Úr ísnum í eldheitt upptökuver

Hyggjast koma á fót 90 fermetra tónlistarstúdíói í gömlu frystihúsi - Safna áheitum á Karolina Fund

Una Sigurðardóttir vonast til að aðstaðan muni laða að jafnt innlenda sem erlenda tónlistarmenn, sem myndi glæða mjög tónlistarlíf á Austurlandi.
Fyrir tónlistarmenn Una Sigurðardóttir vonast til að aðstaðan muni laða að jafnt innlenda sem erlenda tónlistarmenn, sem myndi glæða mjög tónlistarlíf á Austurlandi.

„Svona verkefni gefa manni mjög sterka tilfinningu fyrir tilgangi,“ segir myndlistarkonan Una Sigurðardóttir. „Þar sem verkefnið er mjög ögrandi vex maður innan þess og er stanslaust að auka þekkingu sína og getu.“ Hún og unnusti hennar, írski tónlistarmaðurinn Vinny Vamos, vinna nú að uppsetningu á 90 fermetra upptökuveri í gömlu íssílói í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Lokatakmarkið er að geta boðið tónlistarfólki upp á einstaka aðstöðu og vinnustofudvöl á Stöðvarfirði þar sem unnt verður að fullvinna tónlist til útgáfu. Stefnt er að því að Stúdíó Síló verði tilbúið um næstu áramót en upptökuverið dregur nafn sitt af fyrra hlutverki rýmisins en þar voru ísbirgðir frystihússins geymdar á árum áður.

„Með því að samnýta þá aðstöðu sem þegar hefur verið komið upp verður hægt að taka upp allt efni á plötu, prenta út umslög og umbúðir, þrykkja á boli og plaköt og jafnvel halda tónleika í salnum hér,“ segir Una Björk í samtali við DV. Ljóst er að umtalsverðar framkvæmdir eru fram undan en þau hafa þegar aflað timburs og annars efniviðar hjá velviljuðum Austfirðingum. Þrátt fyrir að verkefnið sé að öllu leyti unnið í sjálfboðavinnu munu þau þurfa fjármagn til kaupa á upptökubúnaði. Þau ákváðu því að safna áheitum á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund og geta áhugasamir þannig tekið þátt í fjármögnun þess.

Nánar má lesa um málið í vikublaði DV eða í gegnum netáskrift.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.