Hrollvekja úr íslenska gullæðinu

Konur eftir Steinar Braga

Mikill er missir Bjarts nú þegar rithöfundurinn Steinar Bragi hefur yfirgefið forlagið. Fréttir þess efnis bárust í miðju bókaflóðinu í haust eftir að afar jákvæð umsögn formanns Félags íslenskra bókaútgefanda um handrit nýjustu bókar Steinars, Konur, hafði birst á netinu án þess að sagt væri hreint út hvaða bók eða höfund væri um að ræða. Lofgjörðin hafði meðal annars birst á heimasíðu Bjarts þar sem aukinheldur var settur í gang getraunarleikur um hver væri höfundur hins lofaða handrits. Í verðlaun fyrir rétt svar var eintak af bókinni þegar hún kæmi úr prentun. En svo bárust tíðindin; Steinar var hættur við að gefa út bókina hjá Bjartsmönnum. Skýringuna á því veit ég ekki. En það sem mestu máli skiptir auðvitað er að bókin er komin út, á vegum Nýhils, en þetta er fimmta skáldsaga Steinars Braga.

Konur segir frá ungri konu, Evu, sem snýr aftur til Íslands eftir nokkurra ára búsetu í Bandaríkjunum og er að reyna að raða saman brotunum í lífi sínu. Samband Evu við sambýlismann hennar er í uppnámi en andlát barns sem þau höfðu eignast nokkrum árum áður er eitt af því sem étið hefur samband þeirra að innan jafnt og þétt. Lánið virðist leika við Evu þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni að dvelja endurgjaldslaust í háhýsi við Sæbraut. Í framhaldinu sér hún breytingarnar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi og hvernig allt snýst um peninga, banka og auðmenn. Og smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru.

Þessi saga Steinars er samtímahrollvekja sem sprottin er upp úr íslenska gullæðinu í upphafi 21. aldar. Skáldsögur höfundarins gerast gjarnan að langmestu leyti á frekar litlu svæði, í þessu tilviki í háhýsinu sem Eva býr í við Sæbraut. Húsið er eins konar míkrókosmískur dystópíuheimur en um leið er lúxusturninn ein af aðalpersónum bókarinnar. Fyrir Evu, sem líta má á sem fulltrúa kvenna almennt, er húsið einfaldlega helvíti á jörðu. Nauðganir og pyntingar, andlegar og líkamlegar, eftirlit í anda alsæis Foucaults ... það er mikið á eina manneskju (eitt kyn) lagt.

Ég kláraði bókina um miðja nótt frammi í stofusófa. Konan sofandi inni í herbergi, en við minnsta uml eða sængurskrjáf, upphaf á ísskápsmali inni í eldhúsi eða snarpt hljóð utan dyra, hrökk ég við. Og nógu erfitt var fyrir mig, karlkynslesanda, að lesa þennan hrylling þar sem ofbeldi gegn konum er upp um alla veggi og maður veit ekki á köflum hvað snýr upp og hvað niður. Í fáfræði minni um hvernig það er að vera kvenkyns lesandi leyfi ég mér að leiða líkum að því að enn erfiðara sé fyrir konu að lesa um örlög Evu í hinum miskunnarlausa karlaheimi sögunnar.

Manni er skapi næst að grípa til orðs eins og „fenómen“ til að lýsa Steinari Braga sem rithöfundi í samanburði við kollega hans hér á landi. Hann hefur eitthvað júník, eitthvað ógnvænlega sérstakt. Konur er ein magnaðasta bók sem ég hef komist í tæri við í langan tíma.

Kristján Hrafn Guðmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.