Alfredo Cramerotti sýningarstjóri Sequences VII

Fyrsti erlendi aðilinn sem sér um sýningarstjórn á myndlistarhátíðinni

Alfredo Cramerotti frá Ítalíu mun sjá um sýningarstjórn á Sequences VII myndlistarhátíðinni sem fram fer í Reykjavík í apríl.
Sýningarstjórinn Alfredo Cramerotti frá Ítalíu mun sjá um sýningarstjórn á Sequences VII myndlistarhátíðinni sem fram fer í Reykjavík í apríl.
Mynd: Páll Ivan frá Eiðum

Í dag var tilkynnt að Ítalinn Alfredo Cramerotti mun sjá um sýningarstjórn á myndlistartvíæringnum Sequences, sem fram fer í Reykjavík í sjöunda sinn 10. til 19. apríl 2015.

„Eftir vel heppnaða hátíð 2013 fannst okkur mikilvægt að leyfa Sequences að þroskast og dafna enn frekar og nú hefur í fyrsta sinn verið ráðinn erlendur sýningarstjóri. Hátíðin stendur því á tímamótum og það ríkir hjá okkur mikil spenna yfir framhaldinu og samstarfinu við Alfredo,“ segir Edda Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. „Sequences var stofnuð og á sér stað í Reykjavík en eðli hátíðarinnar er alþjóðlegt og þar sameinast íslenskir og erlendir myndlistarmenn og áhugafólk um samtímamyndlist. Alfredo hefur mikla reynslu af sýningarstjórn sem við teljum að muni hafa góð áhrif á hátíðina og að hann og hans sýn muni hleypa nýjum og ferskum straumum inn í íslenskt myndlistarlíf.“

„Hann mótar og ber ábyrgð á listrænum áherslum hátíðarinnar og vali á listamönnum“

Cramerotti, sem er listfræðingur, rithöfundur og sýningarstjóri, hefur meðal annars verið sýningarstjóri evrópska samtímalistatvíæringsins Manifesta 8 á Spáni árið 2010 og stýrt þjóðarskálum Wales og Maldív-eyja á Feneyjartvíæringnum árið 2013. Nú gegnir hann stöðu forstöðumanns MOSTYN, stærstu samtímalistastofnunar Wales. Hann mun njóta halds og trausts Eddu Kristínar Sigurjónsdóttur sem verður aðstoðarsýningarstjóri.

En fyrir leikmanninn sem þekkir ekki til innri gangs slíkra hátíða, hvert er hlutverk sýningarstjórans? „Hann mótar og ber ábyrgð á listrænum áherslum hátíðarinnar og vali á listamönnum og starfar náið með aðstoðarsýningarstjóra, framkvæmdastjóra og öðrum að skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar,“ útskýrir Edda.

Sequences-hátíðin, sem var haldin í fyrsta skipti árið 2006, er eina íslenska listahátíðin sem sérhæfir sig í myndlist. Um 25 íslenskir og erlendir myndlistarmenn munu taka þátt í Sequences VII sem fer fram á sýningarstöðum víðs vegar um Reykjavíkurborg og í almenningsrýmum í apríl 2015. Það eru Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Nýlistasafnið og Kling & Bang gallerí sem standa að hátíðinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.