Hroðvirknisleg bók um hrunið

Íslenska efnahagsundrið: Flugeldahagfræði fyrir byrjendur

Bókin Íslenska efnahagsundrið: Flugeldahagfræði fyrir byrjendur eftir Jón Fjörni Thoroddsen er fyrsta bókin um efnahagshrunið þar sem umfjöllunin afmarkast að mestu við ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna og stærstu fyrirtækja og eignarhaldsfélaga landsins. Í hinum tveimur bókunum um hrunið sem komið hafa út nýlega, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson og Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, var ekki fjallað mjög ítarlega um þennan þátt.

Margir telja hins vegar að bankamennirnir og auðmennirnir séu þeir sem beri mesta ábyrgð og líklega er sú skoðun útbreidd hér á landi um þessar mundir. Til að mynda heldur hagfræðingurinn Robert Wade því fram í grein sinni um efnahagshrunið, Ísland sem Íkarus, að eigendur bankanna hafi verið þeir sem áttu stærstan þátt í efnahagshruninu en þessir sömu aðilar voru einnig eigendur stærstu fyrirtækja landsins – Wade telur svo að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn beri næstmesta ábyrgð.

Jón Fjörnir kemst að svipaðri niðurstöðu í sinni bók. Í lokaorðum bókarinnar segir hann að það sé ljóst að á Íslandi á liðnum árum hafi hagsmunir heildarinnar vikið fyrir hagsmunum fárra því sérhagsmunir útrásarvíkinganna hafi gengið þvert á hagsmuni þjóðarinnar og því fór sem fór. Umfjöllun Jóns er tilraun til að skýra hvernig þetta gerðist.

Þessi niðurstaða Jóns er að öllum líkindum rétt og því má segja að það besta við bók hans sé fókusinn eða nálgunin sem hann velur til að fjalla um hrunið; úrvinnslunni er svo verulega ábótavant. Bókin er reyndar svo hroðvirknislega unnin og illa að það er einkennilegt að hún hafi verið gefin út í þessari mynd en það skýrist sennilega meðal annars af því að Jón gaf bókina út sjálfur.

Frásögn innanbúðarmanns?

Jón Fjörnir er kynntur til sögunnar sem hagfræðingur og fyrrverandi verðbréfamiðlari sem gjörþekki „þær leikfléttur og undrameðul sem voru drifkraftur íslensku útrásarvíkinganna“ en Jón starfaði hjá verðbréfafyrirtækinu Nordvest og síðar hjá sparisjóðnum Byr.

Þessi kynning á Jóni sem innanbúðarmanni úr íslensku viðskiptalífi vekur hins vegar vonir um innihald bókarinnar sem ekki eiga fyllilega rétt á sér því Jón byggir hana að mestu leyti á fréttum sem birst hafa um íslenskt viðskiptalíf og hrunið í fjölmiðlum, aðallega í Morgunblaðinu, en ekki á frásögnum heimildarmanna og öðrum frumheimildum innan úr viðskiptalífinu. Bókin bætir því ekki miklu við þá þekkingu sem fyrir var þrátt fyrir að búast megi við því út frá kynningunni á Jóni.

Fínt yfirlit um vanþróaðan fjármálamarkað

Í bókinni er að finna fínt yfirlit yfir sögu og þróun hlutabréfaviðskipta á Íslandi frá 1980 til 2001. Þetta yfirlit er fróðlegt fyrir þá sem ekki þekkja þá sögu því hún sýnir hversu vanþróaður íslenski fjármálamarkaðurinn var enda einn sá í yngsti í heimi, líkt og Jón Fjörnir bendir á.

Jón segir til dæmis að fram til ársins hafi regluverk með fjármálastarfsemi á Íslandi verið mjög vanþróað og að þeir sem unnu í fjármálageiranum hafi getað gert nánast hvað sem var til að maka krókinn fyrir sig og sína. Jón segir að besta dæmið um slíka misnotkun hafi verið viðskipti með bréf í deCODE.

Sennilega er mikilvægt að taka tillit til þessarar vanþróunar íslensks fjármálamarkaðar og eftirlits með honum þegar menn velta fyrir sér orsökum hrunsins.

Að frátaldri þessari umfjöllun segir Jón ekki margt í bókinni sem þeir sem vel hafa fylgst með fréttum á liðnum árum kannast ekki við, ef undan eru skildar ýmsar slúðursögur og molar um íslensku auðmennina sem vekja kátínu en jafnframt spurningar þó að þær skipti kannski ekki miklu máli fyrir stóra samhengið.

Auðmennirnir líkari „sjoppueigendum og mafíósum“

Umfjöllun Jóns Fjörnis í bókinni hverfist að mestu í kringum þátt þriggja stærstu viðskiptablokkanna í landinu í hruninu og hvernig völdin og auðurinn í íslensku viðskiptalífi safnaðist smám saman að mestu á þeirra hendur eftir einkavæðingu ríkisbankanna árið 2003. Þettu eru Baugur, Björgólfarnir og Kaupþingsmenn en hver þessara blokka átti sinn banka og sinn fjölmiðil að því er segir í frásögn Jóns.

Bók Jóns gefur yfirlit um bakgrunn og uppgang þessara þriggja viðskiptablokka og rekur uppruna og tengsl þeirra manna sem tilheyrðu þessum þremur hópum. Tilgáta Jóns er sú að stór þáttur í hruninu sé að þessir aðilar hafi, í krafti eignarhalds síns yfir bönkunum, byrjað að lána eignarhaldsfélögum „hvers annars í hring“ frá seinni hluta árs 2007 þegar byrjaði að síga á ógæfuhliðina í fjármálalífi landsins með falli eignarhaldsfélagins Gnúps. Þessi hringekja fjármagnsflæðis út úr bönkunum og til þessara eignarhaldsfélaga gat ekki gengið endalaust samkvæmt Jóni auk þess sem eftirlitsaðilar og stjórnmálamenn fá á baukinn fyrir að hafa ekki sýnt þessum fjármagnseigendum meira aðhald.

Jón telur einnig að hér á landi hafi verið skortur á gagnrýnni hugsun í garð auðmannanna sem hafi þegar allt kom til alls verið líkari „sjoppueigendum og mafíósum“.

Sundurlaus bók

Bók Jóns hefði getað orðið miklu betri ef hann hefði gefið sér aðeins meiri tíma til að vinna hana og leitað sér aðstoðar með yfirlestur bókarinnar og framsetningu hennar því fókusinn sem hann velur sér er góður og vel afmarkaður.

Þessi galli bókarinnar sést meðal annars í því að stundum er ekkert samræmi á milli blaðsíðna; lesandi klárar að lesa eina blaðsíðu, flettir, en svo byrjar einhver allt önnur umræða á næstu síðu sem tengist ekkert því sem Jón ræddi á síðunni á undan. Þetta sést til dæmis á blaðsíðu 120 þegar allt í einu er byrjað að ræða um endurskoðanda sem ekki hefur komið fyrir áður auk þess sem umræðan um hann tengist ekki blaðsíðunni á undan. Þetta er algengur galli á bókinni því samhengi vantar oft á tíðum í textann og umfjöllunina; einstaka setningar og blaðsíður koma eins og álfur út úr hól og menn eru kynntir til sögunnar án þess að föðurnafns þeirra sér getið, sbr. „Halldór“ á blaðsíðu 85.

Staðreyndavillur og bágborin heimildavinna

Eins eru margar staðreyndavillur í bókinni. Þannig er sagt frá því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, hafi gjarnan flogið með Björgólfi Guðmundssyni til London að horfa á West Ham spila fótbolta. Eftir að bókin var gefin út kom hins vegar í ljós að Vilhjálmur hafði ekki gert þetta og Jón Fjörnir viðurkenndi að hann hafði ekki verið með nægilega góða heimild fyrir sögunni. Eins segir Jón Fjörnir að Hafliði Helgason, fyrrverandi viðskiptablaðamaður, hafi verið ráðinn til REI af Jóni Ásgeiri og Hannesi Smárasyni en ekki Bjarna Ármannssyni - sem er hið sanna í málinu - og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, er rangfeðraður sem Kristinsson. Mörg fleiri slík mistök er að finna í bókinni sem bera vott um skort Jóns á þekkingu og góðum heimildum.

Einnig ber að geta þess að heimildanotkun Jóns Fjörnis er verulega ábótavant. Hann getur hvorki heimilda neðanmáls né aftast í bókinni auk þess sem enga heimildaskrá er að finna í henni eða atriðisorðaskrá. Þetta er sérstaklega hvimleitt í ljósi þess hversu mikið Jón Fjörnir tekur upp úr dagblöðum og öðrum fjölmiðlum.

Allt þetta hefði mátt bæta með aðeins meiri yfirlegu en ljóst er að Jón Fjörnir vildi koma bókinni út sem fyrst og því er trúverðugleiki hans ekki ýkja mikill auk þess sem gæði bókarinnar eru margfalt minni fyrir vikið.

Ingi F. Vilhjálmsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.