Gerður Kristný vinnur að nýrri ljóðabók

Í útrás í Þýskalandi

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég er bara fegin að íslenskur draugagangur þar sem Reykjavík spilar stóra rullu vekur svona mikla lukku,“ segir rithöfundurinn Gerður Kristný Guðjónsdóttir spurð um frægðarför bókar hennar, Garðsins, í Þýskalandi.

Bókin hefur verið valin til upplestrar í stóru upplestrarkeppninni þar í landi. Garðurinn kom út hér á landi árið 2008 og fékk síðar Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin. Hún kom út í Þýskalandi og Noregi síðastliðið sumar og mun koma út í Danmörku innan tíðar.

Gerður Kristný segir útgáfuréttinn hafa verið seldan til Þýskalands stuttu eftir útgáfu bókarinnar hér á landi. Þá hafi reyndar tvö útgáfufyrirtæki slegist um útgáfuréttinn.

„Ég gat valið á milli DTV og Bloomsbury og valdi það síðarnefnda. Hún er þýdd af Karl-Ludwig Wetzig. Hann þýðir meðal annars bækur Jóns Kalmans Stefánssonar. Ég er mjög hamingjusöm með að hafa hann sem þýðanda og finnst það skipta mjög miklu máli.“

Þýsk ungmenni vöktu hrifningu Gerðar Kristnýjar síðastliðið sumar þegar hún fór út á barnabókamessu í Köln. „Ég las upp úr bókinni og fannst það óskaplega gaman. Þýsku krakkarnir spurðu eins spurninga og íslenskir krakkar. Þau voru gefin fyrir draugaganginn. Eftir einn upplesturinn drógu mörg þeirra evrurnar upp úr rassvasanum og keyptu sér bók og vildu svo fá hana áritaða. Mér fannst mjög skemmtilegt að sjá krakkana eyða vasapeningunum í bók.“

Árið 2011 var viðburðaríkt fyrir Gerði Kristnýju. Í febrúar hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Blóðhófni. Nú er hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í haust er svo von á nýrri ljóðabók frá Gerði því þessa dagana er hún upptekin við að skrifa ljóð.

„Mig langar til að gefa út ljóðabók næsta haust. Svo þarf ég að vinda mér í framhald á Garðinum, ég þarf að fara að setjast niður við það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.