„Kosningar einar og sér tryggja ekki lýðræði“

Páll Skúlason heimspekingur ræðir um eðli stjórnmála, stöðuna á Íslandi fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Ísland.
Rödd skynseminnar Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Ísland.
Mynd: Kristinn Ingvarsson

Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Raddblærinn sem hefur í rúm 40 ár leikið um ganga Háskólans og á stundum hljómað úr útvarpstækjum landsmanna kveikir hugrenningatengsl við visku forfeðranna, í henni er endurómur aldanna, sambland íslenskrar menningar og vesturevrópskrar heimspekihefðar.

Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála. Ég mælti mér mót við Pál til að ræða um efni bókarinnar, stöðu samfélagsins fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Borgaranefndir og lýðræði

Í bókinni setur Páll ekki fram fastmótaðar hugmyndir um hvernig samfélaginu sé best stjórnað, en hann telur mikilvægt að þorri almennings taki beinan eða óbeinan þátt í umræðum um sameiginleg hagsmunamál. „Til þess að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum þarf almenningur að hafa aðgang að réttum upplýsingum um það sem hefur gerst og er að gerast í þjóðfélaginu.

„Kosningar einar og sér tryggja ekkert lýðræði, heldur geta þvert á móti gefið lýðskrumurum, sem kæfa alla skynsamlega umræðu, gullið tækifæri til að blekkja almenning.“

Hann þarf að geta treyst því að forystumenn þjóðarinnar fari með satt og rétt mál og þeir sæti vandaðri gagnrýni fjölmiðla ef og þegar þeir hugsa fyrst og fremst um að fegra eigin ímynd og afstöðu. Og hann þarf að hafa leiðir til að mótmæla þegar hann er ósáttur við ákvarðanir stjórnvalda og telur þær ekki samræmast almannahag.“ Ég spyr Pál um skoðun hans á beinu lýðræði sem fælist í því að almenningur geti kosið um margvísleg hagsmunamál sín. Páll hefur vissar efasemdir um slíkt fyrirkomulag. „Lýðræði er fyrst og fremst fólgið í því að lýðurinn, almenningur, ræði sín mál og leiði til lykta með aðferðum sem þorri fólks er sáttur við. Kosningar eru ein af slíkum leiðum sem geta hentað við vissar aðstæður. En kosningar einar og sér tryggja ekkert lýðræði, heldur geta þvert á móti gefið lýðskrumurum, sem kæfa alla skynsamlega umræðu, gullið tækifæri til að blekkja almenning. Við slíkar aðstæður er tómt mál að tala um lýðræði.“

Páll telur að borgaranefndir sem fólk veljist í með hlutkesti sé líklega hentugasta leiðin til að framkvæma raunverulegt lýðræði. „Ég sé fyrir mér að við setjum á laggirnar kerfi borgaranefnda þar sem hver nefnd hefði tiltekinn mikilvægan málaflokk til umfjöllunar, svo sem skattamál, heilbrigðismál eða skólamál. Valið yrði í nefndirnar úr þjóðskrá samkvæmt ákveðnum reglum sem myndu tryggja sem mest jafnræði meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Nefndirnar hefðu raunveruleg völd til að fjalla um mál og móta stefnu sem Alþingi og sveitarstjórnir yrðu að taka mið af. Þær hefðu trygga stöðu í stjórnkerfinu og yrðu endurnýjaðar reglubundið. Með hverri nefnd störfuðu embættismenn og fólk gæti fylgst með störfum nefndanna. Fámenn þjóð eins og við Íslendingar er í einstaklega góðri aðstöðu til að virkja borgarar landsins með þessum hætti til þátttöku í stjórnmálum. Það yrði mikið verkefni að skipuleggja kerfi slíkra borgaranefnda, ákveða viðfangsefni þeirra, vinnulag og valdsvið. En ég tel að með þessum hætti myndum við smám saman læra að axla pólitíska ábyrgð okkar sem borgarar í hinu íslenska ríki.“

Hægt er að lesa allt viðtalið við Pál Skúlason í Helgarblaði DV
Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.