Kárahnjúkavirkjun sprengd í loft upp

Hápólitísk sýning í Nýlistasafninu: „Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum“

Kárahnjúkastíflan er sprengd í loft upp í nýrri kvikmynd eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur og Ólaf Pál Sigurðsson sem er til sýninga á Nýlistasafninu. Stuttmyndin er hluti af stærri einkasýningu eftir þau Steinunni og Ólaf Pál sem ber nafnið „Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Á myndbandinu er stíflan sprengd með sömu sprengingu og þeirri sem sprengdi gljúfrin við stífluna á sínum tíma.

Sýningin er hápólitísk en þar er meðal annars tekist á við ýmsar „kreddur og klisjur“ sem samfélagið tönnlast á sjálfu sér til viðhalds. Má þar nefna setningar eins og „Stétt með stétt“ „Survival of the fittest“ og „Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum“ sem er setning sem margur náttúruverndarsinninn kannast eflaust við. Baráttan gegn grænþvotti auðhringa og yfirvalda hvað varðar hnattræn áhrif áliðnaðar, skaðsemi stórstíflna og hömlulausa rányrkju á jarðvarma, leikur þannig sitt hlutverk í sýningunni.

Stendur fram í desember

Þau Steinunn og Ólafur Páll voru bæði virk í Saving Iceland hreyfingunni sem barðist hvað harðast gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma. Þau hófu samstarf undir heitinu Angeli Novi árið 2009. „Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum“ er fyrsta einkasýning þeirra en hún opnaði í Nýlistasafninu þann 29. September síðastliðinn og stendur allt fram í desember. Hljóðverk á sýningunni eru eftir Örn Karlsson, unnin í samvinnu við Angeli Novi.

Sýningin samanstendur af kvikmyndum, innsetningu, hljóðverkum og skúlptúrum en þungamiðjan er um tuttugu mínútna kvikmynd sem ber sama heiti og sýningin. Kvikmyndin var tekin á þessu ári í Grikklandi og á Íslandi auk þess sem hún inniheldur myndskeið úr kvikmyndasöfnum. Upp undir þrjátíu manns á öllum aldri voru kviksett af fúsum og frjálsum vilja við gerð myndarinnar sem er bæði á ensku og íslensku.

Kaleidóskópísk tímavél

Í bakgrunni má síðan sjá þegar Kárahnjúkastíflan er sprengd í loft upp af miklum krafti. Á síðu Nýlistarsafnsins segir að á sýningunni leitist Angeli Novi við „að skapa kaleidóskópíska tímavél þar sem skoðaðir eru ýmsir fletir á hlutskipti kynslóða sem, hver á fætur annarri, verða að verkfærum og leiksoppum efnahagslegra og sögulegra bákna. Rýnt er í hugmyndafræðilegan bakgrunn þessara bákna og mismunandi, merkingartæmd grunngildi vestrænnar menningar sem og kreddur og klisjur sem samfélagið tönnlast á, sjálfu sér til viðhalds.“

Sumarið 2006 tók Steinunn þátt í mótmælabúðum Saving Iceland gegn Kárahnjúkavirkjun og hefur beitt sér í náttúruverndarbaráttunni síðan. Árið 2007 skipulagði Ólafur Páll ásamt Saving Iceland samtökunum tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu undir heitinu Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna. Hann hefur átt drjúgan þátt í að þróa og kynna röksemdafærslu stóriðjuandstæðinga gegn grænþvotti auðhringa og yfirvalda hvað varðar hnattræn áhrif áliðnaðar, skaðsemi stórstíflna og hömlulausa rányrkju á jarðvarma.

Hefðbundinn opnuartími Nýlistasafnsins er þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 12-17 og eftir samkomulagi. Lokað mánudaga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.