Emo-útgáfan af Lisbeth Salander

1Q84

Höfundur: Haruki Murakami
Útgefandi: Knopf
Þýðing: Jay Rubin
Útgáfuár: 2011
Bls: 926

Bók Haruki Murakami,1Q84 er í heild sinni heilar 926 blaðsíður. Hún samanstendur af þremur bókum, bók 1, 2 og 3. Bækurnar mynda eina heild. 1Q84 á sér stað í Tókýó árið 1984. Fyrsta bók rekur atburði frá apríl til júní, önnur frá júlí til september og sú þriðja frá október til desember.

Í sögunni skarast frásagnir tveggja aðalsöguhetja, Aomame og Tengo, sem tengdust órjúfanlegum böndum í æsku eina svipstund. Þau fjarlægjast og lifa hvort sínu lífinu en þrá bæði að sameinast aftur.

Haruki Murakami er rithöfundur sem hefur sterk sérkenni og kunnugleg minni birtast í þessari sögu. Konur hverfa iðulega í bókum Murakamis og söguhetjur bóka hans flakka á milli heima. Fantasían umlykur sögurnar á lágstemmdan máta. Hann notar hæga og persónulega frásögn og endurtekur sig markvisst. Tónlist, kynlíf og matreiðsla markar frásögnina eins og mörgum sinnum áður. Það er ekki óalgengt að aðdáendur Murakamis skiptist á lagalistum úr bókum hans eða uppskriftum.

Öll hans brögð til að toga lesandann í langt ferðalag (926 blaðsíðna ferðalag) virka á lúmskan máta. Bókin 1Q84 er vissulega langdregin í heild sinni því er ekki að neita. En á sama tíma er viss ánægja fólgin í því að draga ferðalagið á langinn og velta fyrir sér öllum þeim spurningum sem hann veltir upp á leiðinni. Heimspekilegum spurningum um raunveruleikann. Hvað er raunverulegur heimur okkar, hvar skorðast hann?

Murakami rær á dýpið. Hann fer lengra en hann hefur nokkru sinni gert í fyrri skáldsögum sínum. Hann fjallar öðrum þræði um ofbeldi gegn konum og tekur loksins lengra það bragð sitt að láta konur hverfa. Heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum stillir hann fram með áleitnum hætti. Aðalsöguhetjan Aomame er „emo“-útgáfan af Lisbeth Salander. Hún myrðir menn sem hata konur. Murakami fjallar einnig um sértrúarsöfnuði, smættuð samfélög sem hverfast um einn sannleika.

Það er kröftug og ógnvekjandi frásögn sem vekur upp margar spurningar um hvað við teljum vera satt og samþykkt þegar kemur að konum sem hverfa.

Saga Murakamis er hins vegar fyrst og fremst saga af ást og samstöðu. Þar er vonin. Ást milli tveggja einstaklinga, þessi epíska ást sem sigrast á öllum hindrunum og nær til „handanheimsins“. Mér komu til hugar Orfeus og Evridís. Í ástinni og samstöðunni er vonin og Murakami stillir henni sterkt á móti þeim hryllingi sem blasir við konum og börnum þessa heims.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.