsund manna og þar af leiðandi er mjög lítill fjöldi mögulegra neytenda. Það er mjög dýrt að gera kvikmynd, það er risaverkefni sem tugir ef ekki hundruð manna koma að. Þetta er dýrt listform og ef að stóru Evrópulöndin, eins og Frakkland og Þýskaland, sem telja 60 til 90 milljónir manna, hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau geta ekki gert kvikmyndir á eigin tungumáli án opinberrar þátttöku, þá hlýtur það að segja sig sjálft að við getum ekki gert það hérna heima. Jú, jú, það er auðvelt að segja að við eigum að láta markaðinn ráða en ef við viljum gera kvikmyndir á íslensku þá þarf að koma til opinbert framlag. Þá ertu komin í menninguna, tungumálið, hvað kostar okkur að halda þessu tungumáli? Þá getur þú farið að ræða um það: viljum við halda þessu tungumáli, hvers virði er tungumálið? Þá erum við komin út í þessa umræðu.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.